Upplýsingabréf fjármálaráðherra

109. fundur
Þriðjudaginn 16. febrúar 1993, kl. 14:10:37 (5134)

     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) :
    Virðulegur forseti. Ég vil eingöngu taka fram að Kvennalistinn nýtur fjármuna af opinberu fé til þess . . .   ( Gripið fram í: Sjálfstfl. líka.) Sjálfstfl. líka, það er hárrétt. Til viðbótar kaupir ríkið töluvert upplag af blaði, sem ég hygg að sé ekki óskylt Kvennalistanum, þannig að Kvennalistinn hefur haft tækifæri til að koma sínum sjónarmiðum á framfæri. Þetta mál snýst um það hvort fjmrh. og fjmrn. hafi leyfi til að koma staðreyndum og sjónarmiðum sínum á framfæri, ekki síst þegar ljóst er að það er borgað stórfé, milljónir, jafnvel milljónatugir til aðila eins og verkalýðsfélaga sem nota fjármunina síðan til að setja fram tölur sem stangast á við opinberar tölur um viðkvæm málefni eins og efnahagsmál, verðbólguspá og annað þess konar. Þetta blað er ekki dýrt, verði er stillt í hóf, það er gefið út til ákveðinna aðila og ég hef orðið var við að þetta blað hefur þegar komið að gagni.