Aðild Alþingis að 50 ára afmæli lýðveldisins

108. fundur
Föstudaginn 12. febrúar 1993, kl. 15:27:21 (5096)

     Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) :
    Virðulegi forseti. Aðeins vegna þess sem hv. 1. flm. síðari tillögunnar nefndi, þá vek ég athygli á því að báðar tillögurnar gera ráð fyrir atbeina Alþingis, annars vegar með kosningu nefndar og hins vegar skipun nefndar þar sem hver þingflokkur tilnefnir einn fulltrúa til setu í nefndinni. Ég vil taka það strax fram að mér er sú skipan ekkert föst í hendi þannig að ef fram kemur ríkur vilji innan forsætisnefndarinnar til breytingar er ég fyrir mitt leyti opinn fyrir breytingum í þá veru sem mönnum finnst skynsamlegast.
    Vegna þess sem hv. flm. nefndi um stjórnarskrána, þá get ég tekið undir með honum að það er umhugsunarefni hvort ekki beri að nota þetta tækifæri og tilefni til að hnykkja á þeirri vinnu sem menn hafa viljað láta fara fram en þá finnst mér koma til athugunar hvort ekki væri rétt að kjósa nýja stjórnarskrárnefnd. Við höfum ekki kosið stjórnarskrárnefnd síðan 1978. Ég tel því a.m.k. umhugsunarefni hvort ekki væri rétt að kjósa sérstaklega nýja stjórnarskrárnefnd til þess að fjalla tiltölulega hratt um þetta mál þrátt fyrir að fyrir liggi mikil vinna frá fyrri stjórnarskrárnefndum og sérfræðingum sem fyrir þær nefndir hafa starfað.
    Vegna þess sem segir í greinargerðinni að þannig yrði haldið á málum að Alþingi næði að samþykkja nýja stjórnarskrá fyrir 50 ára afmælið, þá vil ég hafa fyrirvara í þeim efnum því að þar með eru menn að setja ákveðinn endapunkt á kjörtímabilið og ég hef ákveðin sjónarmið, eins og menn geta ímyndað sér, í því sambandi. En það á ekki að þurfa að breyta hinu að meginvinna gæti verið langt komin á afmælisárinu þó ég vilji ekki skuldbinda mig til að standa að því að stjórnarskrárbreyting yrði samþykkt hinn 17. júní 1994 og kjörtímabilið þar með stytt um tæpt eitt ár.
    Mér finnst fullkomlega koma til álita það sem nefnt er í greinargerðinni, og reyndar í tillögunni sjálfri, um að huga sérstaklega að stjórnarskránni en þá bið ég menn að hugleiða hvort ekki sé við hæfi að skipuð verði ný stjórnarskrárnefnd til að fjalla um þá þætti sérstaklega.