Aðild Alþingis að 50 ára afmæli lýðveldisins

109. fundur
Þriðjudaginn 16. febrúar 1993, kl. 14:28:36 (5141)

     Svavar Gestsson (um atkvæðagreiðslu) :
    Virðulegur forseti. Eins og fram kom á föstudaginn var þá var um það samkomulag af minni hálfu sem fyrsta flm. þessa máls og hæstv. forseta að þetta mál fengi óformlega meðferð í forsætisnefnd áður en tekin yrði frekari ákvörðun um meðferð í þessari virðulegu stofnun. Ég fyrir mitt leyti felli mig mjög vel við það með hliðsjón af því að ég tel að undirtektir við málið hafi verið mjög góðar af hálfu hæstv. forseta. Ég tel þess vegna ekki ástæðu til að gera athugasemd við það að málinu sé ekki vísað til nefndar. Hins vegar er það rétt hjá hv. 14. þm. Reykv. að málum er yfirleitt ekki vísað til forsætisnefndar og það eru engin ákvæði um það í þingsköpum. Hins vegar lýsti hæstv. forseti því yfir að hún mundi beita sér fyrir því að forsætisnefnd tæki málið til óformlegrar athugunar og þeirri athugun yrði flýtt þannig að niðurstaða í málinu að því er þessa tillögu varðar lægi fyrir hið fyrsta.