Hjúskaparlög

108. fundur
Föstudaginn 12. febrúar 1993, kl. 13:46:23 (5081)

     Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson) :
    Frú forseti. Ég mæli fyrir nýju frv. til hjúskaparlaga í annað sinn. Frv. er lítið breytt frá því ég mælti fyrir því í fyrra skiptið í aprílmánuði á sl. ári.
    Frv. er samið af sifjalaganefnd en í henni áttu sæti Ármann Snævarr, fyrrverandi hæstaréttardómari, sem var formaður nefndarinnar, Baldur Möller, fyrrverandi ráðuneytisstjóri, Drífa Pálsdóttir deildarstjóri og Guðrún Erlendsdóttir, forseti Hæstaréttar. Ritari nefndarinnar hefur verið Anna Guðrún Björnsdóttir, deildarstjóri í menntmrn.
    Sifjalaganefnd hefur farið að nýju yfir frv. einkum með hliðsjón af ábendingum og tillögum í umræðum á Alþingi og í umsögnum um frv. er bárust allshn.
    Með þessu frv. til nýrra hjúskaparlaga er lagt til að steypt verði í einn lagabálk ákvæðum þeirra laga sem nú eru í gildi á þessu sviði, þ.e. lögum nr. 20/1923, um réttindi og skyldur hjóna og lögum nr. 60/1972, um stofnun og slit hjúskapar, en báðum þeim lagabálkum var breytt 26. maí sl. með lögum nr. 39/1992. Þá voru ýmis ákvæði frv., sem ég mælti fyrir 3. apríl sl., felld í þau lög af tilefni aðskilnaðar dómsvalds og umboðsvalds í héraði 1. júlí sl. Auk þess voru felld í lögin nokkur ákvæði sem fólu í sér verulegar réttarbætur fyrir aðila.
    Frv. það er varð að lögum nr. 39/1992 var flutt af allshn. þar sem ekki gafst tóm til að fjalla um hjúskaparlagafrv. í nefndinni í heild sinni og afgreiða það á síðasta löggjafarþingi. Í athugasemdum með frv. er þeim breytingum, sem í því felast frá núgildandi lögum, lýst ítarlega en ég ætla að gera í stuttu máli grein fyrir því hverjar helstu breytingar felast í frv.
    Í I. kafla þess, sem fjallar m.a. um jafnstöðu og verkefnaskiptingu hjóna segir í 2. gr. að hjón séu í hvívetna jafnrétthá í hjúskap sínum. Er hér lagt til að afnuminn verði sá munur á lagastöðu karla og kvenna sem er að finna í núgildandi lögum um réttindi og skyldur hjóna. Í 2. mgr. 3. gr. er nýmæli að hjónum sé skylt að veita hvort öðru upplýsingar um efnahag sinn og afkomu.
    Í II. kafla frv. um hjónavígsluskilyrði er lagt til að fækkað verði hjúskapartálmum frá núgildandi lögum en sú stefna hefur verið ríkjandi í norrænni sifjalögjöf og víðar.
    III. kafli frv. um könnun á hjónavígsluskilyrðum hefur að geyma nokkuð fyllri reglur um þetta efni en eru í núgildandi lögum en felur ekki í sér umtalsverðar breytingar á þeim enda þykja þær hafa gefið góða raun.
    Í IV. kafla frv. um hjónavígslu er fjallað um borgaralega og kirkjulega hjónavígslu, hverjir framkvæmi hana og hvar og hverjum sé kræf borgaraleg hjónavígsla. Þar eru m.a. skýrari ákvæði en í núgildandi lögum um heimildir þjóðkirkjupresta sem látið hafa af embætti til að gefa saman hjón og það nýmæli að skyldleiki eða vensl vígslumanns við hjónaefni valdi ekki vanhæfi hans til þess.
    Í V. kafla frv. um ógildingu hjúskapar er svo til óbreyttur frá núgildandi lögum en þetta réttarúrræði er nánast óþekkt hér á landi og í nágrannalöndum okkar.
    Ýmis ákvæði VI. kafla frv. um hjónaskilnaði voru lögfest með lögum nr. 39/1992. Þar gætir verulegara nýmæla og hafa reglur um hjónaskilnaði verið einfaldaðar og skilnaðarástæðum fækkað. Í 40. og 42. gr. er að finna veigamiklar breytingar. Í 40. gr. frv. er mælt fyrir um lögskilnaðarástæðu sem miðast við að annar maki beiti hitt ofbeldi eða gerist sekur um ósæmilegt atferli af kynferðistoga gagnvart börnum sem búa hjá hjónum. Atferli sem greinin tekur til getur falið í sér líkamsárás, sbr. XXIII. kafla almennra hegningarlaga, eða verið kynferðisbrot samkvæmt XXII. kafla sömu laga. Þetta atferli er oft ofbeldiskennt en getur einnig verið ósæmileg kynferðishegðun án þess að beitt sé ofbeldi. Í upphaflegri gerð frv. var þessum verknaðartilvikum lýst samfellt með almennu orðalagi og án sundurgreiningar. Við endurskoðun greinarinnar var talið gleggra að greina sérstaklega hvort tilvik um sig, líkamsárás og kynferðisbrot, og þykir það marka betur efnisinntak lögskilnaðarástæðunnar.
    Sáttaákvæði í 42. gr. frv. hefur að geyma nokkur nýmæli, m.a. að ekki sé skylt að leita sátta með hjónum um framhald hjúskaparins nema þau hafi forsjá fyrir ósjálfráða börnum en við þær aðstæður mælir tillitið til barna með skyldubundnum sáttatilraunum. Í öðrum tilvikum þykja ekki rök til að þvinga hjón til sáttaumleitana en lögð er áhersla á að þau eigi þess ávallt kost þegar þess er óskað.
    Í VII. kafla frv. eru svo einkaréttarreglur um ábyrgð hjóna á framfærslu fjölskyldunnar. Í þessum kafla eru felld saman ákvæði um framfærsluskyldu hjóna, bæði meðan hjúskapur varir og eftir skilnað hjóna en ekki gætir verulegra nýmæla frá gildandi rétti. Ákvæðin eru þó um margt einfaldari í sniðum en núgildandi lagareglur.
    Ákvæðum í VIII. kafla frv. sem fela í sér nokkur nýmæli er einkum ætlað það hlutverk að veita yfirlit yfir eignadeildir í hjúskap og hafa leiðsögugildi. Í 53. gr. er eignamynstri í hjúskap lýst samfellt og þar greindar þær eignadeildir sem til greina geta komið og í 54. gr. er hugtakið ,,hjúskapareign`` skilgreint.

Í 55. gr. segir hvernig séreignir geti myndast og í 56. gr. er fjallað um sameignir hjóna og þar lagt til að fræðiskýring verði lögfest.
    Í IX. kafla um forræði maka á eignum sínum gætir ekki nýmæla í fyrri þætti kaflans um almenn ákvæði. Í síðari þætti hans um takmarkanir og forræði maka yfir eignum sínum er fjölskyldu maka veitt ríkari vernd gegn ráðstöfun hans á fasteign er fjölskyldan býr í en í gildandi lögum og einnig gegn ráðstöfun maka á innbúi á sameiginlegu heimili hjóna o.fl. Þá er ákvæði í 66. gr. um heimild til riftunar á gjöf maka til þriðja manns nýmæli.
    Í X. kafla frv. um skuldaábyrgð hjóna er safnað saman í einn kafla dreifðum ákvæðum um þetta efni í lögum nr. 20/1923, um réttindi og skyldur hjóna, en meginreglurnar eru óbreyttar. Lagt er til að afnumin verði ákvæði gildandi laga er mismuna hjónum með einum eða öðrum hætti, enda samrýmast þau ekki jafnréttisviðhorfum nútímans.
    Í XI. kafla eru ákvæði um samninga milli hjóna, þar á meðal séreignir samkvæmt kaupmála. Samhengisins vegna eru einnig í kaflanum reglur um aðrar séreignir, svo sem vegna fyrirmæla gefenda eða arfleiðenda. Helstu nýmæli kaflans eru þau að lagt er til að unnt sé að ákveða með kaupmála að venjulegt innbú á sameiginlegu heimili hjóna sem aflað er eftir gerð kaupmála verði séreign og unnt verði að tímabinda kaupmála og gera þá skilyrta, t.d. þannig að kaupmáli hafi ekki lengur gildi ef hjón eignast sameiginlegan skylduerfingja. Fleiri nýmæli eru einnig í þessum kafla sem er ítarlega lýst í athugasemdum með frv.
    Í XII. kafla frv. sem fjallar um kaupmála er skipað samfellt dreifðum ákvæðum laga nr. 20/1923, m.a. um hæfi til kaupmálagerðar, form kaupmála og reglur um skráningu þeirra. Í kaflanum eru ýmis nýmæli, m.a. vottun á undirritun kaupmála, skráningu í veðmálabækur, afskráningu kaupmála o.fl. Reglur um skráningu kaupmála eru svipaðar núgildandi reglum sem hafa verið lagaðar að nýjum lögum. Um fjárskipti milli hjóna án skilnaðar og vegna hjúskaparslita greinir í XIII. og XIV. kafla frv. Í þessum köflum er m.a. að finna efnisreglur um opinber skipti til fjárslita milli hjóna þar sem reglan um helmingaskipti milli hjóna er eftir sem áður meginregla við þessi skipti en rýmkaðar heimildir eru til frávika frá henni frá því sem er í núgildandi lögum. Einnig er þess freistað að gera aðgengilegt yfirlit yfir ferli skiptameðferðar með því m.a. að vísa til viðeigandi reglna í XIV. kafla skiptalaga nr. 20/1991. Hér gætir ýmissa nýmæla sem eru rækilega reifuð í athugasemdum með frv.
    Í XV. kafla frv. eru reglur um réttarfar í hjúskaparmálum og í XVI. kafla eru ákvæði um meðferð og úrlausn stjórnvalda í málum samkvæmt frv. Báðir þessir kaflar voru felldir í hjúkskaparlögum með lögum nr. 39/1992.
    Í XVII. kafla er loks fjallað um gildistöku laganna sem lagt er til að verði þann 1. júlí nk., lagaskil og brottfallin lög.
    Frú forseti. Ég hef þá í öllum aðalatriðum farið yfir meginefni þessa nýja frv. til hjúskaparlaga og legg til að frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. allshn. og 2. umr.