Upplýsingabréf fjármálaráðherra

109. fundur
Þriðjudaginn 16. febrúar 1993, kl. 14:07:07 (5131)

     Kristín Einarsdóttir :

    Frú forseti. Ég get verið sammála hæstv. fjmrh. í því að eðlilegt sé að gefa út upplýsingar og mér sýnist í fljótu bragði að seinni partur bæklingsins sé að einhverju leyti upplýsingar. En allur fyrri parturinn er hreinn og klár áróður og ég held að menn eigi eftir að komast að því þegar þeir lesa hann. Því miður hef ég ekki tíma til að fara yfir það allt saman en á hverri síðu hef ég merkt við hreinan og kláran áróður. (Gripið fram í.) Ólíklegustu menn gerast fyndnir úti í sal en ég ætla ekki að taka það upp.
    Ég get tekið dæmi, með leyfi forseta: ,,Verðbólgan var á síðasta ári sú minnsta hér á landi í 32 ár, eða 3,5% á mælikvarða framfærsluvísitölu. Nái efnahagsstefnan fram að ganga gæti hún orðið svipuð á þessu ári.`` --- Þetta eru bara hreinar fullyrðingar sem hér koma fram. --- Þrátt fyrir auknar skattaálögur á okkur sem einstaklinga . . .  (Forseti hringir.) Því miður hef ég ekki tíma til að taka meira en ég tel mjög óeðlilegt að fé skattborgaranna sé varið á þann hátt að senda út áróðursbækling fyrir ríkisstjórnina.