Aðild Alþingis að 50 ára afmæli lýðveldisins

108. fundur
Föstudaginn 12. febrúar 1993, kl. 15:03:20 (5092)

     Salome Þorkelsdóttir :
    Hæstv. forseti. Hér hefur verið mælt fyrir tveimur till. til þál. sem varða hálfrar aldar afmæli lýðveldisins sem er á næsta ári. Annars vegar tillaga sú sem hæstv. forsrh. mælti fyrir og er á þskj. 351 og hins vegar sú tillaga sem hv. 9. þm. Reykv., 1. flm., hefur nú mælt fyrir og er á þskj. 192.
    Ég er flm. þessarar till. til þál. sammála um það að Alþingi hefur í krafti sögunnar veigamiklu hlutverki að gegna við undirbúning hátíðahalda á 50 ára afmæli lýðveldisins og að þess verði minnst á verðugan hátt. Í mínum huga ber að gera það með þeim hætti að það verði til að styrkja samstöðu og samkennd þjóðarinnar. Þetta mál er þess eðlis að það á að vera hafið yfir allt dægurþras og flokkadrætti því eitt er okkur Íslendingum heilagt og það er sjálfstæði okkar sem þjóðar. Ef það er einhver stund sem Íslendingar hafa upplifað að þjóðin fyndi til samkenndar sem ein sál, þjóðarsál liggur mér við að segja, þá var það í rigningunni á Þingvöllum 17. júní 1944. 50 ár eru að vísu ekki langur tími í lífshlaupi þjóðar og okkur, sem áttum því láni að fagna að vera stödd á Þingvöllum á þeirri hátíðlegu stundu þegar lýst var yfir stofnun fullvalda og sjálfstæðs ríkis á Íslandi, mun sú stund ógleymanleg.
    Ég þakka flm. fyrir að leggja þessa tillögu fram og hreyfa málinu. Það er vissulega löngu tímabært að hefja undirbúning málsins en það er líka rétt að taka fram að málið hefur verið í undirbúningi þó með óformlegum hætti sé. Bæði hefur verið rætt á fundum í forsætisnefnd og við forsrh. um undirbúning málsins. Það gefur auga leið að Alþingi og ríkisstjórn hljóta að hafa náið samráð sín á milli um mótun tillagna er varða hátíðahaldið og undirbúning þess. Að sjálfsögðu í góðri samvinnu allra þingflokka. Þannig hefur ávallt verið að málum staðið þegar merkra atburða hefur verið minnst í sögu íslensku þjóðarinnar. Þá hef ég í huga Alþingishátíðina 1930, stofnun lýðveldisins 1944 og hátíðahöldin sem fram fóru á Þingvöllum 1974 í tilefni 1100 ára afmælis Íslandsbyggðar.
    Ýmislegt hefur borið á góma og verið til athugunar um efnislega þætti undirbúnings. Ég ætla ekki að fara að tíunda það sérstaklega hér en ég vil gjarnan nefna erindi frá Þjóðskjalasafni Íslands sem hefur lýst áhuga á að eiga hlut að hátíðahöldum í tilefni 50 ára afmælis lýðveldisins með því að gefa út á bók með skjölum og skýringum á sögu lýðveldisins. Þá hefur Þingvallanefnd lýst yfir vilja sínum til samstarfs um þau atriði sem snúa að væntanlegum hátíðahöldum á Þingvöllum og einnig hefur heimildarkvikmynd verið nefnd. En það verður að sjálfsögðu verkefni þeirrar undirbúningsnefndar, sem væntanlega verður kosin, að kanna með hvaða hætti best verður staðið að slíkum hátíðahöldum og sé ég því ekki ástæðu til að fara nánar út í einstök efnisatriði.
    Ég ítreka að það er mikilvægt að á hv. Alþingi verði góð samvinna um undirbúning þessa merka áfanga í sögu lýðveldisins. Þessi atburður á sér svo rík ítök í hugum okkar allra að höfuðmáli skiptir að við leggjumst á eitt um að gefa hátíðahaldinu sem vandaðastan og veglegastan blæ.
    Þá er efst í huga að minnast með hlýhug og þakklæti þeirra kynslóða sem börðust fyrir auknu sjálfstæði íslensku þjóðarinnar og bjuggu í haginn fyrir komandi kynslóðir. Að því búum við í dag.
    Varðandi þann þátt tillögunnar sem er á þskj. 192 og lýtur að nýrri stjórnarskrá vil ég taka undir orð hv. 9. þm. Reykv. áðan að vissulega væri við hæfi að sameinast um það mál og mér finnst ástæða til að kanna það. Ef hægt væri að koma því í kring að sett yrði ný stjórnarskrá, að sjálfsögðu yrði þátturinn um kosningalög og kjördæmaskipan að vera undanskilinn, get ég tekið undir að það gæti orðið verðugt viðfangsefni.
    Ég nefndi að það væri mikilvægt að við sameinuðumst um með hvaða hætti staðið verður að undirbúningnum. Þessi tillaga gerir ráð fyrir því að kjósa sjö manna nefnd hlutfallskosningu. Tillaga sú sem hæstv. forsrh. mælti fyrir gerir ráð fyrir að fulltrúar allra þingflokka eigi sæti í þessari undirbúningsnefnd. Ég á von á því að allir geti sameinast um þetta atriði. Mér finnst eðlilegt að skipuð verði nefnd að tilhlutan allra þingflokka.
    Eins og kom fram í máli hv. 9. þm. Reykv. er ekki lagt til að þessum tillögum verði vísað til fastanefndar heldur gert ráð fyrir að forsætisnefnd fjalli um þær áður en þær koma fyrir þingið aftur til afgreiðslu. Ég get tekið undir þessa hugmynd hans. Mér finnst það einföld og góð lausn og með því móti væri hægt að afgreiða þetta mál með skjótum hætti. Ég vil gjarnan geta þess að það var einmitt sú hugmynd sem ég hafði um hvernig staðið yrði að afgreiðslu þessa máls, að það yrði í samráði við forsætisnefnd og formenn þingflokka sem mundu væntanlega fjalla um það.
    Ég sé ekki ástæðu til að hafa þessi orð mín fleiri. Ég vildi aðeins láta í ljósi stuðning minn við þessar tvær tillögur og þykist mega treysta því að um það náist góð samstaða í þinginu hvernig að þessum málum verður staðið.