Skálholtsskóli

108. fundur
Föstudaginn 12. febrúar 1993, kl. 13:07:07 (5072)

     Jón Helgason :
    Hæstv. forseti. Ég vil taka undir með hæstv. kirkjumálaráðherra að það er nauðsynlegt að breyta lögum um Skálholtsskóla í samræmi við breyttar staðreyndir sem við blasa. Ekki þýðir að ætla sér að reka skóla sem er í engu samræmi við samtíðina og yrði aðeins dauð stofnun. Þetta frv. fer til allshn. þar sem ég á sæti og því skal ég ekki fjölyrða mikið um það en vil bera fram eina spurningu í sambandi við frv. það er að hvergi kemur fram undir hvaða ráðuneyti skólinn skal falla. Það segir aðeins í 1. gr.:
    ,,Gerður skal samningur um þátttöku ríkissjóðs`` og með fylgir samningur sem þrír ráðherrar hafa ritað undir. Ég held að nauðsynlegt sé að þessi stofnun sé ekki skilin eftir þannig í lausu lofti að ekkert ráðuneyti telji sig bera algerlega ábyrgð á starfsemi skólans þó svo að kirkjuráði sé falin stjórnin. Ég held að nauðsynlegt sé að ríkið sleppi ekki alveg af honum hendinni. Að vísu er gert ráð fyrir því með þeim samningi sem þarna fylgir að ríkið greiði a.m.k. 4 millj. næstu þrjú árin og getur vel verið að það nægi til þess að koma starfseminni eitthvað af stað. Ef kirkjunni tekst að finna þarna grundvöll til þess að reka góða stofnun, sem ég tel að sé mjög mikilvægt, ekki aðeins fyrir Skálholtsstað heldur einnig fyrir þjóðfélagið þá er slæmt að henni sé af hálfu ríkisins skorinn svo þröngur stakkur að ekki komist til framkvæmda það sem mönnum sýnist að vel geti farið. Allt þetta munum við að sjálfsögðu ræða í allshn. og ég mun styðja að þetta frv. verði afgreitt og þá á þann hátt sem samkomulag verður um að sé vænlegast fyrir þessa stofnun. En mig langaði aðeins að spyrja hæstv. kirkjumálaráðherra að því hvort ekki sé rétt að í frv. komi ótvírætt fram að þessi stofnun heyri undir kirkjumálaráðuneytið.