Umferðarlög

108. fundur
Föstudaginn 12. febrúar 1993, kl. 14:29:27 (5086)

     Jóhann Ársælsson :
    Virðulegur forseti. Ég vil þakka hæstv. dómsmrh. fyrir að flytja þetta frv. og tel að í því séu ýmis atriði sem ástæða er til að komi til breytinga á þeim lögum sem eru í gildi. Ég vil benda á það að ég skil það þannig að þegar talað er um torfærutæki þá sé ekki verið t.d. að tala um snjósleða. Er það réttur skilningur minn? Ég tel að það sé full ástæða til að velta því fyrir sér hvort það eigi ekki að hafa snjósleðana með í þeirri skilgreiningu yfir það sem menn kalla torfærutæki. Það er mjög nauðsynlegt finnst mér að koma betra skikki á það hvernig menn fara með þau tæki, ekki síður en hvernig menn fara með fjórhjól eða þríhjól eða önnur torfærutæki.

    Ég vil fagna því að það komist inn ákvæði þar sem þeir möguleikar til að æfa ungt fólk í meðferð ökutækja verða bættir. Þetta hafa menn verið að stelast til að gera í gegnum tíðina og stundum verið teknir af lögreglunni. Ég veit ekki hvort menn hafa verið sektaðir, en áminntir, og alla vega veit ég til þess að lögreglan hefur verið að framfylgja því að það sé ekki verið að leyfa unglingum að keyra bíla þó það sé utan alfaravegar, þá hafa löggæslumenn talið sig verða að skipta sér af því ef þeir hafa orðið varir við það. Ég tel að það sé til mikilla bóta að gefa þennan möguleika.
    En það var kannski aðallega eitt sem fékk mig til þess að standa hér upp til að taka til máls við þessa umræðu og það voru þau orð hæstv. dómsmrh. að Bifreiðaskoðun Íslands hefði staðið myndarlega að því að skoða ökutæki og því verkefni sem hún hefur tekið að sér á því sviði. Það er kannski hægt að hafa orðið ,,myndarlegt`` um gjaldskrána og uppbyggingu fyrirtækisins í upphafi. En það fer nú að fjúka í skjólin þegar menn fara að skoða hvernig málin standa núna. Nú hefur Bifreiðaskoðun Íslands ákveðið það að hún ætli ekki að mæta með sín tæki til að skoða bifreiðir á stórum svæðum landsins. Ég held t.d. að það sé ekki meiningin að bjóða upp á bifreiðaskoðun á norðanverðu Snæfellsnesi á þessu ári. Þeir sem eiga að láta skoða bílana sína samkvæmt lögum á því svæði verða væntanlega að keyra suður á Akranes eða eitthvað annað til þess að láta þá skoðun fara fram. Svoleiðis er þetta vítt og breitt um landið. Ég hef ekki séð þessi bréf frá Bifreiðaskoðun og veit ekki nákvæmlega hvernig þessu er farið en ég veit það að það er ætlast til þess að menn keyri hundruð km til þess að láta fara fram þá skoðun sem fyrir er mælt með lögum að skuli fara fram. Og ég verð að segja það að ég get ekki kallað það myndarlega staðið að málum fyrir nú utan margt annað sem maður mundi vilja ræða í sambandi við Bifreiðaskoðun Íslands og hefði verið ástæða til þess að láta fara fram athugun og láta gera sérstaklega skýrslu. Og ég vil nú spyrja hæstv. ráðherra að því hvort hann muni ekki beita sér fyrir því að það verði gefin út sérstök skýrsla um það með hvaða hætti til hefur tekist að einkavæða skoðun bifreiða á Íslandi og það verður þá allt tekið þar með, kostnaður þeirra sem þurfa að láta skoða bílana sína og sú þjónusta sem upp á er boðið, hvað menn höfðu áður en Bifreiðaskoðun Íslands tók við þessu og hvað menn höfðu í dag í þjónustu og eins hvernig eignamálin standa, hver eignamyndunin hefur verið í þessu fyrirtæki og með hvaða hætti hún hefur orðið. Ég tel að þarna sé á ferðinni mikið slys hvernig að þessum málum var staðið á sínum tíma og einkareksturinn á þessu og einokunin sem raunverulega er þarna fyrir hendi en hefur þó verið dregið dálítið úr að allt hefur þetta hefur þetta meira og minna farið óhönduglega hjá stjórnvöldum alveg frá upphafi málsins, ég tek það fram.