Búnaðarfræðsla

108. fundur
Föstudaginn 12. febrúar 1993, kl. 12:30:44 (5060)

     Landbúnaðarráðherra (Halldór Blöndal) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Það eru miklar kröfur gerðar til búnaðarskólanna af þeim nemendum sem þar eru og það er í mörgum tilvikum og flestum tilvikum kannski nemendur sem komnir eru á þrítugsaldur, orðnir stúdentar eða hafa menntað sig í öðrum greinum og þeir ætlast auðvitað til þess að tími þeirra nýtist vel. Það eru skólagjöld í Háskóla Íslands. Ég ítreka það sem ég sagði áðan að það hefur viðgengist í öllum búnaðarskólunum að nemendur hafa greitt efnisgjöld og ýmislegt annað þannig að hér er ekki að því leyti verið að fara neitt inn á ótroðnar slóðir. Þar að auki vil ég að síðustu segja að fjárlög hverju sinni afmarka það við hvaða fjárhæð skólagjöld miðast.