Skyndilokanir á afréttum

109. fundur
Þriðjudaginn 16. febrúar 1993, kl. 13:52:13 (5120)

     Umhverfisráðherra (Eiður Guðnason) :
    Virðulegi forseti. Þetta er svolítið sérkennileg spurning hjá hv. þm. Valgerði Sverrisdóttur. Ég setti hugmynd mína fram vegna þess að öllum sem fylgjast með landnotkun og landgæðum er ljóst að mjög víða hefur verið gengið allt of nærri landinu. Beitarstjórnun þarf að beita í miklu ríkari mæli en gert hefur verið. Það þarf að loka fleiri svæðum fyrir beit og gefa þeim tækifæri til að ná sér og síðan eru auðvitað svæði sem þola hóflega beit.
    Ég nefndi það jafnframt, virðulegi þingmaður, að það er ekki leiðin til að græða landið að sá í landsvæði að vori og beita þau síðan að hausti. Auðvitað koma ýmsar aðferðir til greina við þetta en meginatriði málsins hlýtur að vera það að við þurfum að friða landið í auknum mæli. Það er of nærri því gengið og sérstaklega nefni ég að sem næst taumlaus fjölgun hrossa stefnir í að verða umhverfisvandamál.