Skálholtsskóli

108. fundur
Föstudaginn 12. febrúar 1993, kl. 13:42:18 (5078)

     Svavar Gestsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég vil þakka hæstv. dóms- og kirkjumrh. fyrir svör hans. Þó ekki síst og sérstaklega fyrir þá yfirlýsingu sem fram kom hjá honum að þjóðin væri öll sammála um að þjóðkirkjan ætti Skálholt. Það hefur bersýnilega farið fram hjá honum að fjmrn. er ekki sammála hæstv. ráðherra í þessu efni. En með þessari yfirlýsingu lít ég svo á að hæstv. ráðherra hafi tekið undir þær athugasemdir sem þjóðkirkjan hefur gert við eignaskrá ríkisins. En þjóðkirkjan hefur gert formlegar athugasemdir við eignaskrá ríkisins og komið þeim á framfæri við rétta aðila, bæði Alþingi trúi ég og sömuleiðis fjmrn. og Ríkisendurskoðun. Þetta er náttúrlega ekki síst mikilvægt vegna þess, virðulegi forseti, að núv. hæstv. dóms- og kirkjumrh. lofaði því þegar hann fékk syndaaflausn hjá biskupi --- einn kirkjumrh. hefur hann verið talinn þurfa á því að halda undanfarna áratugi --- að afhenda og tryggja það að kirkjan héldi öllum eigum sínum. Því miður var ekki tekið meira mark á orðum hans en svo að fjmrn. gaf út að bragði eignaskrá ríkisins þar sem allar kirkjurnar voru inni. En ég heyri það á hæstv. ráðherra að hann hefur fullan hug á að fylgja fyrri yfirlýsingum sínum eftir og fagna ég því að hann skuli styðja þau sjónarmið sem ég hef t.d. haldið fram í þessu efni og ég heyri að liðsmönnum mínum fjölgar ört á þessu sviði.