Búnaðarfræðsla

108. fundur
Föstudaginn 12. febrúar 1993, kl. 12:51:14 (5069)

     Anna Ólafsdóttir Björnsson:
    Virðulegi forseti. Ég geri ráð fyrir að þetta frv. muni fá umfjöllun eins og ástæða er til í hv. landbn. Þar sem ég á ekki sæti í henni þá hef ég áhuga á því að sjónarmið mín komi á framfæri í 1. umr. og það jafnvel þótt ég viti það að þau eru hin sömu og fulltrúa okkar kvennalistakvenna í landbn. Mér finnst full ástæða til þess að gerð sé athugasemd við það þegar verið er að auka álögur á nemendur í landinu og ekki síst finnst mér það mjög hæpin röksemdafærsla sem kemur fram í athugasemdum við lagafrv. þetta sem réttlæting á því að lögð séu skólagjöld á nemendur í bændaskólunum á Hvanneyri og Hólum í Hjaltadal og sömuleiðis Garðyrkjuskóla ríkisins en það stendur þar, með leyfi forseta:
    ,,Ekki er óeðlilegt að nemendur skólanna taki einhvern þátt í fjármögnun á beinum kostnaði vegna náms við skólana, en rekstur þeirra er kostnaðarsamur og fjárveitingar þröngar.``
    Þetta er vandamál sem er skilgreint en niðurstaðan eða lausnin sem gefin er, að nemendur eigi að fara að taka þátt í fjármögnun á beinum kostnaði vegna náms við skólana og það án þess að því séu sett nokkur takmörk, finnst mér algerlega út í hött. Ef eitt nám er kostnaðarsamara en annað eins og hér er talað um og fjárveitingar þrengri til eins náms en annars --- og nú bíð ég eftir að hæstv. ráðherra finni sér tíma til þess að fylgjast með umræðunni, virðulegi forseti. Hann þurfti að rjúka frá og --- er kominn aftur. Ef eitt nám er öðru fremur dýrt og ef fjárveitingar eru skornar frekar við nögl í einu námi en öðru á það að sjálfsögðu ekki að bitna á nemendum, það er út í hött. Mér finnst þetta einfaldlega ekki gild röksemdafærsla. Ef þessi röksemdafærsla væri viðurkennd þá er verið að beina fólki í það nám sem er ódýrast og í rauninni hefur verið mikil tilhneiging til þess. Öllum hefur verið beint í bóknám og ekki í verknám vegna þess að það er svo miklu ódýrara að reka bóknám en verknám. Þetta er einmitt hluti af vanda skólakerfis okkar og ef á að opna fyrir meiri mun á þeim kostnaði sem nemendur bera af námi sínu eftir því hvaða námsleið þeir velja þá finnst mér keyra um þverbak. Ég held líka að full ástæða sé til þess að vekja athygli á því að við kvennalistakonur höfum mælt mjög eindregið gegn skólagjöldum og út af fyrir sig eru það fullgild rök í þessu máli. En ég held að enn meiri ástæða sé til þess að vekja athygli á þessari undarlegu röksemdafærslu og þeirri hættu sem er boðið heim með því að viðurkenna slíka röksemdafærslu.
    Einnig má sjá fram á það að ef hægt er að velta öllum kostnaðinum yfir á nemendurna þá er auðvitað freisting fyrir ríkið að skerða eða skera fjárveitingar sínar enn frekar niður á meðan einhverjir nemendur skila sér því að hér eru ekki settar aðrar takmarkanir en þær að ráðherra þarf að samþykkja þetta gjald. Honum er sjálfsagt vandi á höndum ef honum er ætlað að skera mikið niður í sínu ráðuneyti en einatt er verið að þrýsta á ráðherra með slíkt. Ef þetta verður að lögum mun það sjálfsagt verða framkvæmt eftir því hver heldur um stjórnvölinn en mér finnst að skýr ákvæði vanti um það að skólagjöld yfir höfuð eigi ekki að vera lögð á. Það eigi í mesta lagi að vera einhver lágmarksgjöld vegna einhverra umframþarfa vegna einhvers sérstaks náms en ekki að hægt sé að leggja á skólagjöld sem hindri nemendur í að geta valið sér nám við hæfi. Okkur veitir ekki af að hafa vel menntað fólk með fjölbreytta menntun hér og það jafnt verkmenntun sem bóknámsmenntun.