Umferðarlög

108. fundur
Föstudaginn 12. febrúar 1993, kl. 14:37:52 (5088)

     Jóhann Ársælsson :
    Virðulegur forseti. Ég get nú ekki sagt að ég geti bundið miklar vonir við það þó að nýir aðilar fái tækifæri til þess að setja upp skoðunarstofu af þessu tagi eða bifreiðaskoðun. Mér skilst að þær kröfur sem verði gerðar til þeirra fyrirtækja verði það strangar og það þurfi það dýran búnað til þess að fullnægja þeim að það sé nú ekki líklegt að einhverjir aðilar fari að setja upp skoðunarstöðvar þar sem Bifreiðaskoðun Íslands sem hefur nú einkarétt á þessu í dag og hefur allt landið undir treysti sér ekki til þess að láta einu sinni sínar skoðunarstöðvar sem eru þó á hjólum koma einu sinni á ári eða tvisvar til þess að láta skoða bílana. Mér finnst það ákaflega ólíklegt að þessum aðilum verði bætt upp þjónustan með einkareknum skoðunarstöðvum ef það er rétt sem ég hef heyrt um þessar kröfur. Þannig að því miður get ég ekki bundið miklar vonir við þetta.
    Ég fagna því heldur ekkert sérstaklega þó að hæstv. ráðherra sé að lýsa því yfir að það standi til að fara að selja hlut ríkisins í þessu fyrirtæki vegna þess að ég tel að það sé full ástæða til þess að ríkið reyni að standa í ístaðinu inni í þessu fyrirtæki og stjórna þessum málum að einhverju leyti með sínu eignarhaldi þar þangað til þessum málum er þá komið í betra og eðlilegra horf heldur en nú er. Þetta fyrirtæki er rekið frá upphafi því miður sem algert gróðafyrirtæki og þó að hæstv. ráðherra hafi nú beitt sér fyrir því að reyna að draga svolítið úr því hvernig menn höguðu sér gagnvart neytendum á síðasta ári, þá hefur það ekki dugað til og nú er þetta nýja komið upp að nú á bara að draga úr þjónustunni og í staðinn fyrir að þessu fyrirtæki hefði þá verið gert skylt að veita a.m.k. einhverja lágmarksþjónustu, þá getur það komist upp með það að bara hætta að veita þjónustuna. Og það skal þá bara vera mál þeirra manna sem bílana eiga hvar sem þeir búa á landinu hvort þeir komast einhvers staðar í skoðun eða hvort þeir keyri 200--300 km til þess að mæta til skoðunar. Ég tel að hæstv. ráðherra hefði átt að beita sér fyrir því og hann eigi að beita sér fyrir því að Bifreiðaskoðun Íslands veiti þá þjónustu sem eðlileg er þar til skipan mála hefur breyst með þeim hætti að það sé ekki allt of langt til næstu skoðunarstöðvar fyrir bíleigendur í landinu.