Vextir og kjarasamningar

109. fundur
Þriðjudaginn 16. febrúar 1993, kl. 13:40:59 (5106)

     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) :
    Virðulegi forseti. Ég verð enn á ný að hryggja hv. þm. með því að hér í þingsal geta ekki farið fram kjarasamningar enda hygg ég að hv. 1. þm. Austurl. hafi ekki umboð frá verkalýðnum eða launþegum í opinberri þjónustu þótt hann taki laun af hinu opinbera til þess að gera samning við mig hér og nú um það hvernig eigi að haga skattbyrði almennings hér á landi. Hann verður að fyrirgefa mér það þótt ég gefi svör um slíkt annars staðar en hér.
    Í öðru lagi vil ég segja við hv. þm. að ríkisstjórnin hefur m.a. gert það að draga þannig úr lánsfjárþörf ríkisins að í ár er gert ráð fyrir því að lánsfjárþörf hins opinbera séu 26 milljarðar af þeim 34--36, jafnvel 40 milljörðum sem eru nýr sparnaður í landinu, en 1991 þegar hv. þm. sat í ríkisstjórn skildi sú stjórn þannig við að innlendur sparnaður var 36 milljarðar en fjárþörf ríkissjóðs og opinberra aðila voru 40 milljarðar eða langt umfram það sem bauðst á innlendum markaði. Þessu höfum við snúið við. Það hefur kostað sárindi og erfiðleika en við ætlum að starfa áfram á þeirri braut til þess að geta náð niður vaxtastiginu.