Aðild Alþingis að 50 ára afmæli lýðveldisins

108. fundur
Föstudaginn 12. febrúar 1993, kl. 14:52:33 (5091)

     Flm. (Svavar Gestsson ):
    Virðulegi forseti. Eins og fram kom í máli hæstv. forsrh. áðan eru þær tillögur sem eru á dagskrá þessa fundar varðandi afmæli lýðveldisins það skyldar að eðlilegt er að þær séu ræddar saman. Tillögurnar eru að mörgu leyti svipaðar að öðru leyti en því að í tillögu hæstv. ríkisstjórnar er gert ráð fyrir því að ríkisstjórnin skipi sex manna nefnd þar sem flokkarnir tilnefni fulltrúa en hæstv. forsrh. skipi síðan formann nefndarinnar. Í tillögu minni og tveggja annarra þingmanna, hv. þm. Jóns Helgasonar og Kristínar Einarsdóttur, er hins vegar gert ráð fyrir því að Alþingi kjósi hlutfallskosningu sjö manna nefnd er hafi það verkefni að undirbúa af hálfu Alþingis 50 ára afmæli íslenska lýðveldisins 1994. Nefndin kjósi sér sjálf formann og kostnaður af störfum hennar skuli greiddur af Alþingi, eins og segir í okkar tillögu, til að undirstrika að við viljum að Alþingi sjálft ákveði hvernig því verði hagað að minnast 50 ára afmælisins en það verði ekki ríkisstjórnin ein sem hafi með það mál að gera.
    Í grg. tillögunnar segir svo, með leyfi forseta:
    ,,Aðeins tæp tvö ár eru þar til lýðveldið Ísland á 50 ára afmæli.`` --- Það hefur reyndar styst vegna þess að það hefur dregist að mælt væri fyrir tillögunni. --- ,,Nauðsynlegt er að hefjast þegar handa við að undirbúa afmælið með viðeigandi hætti. Alþingi hefur jafnan skipað öndvegi við undirbúning stærri hátíðahalda þjóðarinnar. Því er eðlilegt að Alþingi hafi forustu um hátíðahöld á 50 ára afmæli lýðveldisins.
    Hér verður ekki gerð nein tilraun til þess að birta yfirlit yfir það sem gera mætti í tilefni hátíðarinnar. Benda má þó á átak í menningarmálum, bæði almennt og á einstökum sviðum menningar, átak í umhverfismálum o.fl.
    Í tillögunni sjálfri er hins vegar kveðið á um það að flýtt verði af þessu tilefni endurskoðun stjórnarskrárinnar. Sá dráttur, sem orðið hefur á því verki, hlýtur að vera Alþingi áhyggjuefni. Því er lagt til að þannig verði á málum haldið að Alþingi nái að samþykkja nýja stjórnarskrá fyrir 50 ára afmælið.`` --- Stendur í grg. sem er skrifuð fyrir alllöngu, líklega rúmu ári síðan. ,,Hér er átt við almenn ákvæði stjórnarskrárinnar en ekki þau sem lúta að kosningalögunum. Um þau gilda allt önnur lögmál og reynslan sýnir að það er ekki affarasælt að blanda þessum málum saman.
    Í framsögu verður greint frá ýmsum hugmyndum sem til greina koma við það að minnast 50 ára afmælis lýðveldisins.`` --- Segir hér, o.s.frv.
    Með öðrum orðum er hér gefið undir fótinn með það tvennt að annaðhvort verði lögð áhersla á að efna til sérstakra menningarviðburða í tilefni af 50 ára afmæli lýðveldisins með menningahátíðahöldum af margvíslegu tagi. En þegar kemur að því hefur það verið svo í seinni tíð að mér a.m.k. hefur fundist að hugmyndir manna um hátíðahöld af þessu tagi séu oft býsna fátæklegar. Menn reyna að endurtaka svo að segja frá hátíð til hátíðar eitt og annað sem verður oft býsna leiðigjarnt og fábreytilegt. Spurningin er þess vegna fyrst og fremst sú hvort það er hugsanlegt að við getum hér á Alþingi náð saman um eitthvað sem sameinar okkur og þjóðina líka, eitthvað sem kostar kannski ekki verulega fjármuni en markar tímamót og er um leið í okkar verkahring að gera eitthvað sem við höfum kannski vanrækt alllengi.
    Ég er þeirrar skoðunar að það sem við gætum best gert í þessu efni væri að sameinast um endurskoðun á stjórnarskránni. Að við göngum í það verk með myndarlegum hætti með fulltrúum frá öllum flokkum að endurskoða stjórnarskrána í heild, ekki síst mannréttindaákvæði hennar og að við í því skyni látum ekki nægja að setja niður stjórnarskrárnefnd eða framlengja umboð þeirrar sem nú situr, heldur ákveðum að halda sérstakt stjórnlagaþing sem tekur fyrir stjórnarskrána eina og ekkert annað og tekur ekki kosningalagaþáttinn. Vegna þess að reynslan er sú að um hann þurfa menn margt að deila og margt að pexa og þræta fram og aftur en að við látum okkur nægja að taka fyrir hina almennu mannréttindaþætti stjórnarskrárinnar.
    Til þess að rökstyðja þetta enn frekar má í fyrsta lagi benda á þá umræðu sem varð hér um stjórnarskrána um daginn í sambandi við Evrópskt efnahagssvæði. Það er alveg greinilegt að það er bullandi ágreiningur um ýmis atriði varðandi framkvæmd og túlkun stjórnarskrárinnar. Það er slæmt fyrir þjóðina að það sé ágreingur um grundvallarlögin sjálf. Í öðru lagi má benda á að þegar stjórnarskráin var sett 1944 töldu menn og lýstu því yfir að hún væri sett til bráðabirgða eins og hún leit út. Í því sambandi leyfi ég mér, virðulegi forseti, að vitna til ritgerðar um stjórnarskrána frá árinu 1945 eftir Ólaf Jóhannesson fyrrv. forsrh. þar sem hann segir:
    ,,Þó að sú stjórnarskrá ásamt síðari breytingum væri frjálsleg í ýmsum greinum er ekki nema eðlilegt að sum þeirra ákvæða er þá þóttu réttmæt og viðeigandi þurfi nú nokkurrar endurskoðunar og breytingar við.`` --- Á árinu 1945 er þetta sagt. --- ,,Viðhorf manna og ýmsar ástæður hafa tekið svo gagngerðum breytingum frá þeim tíma er þessi ákvæði urðu upphaflega til. Mun það nú orðið nokkuð almenn skoðun að þörf sé ýmissa endurbóta á lýðveldisstjórnarskránni enda í rauninni ráðgert að stjórnarskrá sú er samþykkt var í fyrra yrði aðeins bráðabirgðastjórnarskrá sem tekin skyldi til rækilegrar endurskoðunar.``
    Þessi orð voru skrifuð á árinu 1945.
    Í þriðja lagi bendi ég á í þessu sambandi, virðulegi forseti, að umboðsmaður Alþingis hefur fyrir alllöngu, ég hygg að það hafi verið á árinu 1988, sent forsetum Alþingis bréf þar sem hann vakti athygli á því að í íslensku stjórnarskrána vanti ákvæði um veigamikil mannréttindi svo sem --- ég vitna til bréfs umboðsmanns --- ,,um skoðanafrelsi, um jafnrétti, um bann við afturvirkum refsilögum, um vernd fjölskyldulífs og rétt til réttlátrar málsmeðferðar fyrir dómi``. Það er skoðun umboðsmanns sem kemur enn fremur fram í þessu bréfi: ,, . . .   að setning nýrrar stjórnarskrár hafi dregist úr hófi.``
    Það ber því allt að sama brunni í þessum efnum. Þarna eigum við verk að vinna. Þarna höfum við vanrækt verk sem við þurfum að vinna í þessari virðulegu stofnun.
    Ég hefði þess vegna haldið að menn ættu mjög alvarlega að velta því fyrir sér hvort ekki er unnt að ná samstöðu um þessi almennu ákvæði stjórnarskrárinnar í tengslum við eða fyrir 50 ára afmæli lýðveldisins sumarið 1994.
    Til viðbótar við þessi almennu orð má kannski benda á það, virðulegi forseti, að fjöldi þingmanna hefur flutt frv. um breytingar á stjórnarskránni. Í því sambandi nefni ég t.d. mjög mörg þingmál sem hv. 3. þm. Norðurl. v. hefur flutt um breytingar á stjórnarskránni. Mig minnir einnig að t.d. hv. 1. þm. Norðurl. v. og hv. 1. þm. Vestf. hafi iðulega flutt frv. um breytingar á stjórnarskránni. Það er því ljóst að mjög margir þingmenn hafa velt þessum málum fyrir sér. Þess vegna legg ég á þetta svo mikla áherslu hér, virðulegi forseti, að ég tel að hér sé um að ræða mál sem er með þeim hætti að það eigi að vera hægt að sameina þingið og þjóðina um það.
    Ég lagði á það áherslu áðan, virðulegi forseti, að kosningalagaþátturinn yrði fyrir utan þetta mál og það segi ég af gamalli reynslu. Við reyndum að vinna að þessu hvoru tveggja í senn á árunum 1980 til 1983. Það tókst ekki. Þá urðu menn svo uppteknir af kosningalagaþættinum að menn fengust ekki til þess að afgreiða hinn almenna þátt stjórnarskrárinnar. Ég heyri núna að ýmsir aðilar eru að hreyfa hugmyndum um breytingar á kosningalögum. Það hef ég gert með munnlegum hætti á opinberum vettvangi en ég sé líka að Samband ungra sjálfstæðismanna, trúi ég, og einhverjir aðilar á vegum Sjálfstfl. eru að hreyfa þessum hugmyndum. Það er gott og vel. En ég legg þó á það mikla áherslu í þessu sambandi að ef menn ætla að breyta kosningalögunum yfir höfuð, þá er það sérverkefni og sjálfstætt verkefni. Ég held að það væri beinlínis hættulegt ef menn færu að blanda þessu tvennu saman. Reynslan sýnir okkur að það gæti stöðvað stjórnarskrármálið sem slíkt og það er þess vegna sem ég hef lagt á það þetta mikla áherslu.
    Ég tel með öðrum orðum, virðulegi forseti, að það sé við hæfi að við ákveðum í tilefni af 50 ára afmæli lýðveldisins að endurskoða stjórnarskrána, að við höldum stjórnlagaþing, að við höldum þing á Þingvöllum og ljúkum þeirri endurskoðun stjórnarskrárinnar í tilefni 50 ára afmælisins og við reisum okkur dálítið og reynum að finna samnefnara sem við finnum öll að við eigum dálítið í.
    Ég hef ekki hugsað mér, virðulegi forseti, að gera um það tillögu að þessari tillögu verði á þessu stigi málsins vísað til nefndar. Ég ætla aðeins að leggja til að henni verði vísað til síðari umræðu með von um að forsætisnefnd og aðrir forustumenn í þinginu, eins og formenn þingflokkanna, taki málin almennt til skoðunar á næstunni. Ég tel það heppilegri og affarasælli leið en að binda mál af þessu tagi í einni þingnefnd.