Búnaðarfræðsla

108. fundur
Föstudaginn 12. febrúar 1993, kl. 12:44:57 (5067)

     Kristinn H. Gunnarsson :
    Virðulegi forseti. Af efnisatriðum þessa frv. vil ég segja um 1. og 2. gr. að ég lýsi yfir andstöðu við þau áform að leggja á svokölluð skráningargjöld eins og það heitir í athugasemdum. Ég tek eftir því að þessi gjöld í 1. og 2. gr. eru tilgreind þannig í textanum að þar er sagt ,,svo sem``, ,,svo sem innritunargjöld, efnisgjöld, pappírsgjöld, nemendasjóðsgjöld`` þannig að það er ljóst af orðalagi frumvarpstextans að hér er ekki um tæmandi upptalningu að ræða á þeirri heimild sem er verið að fara fram á að fá. Ég les það út úr þessum frumvarpstexta að það mætti bæta við öðrum gjöldum en þeim sem þarna eru upp talin því að það kemur ekki fram í textanum að hér sé um að ræða tæmandi upptalningu á gjöldum sem er verið að leggja á nemendur.
    Í öðru lagi geri ég athugasemd við það að ekki er sett hámark í lagatextann á þau gjöld sem ætlað er að nemendur greiði. Hér er verið í raun og veru að fara fram á það við Alþingi að það framselji skattlagningarvald til framkvæmdarvaldsins. Ég tel að menn eigi að fara mjög varlega í að veita heimildir í þá veru og þegar hægt er að fallast á að veita slíkar heimildir verði það að gerast með afmörkuðum hætti eins og t.d. þeim að upphæð gjalda sem heimilt er að taka sé tilgreind í lagatextanum. Það tel ég algert lágmark til þess að um sé að ræða viðunandi framsal á skattlagningarvaldi að mínu mati.
    Þá vildi ég gera athugasemd við það sem ég heyrði hæstv. landbrh. í tvígang halda hér fram í ræðustól að ríkisstjórnin hefði lagt aðstöðugjaldið niður. Það er rangt, virðulegi forseti. Aðstöðugjaldið hefur ekki verið lagt niður. Lög um aðstöðugjald eru enn í fullu gildi og þeim hefur ekki verið breytt. Eina breytingin sem menn hafa gert á aðstöðugjaldi er að samþykkja sérstök lög um að það aðstöðugjald sem verður lagt á á þessu ári, 1993, verði ekki innheimt. Eða með öðrum orðum sérstök lög um innheimtu álagðs aðstöðugjalds á þessu ári, 1993. Þegar þetta ár er liðið verða hlutirnir í nákvæmlega sama fari og verið hefur, ekki aðeins að aðstöðugjaldið verði til sem skattur, heldur líka lagt á og innheimt þannig að það þarf sérstök lög til að afnema aðstöðugjaldið sem skatt og það hefur ekki verið gert. Aðstöðugjaldið er til enn þá sem skattur og það er enn þá lagt á og engin breyting hefur verið gerð á því. Og það mun verða innheimt á komandi árum nema sérstök lög verði um það sett. Þannig að það er rangt sem hér hefur verið haldið fram að búið sé að leggja niður aðstöðugjaldið. Þetta vildi ég að væri alveg skýrt svo að það væri enginn misskilningur á ferðinni af hálfu þingmanna eða annarra sem hlýða á umræður héðan frá þinginu að aðstöðugjaldið er enn til og hefur engu verið breytt í þeim efnum öðru en því að samþykkja viðbót um að álagt aðstöðugjald þessa árs verður ekki innheimt.
    Ég vil minnast á það í leiðinni, virðulegi forseti, að í fjárlögum þessa árs er umdeilanlega frá þessu gengið. Það er ekki gert ráð fyrir því í fjárlögunum að tekjuskattur eða sú upphæð sem menn ætla að innheimta í tekjuskatt á þessu ári sé í samræmi við raunveruleikann. Í lagatextanum minnir mig að standi að innheimtur tekjuskattur nettó verði 13.100 millj. en í raun og veru er gert ráð fyrir að það verði 4.350 millj. kr. hærra í innheimtan tekjuskatt nettó ef ég man þessa tölu rétt, en á móti er gert ráð fyrir að ríkissjóður greiði sveitarfélögum sérstakar greiðslur vegna aðstöðugjalds þessa árs 4.250 millj. Og ég hefði talið

eðlilegra að ganga þannig frá fjárlögum að þau væru í samræmi við veruleikann og lögin, að nettó tekjuskattur hefði verið hækkaður í fjárlögunum til samræmis við raunveruleikann og gjaldamegin í fjárlögunum væru þessar greiðslur sem eru bara eins árs greiðslur til sveitarfélaga vegna þess að aðstöðugjald þessa árs verður ekki innheimt.