Skálholtsskóli

108. fundur
Föstudaginn 12. febrúar 1993, kl. 13:34:50 (5077)

     Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson) :
    Frú forseti. Hv. 2. þm. Suðurl. gerði að umtalsefni að ekki væri skýrt undir hvaða ráðuneyti hinn nýi Skálholtsskóli mundi falla. Að vísu er rétt að það kemur ekki berum orðum fram í frumvarpstextanum en það leiðir hins vegar af eðli máls að um er að ræða skóla sem heyrir ekki lengur undir menntmrn., heldur er verið að flytja skólann frá menntmrn. til kirkjunnar. Hann mun lúta yfirstjórn hennar, þ.e. kirkjuráðs og samskipti kirkjuráðs við stjórnvöld eru við kirkjumrn. Ég tel því ótvírætt ljóst hver sé stjórnskipuleg staða skólans. Ástæða er til að ítreka það hér að það er megintilgangur þessa lagafrv. að gera skólann að sjálfstæðum skóla undir yfirstjórn kirkjuráðs en ekki undir yfirstjórn ráðuneytis. Samskipti ráðuneytis og kirkjunnar um málefni skólans fara síðan fram á grundvelli þess samnings sem gerður er og það er ástæðan fyrir því hvernig lagafrv. er samið að þessu leyti.
    Hv. 14. þm. Reykv. gerði að umtalsefni að frv. væri afar stutt og það er rétt. Í því sambandi er rétt að minna á, sem hv. 9. þm. Reykv. hefur reyndar gert, að í umræðum um málið í fyrra komu fram þær athugasemdir að frv. væri fullítarlegt og ætti að vera rammalöggjöf en kirkjan sjálf ætti að ráða meira um innra starf skólans og skipulag. Nefndin sem að þessu hefur unnið hefur fallist á þau sjónarmið og ráðuneytið fyrir sitt leyti. Ég tel það vera eðlilega skipan og það sýnir sjálfstæði skólans og kirkjunnar og þess vegna er frv. flutt í þessum búningi nú og ég hygg að það sé í sjálfu sér kostur að það skuli hafa styst.
    Hv. 9. þm. Reykv. gerði hér að umtalsefni samstarf um skipulag mála í Skálholti. Sannleikurinn er sá að ég ákvað að frumkvæði biskups að skipa nefnd til að fjalla um málefni Skálholtsstaðar, skipulag hans til lengri framtíðar og höfuðverkefni. Þetta frv. sem við erum að ræða hér er fyrsti árangur af starfi nefndarinnar en hún mun innan tíðar skila lokaskýrslu sinni. Eins og áður hefur komið fram hefur nefndin starfað undir stjórn hv. þm. Láru Margrétar Ragnarsdóttur. Í nefndinni hafa átt sæti auk fulltrúa kirkjunnar, fulltrúi frá menntmrn. og fjmrn. þannig að það heildarsamstarf þessara aðila sem hv. þm. gat um hefur átt sér stað og hillir nú undir að á grundvelli þess samstarfs liggi fyrir ákveðin skýrsla með tillögum um uppbyggingarstarf í Skálholti.

    Þá spurði hv. þm.: Hver á Skálholt? Því er auðsvarað. Ríkið tók þá ákvörðun, Alþingi Íslendinga tók þá ákvörðun á sínum tíma að afhenda kirkjunni Skálholt og um það varð góð samstaða. Það má vera að einhverjir alþýðubandalagsmenn á þeim tíma, það var snemma á þroskaferli þess flokks, hafi þá ekki haft fullan skilning á því að rétt væri að kirkjan sjálf hefði yfirráð yfir Skálholti en fagnaðarefni að nú er um það algjör þjóðarsamstaða.
    Hv. þm. gerði einnig að umræðuefni til hvaða nefndar þetta frv. ætti að fara. Um það urðu nokkrar umræður þegar frv. var flutt á síðasta þingi. Ég lít svo á með ótvíræðum hætti að þetta frv. eigi að fara til allshn. Þetta er frv. sem fjallar um skóla á vegum kirkjunnar og ber þess vegna samkvæmt þingsköpum að vísa því máli til allshn. þó í frv. sé kveðið á um að lög falli úr gildi sem til þessa hafa heyrt undir menntmrn.
    Hv. 18. þm. Reykv. spurði um fjárhagsgrundvöll frv. Skýrt er kveðið á um það í frv. hvernig hann er. Það verður síðan kirkjunnar sjálfrar að móta skólastarfið á þeim fjárhagsgrundvelli. Það er eðli þessa frv. að það starf og þær ákvarðanir eru teknar á vegum kirkjunnar en ekki stjórnvalda.
    Hv. þm. spurði einnig hvort ekki væri óeðlilegt að vísa til norrænnar lýðháskólahefðar í frv. með því að reynslan hefur sýnt að ekki hafa ræst ýtrustu vonir manna um að byggja skólann alfarið upp á grundvelli norrænnar lýðháskólahefðar. Ég tel rétt og eðlilegt að hafa þessa tilvísun í frv. Skólinn hefur enn tengsl við lýðháskóla á Norðurlöndum og væri rangt að slíta þennan grundvöll í uppbyggingu skólans á sínum tíma enda standa óskir kirkjunnar til þess að sá upphaflegi hornsteinn í skólastarfinu verði áfram virtur með þessum hætti.
    Þá spurði hv. þm. hversu fjölmennt skólaráðið ætti að vera og hverjir ættu að sitja þar. Um það eru ekki nein ákvæði í þessu frv. Það ákveður kirkjan í samþykktum fyrir skólann. Í samningnum er hins vegar tekið fram að tryggt er að tilteknum aðilum er tryggður réttur til að tilnefna menn í skólaráð eins og háskólanum og þeim aðilum sem staðið hafa að tónlistarhaldi í Skálholti með miklum myndarbrag og lyft Skálholtsstað á undanförnum árum svo og heimamönnum sem allir eru sammála um að mikilvægt er að tengja því uppbyggingarstarfi enda er og hefur verið heima fyrir mikill áhugi á starfinu.
    Frú forseti. Ég held að ég hafi þá vikið að helstu fyrirspurnum sem hafa komið fram. Ég vil þakka hv. þm. fyrir góðar undirtektir undir frv. og treysti því að Alþingi ljúki afgreiðslu þess innan ekki langs tíma.