Búnaðarfræðsla

108. fundur
Föstudaginn 12. febrúar 1993, kl. 12:41:15 (5066)

     Jón Helgason :
    Hæstv. forseti. Hæstv. landbrh. svaraði ekki fyrr en eftir að hv. 1. þm. Norðurl. v. hafði komið með andsvar sitt svo að ég hafði ekki tök á að koma á eftir honum með athugasemd í andsvörum áðan en ég hef hér rétt til að tala tvisvar og þess vegna vildi ég víkja aðeins að þessu máli frekar. Að vísu hefur nú hæstv. landbrh. fært málið þannig í átt til almennrar umræðu um atvinnumál og væri það vissulega hægt að halda lengi áfram. Ég skal samt ekki fara mikið lengra út í það heldur fyrst og fremst um það atriði sem við ræddum um. Það eru skólagjöldin og það sem kom fram hjá hæstv. landbrh. í orðum hans segir mikið um eðli málsins. Hann sagði: Það fer eftir fjárlögum hverju sinni hvað skólagjöldin þurfa að vera há. Það er sem sagt búið að opna heimild með þessu að leggja skólagjöld á nemendur til þess að standa undir reksturskostnaði skólanna eins og þarf til þess að hafa skólahaldið í eðlilegu horfi, til þess að bæta upp það sem á vantar af fjárveitingu hverju sinni. Ef fjárveiting er t.d. aðeins helmingur af rekstrarkostnaði skólans, þá stendur skólanefnd og skólastjóri frammi fyrir því: Á að leggja hálfan skólakostnaðinn á nemendur eða eigum við að leggja skólahaldið niður eða skerða það stórkostlega? Frammi fyrir því sama stendur þá ráðherra, hvort hann á að samþykkja þá tillögu sem skólanefnd og skólastjórn væri knúin til þess að koma með til hans eða á að leggja skólahaldið í rúst. Og það er auðvitað erfið ákvörðun fyrir aðila sem hafa áhuga á þessari fræðslu ef þeir yrðu að skerða námið svo mikið að það yrði algerlega óviðunandi. Þetta er held ég aðalkjarninn í þessu máli. Það er verið að lögfesta þarna heimild til þess að innheimta ótakmörkuð gjöld af nemendum og upphæðin á að miðast við það, eftir því sem hæstv. landbrh. sagði, hvaða upphæð er veitt á fjárlögum, hvað mikið vantar þar til eðlilegs skólareksturs.