Skálholtsskóli

108. fundur
Föstudaginn 12. febrúar 1993, kl. 13:10:19 (5073)

     Guðrún Helgadóttir :
    Hæstv. forseti. Ég tek undir það sem síðasti hv. ræðumaður sagði. Ég fagna því að það skuli loks komið fram nýtt frv. til laga um Skálholtsskóla. Það hafði löngu verið ljóst að skólinn var í uppnámi og hvorki þjónaði þeim kröfum sem til hans voru gerðar né nýtti eins og vera skyldi það fé sem til skólans féll.
    Ég vil taka undir það sem hv. 2. þm. Suðurl. sagði að mér finnst nokkuð óljóst undir hvaða ráðuneyti skólinn á að heyra. Satt best að segja er frv. afar stutt og segir lítið. Nú kann vel að vera að það sé með ráðum gert. En ég vil benda á að það er t.d. afar óljóst hver á að veita skólanum forstöðu. Það segir ekkert um hvort þarna á að vera skólastjóri og þá hver eigi að skipa hann eftir því sem mér sýnist best. Það er því erfitt að sjá hver á að stýra skólanum ef af skóla verður.
    En meginástæðan fyrir því að ég kom í ræðustól er sú að fyrir mörgum árum, ég hygg að það hafi verið árið 1983, vakti ég athygi á því hvernig komið væri fyrir merku bókasafni sem er á Skálholtsstað. Úr því urðu nokkur blaðaskrif og satt best að segja hart sótt að mér fyrir afskiptasemina. Sú var ástæðan fyrir henni að ég kom í þetta bókasafn og fór ekki fram hjá neinum sem þangað kom að merkt safn passíusálma, ég hygg allar útgáfur passíusálma sem út hafa komið á Íslandi, lágu þarna undir skemmdum og var bæði mygla og fúkki í þessum bókum. Því var ljóst að þarna varð eitthvað að gera. Ég hygg að þegar þetta gerðist hafi fyrrv. hv. þm. Friðjón Þórðarson verið kirkjumálaráðherra og úr húsnæði var bætt þarna og rakastig lagað til þannig að ég hygg nú að þessar bækur séu í betra ástandi núna en þær voru. En enn þá hef ég nokkrar áhyggjur af þessu bókasafni vegna þess að ég hygg að þarna séu bækur sem eru

illfáanlegar annars staðar. Ég vil minna þá á sem taka við skólanum og staðnum og hafa tekið að sinna því að sá menningararfur, sem þarna er, verði ekki eyðileggingu að bráð.
    Ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvernig það sé hugsað hver stýri skólanum og hver ráði þá þann sem til þess veldist. En að öðru leyti skal ég ekki gera margar athugasemdir við frv. Ég held að það sé af hinu góða að einhver lagarammi sé gerður um rekstur staðarins. Það auðveldar fjárveitingavaldinu mjög að vita hvað menn hyggjast fyrir með þennan skóla. Ég held líka að nauðsynlegt sé að líta aðeins í yfirstjórnarmál þar á staðnum. Ég held að þau hafi ekki verið í nógu góðu lagi og kannski of margir aðilar þar að ráða sömu hlutum og skal ég ekkert fjalla frekar um það. Ég held að þarna þurfi að koma reglu á mál. Skálholt er okkur öllum afar hjartfólginn staður og ég held að varla sé til sá Íslendingur sem ekki vill veg og vanda staðarins sem mestan.
    Ég vil sérstaklega færa því fólki þakkir sem hefur reist staðinn úr deyfð og doða en það er tónlistarfólkið sem hefur haldið uppi tónleikum á ári hverju og ber þar ekki síst að þakka Helgu Ingólfsdóttur semballeikara og okkar ágæta flautuleikara Manuelu Wiesler sem oft hefur lagt þar gott til. Margir aðrir hafa með list sinni komið staðnum aftur inn á landakort íslenskrar menningar og hafa gefið fjölmörgum og þúsundum bæði erlendum mönnum og Íslendingum ógleymanlegar stundir þar á staðnum.
    Frú forseti. Ég vil aðeins að lokum óska þess að hv. allshn. fari vandlega yfir þetta frv. og geri það af næmi og mér liggur við að segja kærleika þó það sé nú ekki mikið notað orð hér í þingsölum. Ég held að þarna sé merkt mál á dagskrá og ég vil aðeins óska okkur öllum þess að Skálholtsstaður eigi eftir að endurheimta sína fornu frægð og vona að Alþingi Íslendinga standi ævinlega vörð um málefni staðarins.