Skyndilokanir á afréttum

109. fundur
Þriðjudaginn 16. febrúar 1993, kl. 13:54:56 (5122)


     Umhverfisráðherra (Eiður Guðnason) :
    Virðulegi forseti. Ég hygg að öllum, sem fylgjast með umhverfismálum og ástandi gróins lands á Íslandi þar sem við höfum stöðugt verið að tapa, þar sem grænar grundir eru að fjúka út í buskann, sé ljóst, nema þá hv. þm. sem hóf máls á þessu, að við erum á undanhaldi. Auðvitað hefur ýmislegt verið gert, en hvergi nærri hefur verið nóg gert til þess að stjórna beitinni í landinu og er það hagur bænda að svo sé gert. Ég hygg að hún viti að þeir bændur --- eins og dæmi eru um í kjördæmi hennar --- sem hafa beitt í hólf frekar en að láta fé sitt á afrétt hafa haft betri afkomu en hinir vegna þess að fé gengur betur fram eftir að hafa verið í girtum hólfum þar sem er gróður en á gróðursnauðum afréttum. Mér finnst það sjónarmið sem kemur fram hjá hv. þm. furðulegt að þetta séu ekki mál til að hafa áhyggjur af og hér hafi í rauninni verið mjög vel að verki staðið og þetta sé allt í lagi. Þetta er því miður ekki allt í lagi, við þurfum að gera miklu betur en við höfum gert. Ég hélt satt að segja að svona raddir væru hljóðnaðar.