Vegáætlun 1993--1996

109. fundur
Þriðjudaginn 16. febrúar 1993, kl. 14:36:00 (5147)

     Samgönguráðherra (Halldór Blöndal) :
    Hæstv. forseti. Tillaga sú að vegáætlun
sem hér liggur fyrir fjallar um fjáröflun og framkvæmdir á árunum 1993--1996. Tillögunni var dreift í desembermánuði á meðan fjárlög voru enn í vinnslu. Við lokaafgreiðslu fjárlaga var ákveðið að fjármagn til framkvæmdaátaks vegna atvinnumála yrði 1 milljarður og 550 millj. kr. á árinu 1993 í stað 1 milljarðs og 800 millj. kr. eins og áður hafði verið ráðgert. Við þetta breytast viðkomandi liðir tillögunnar og niðurstöðutala hennar fyrir árið 1973 verður 7 milljarðar 266 millj. kr. í stað 7 milljarða 516 millj. kr. í prentuðu þskj. Þarf að taka tillit til þess við meðhöndlun tillögunnar á Alþingi.
    Tillagan er með hefðbundnu sniði, þ.e. í henni er að finna áætlun um fjáröflun næstu fjögur ár svo og skiptingu útgjalda á helstu liði. Þá er þar að finna skrá um þjóðvegi og flokkun þeirra svo og aðalfjallvegi.
    Í athugasemdum með tillögunni koma fram skýringar á einstökum liðum hennar auk ýmissa upplýsinga um vegakerfið. Rétt er að geta þess í upphafi að allar tölur eru settar fram á sama verðlagi, þ.e. áætluðu verðlagi þessa árs, þannig að tölur eru sambærilegar milli ára. Verður nú vikið að helstu þáttum í tillögunni og byrjað á fjáröfluninni.
    Bensíngjald og þungaskattur voru hækkuð um sl. áramót. Hækkun þessari er ætlað að auka markaðar tekjur til vegagerðar um 2%. Þessi hækkun var gerð til að mæta að hluta til útgjöldum við ferjur. Í tillögunni er ekki gert ráð fyrir öðrum gjaldskrárhækkunum nema þeim sem kunna að leiða af hækkun verðlags. Auk þess er gert ráð fyrir að bensínsala aukist um 2% á milli ára og haldist sú aukning út áætlunartímabilið. Þetta er nokkru minni aukning en verið hefur undanfarin ár. Þannig var aukningin 3,8% milli áranna 1990 og 1991 og um 2,5% milli áranna 1991 og 1992. Gert er ráð fyrir svipaðri magnaukningu í akstri dísilbifreiða og í bensínsölu, þ.e. 2% á milli ára.
    Afsláttur á bensíngjald af blýlausu bensíni hefur verið í gildi síðan í júní 1989. Við hækkun þá sem varð á bensíngjaldi um síðustu áramót var afsláttur þessi minnkaður nokkuð og er nú tæplega 5,9% en var áður 8,5%. Markaðshlutur blýlauss bensíns hefur verið stöðugt vaxandi undanfarin ár og er nú kominn í um 75% af heildarsölu bensíns. Bensíngjald og þungaskattur hafa ekki hækkað í takt við verðbólgu á undanförnum árum. Hefur þannig myndast nokkur slaki, um 6%, í þessa gjaldstofna. Ekki er reiknað með að slaka þessum verði eytt á áætlunartímabilinu. Unnið er að því að bæta innheimtu þungaskatts og er reiknað með því að það skili 50 millj. kr. auknum tekjum á árunum 1994--1996.
    Í tillögunni er lagt til að nokkurt fé sé árlega fært í ríkissjóð. Er þetta gert með tilliti til þeirra þröngu aðstæðna sem nú eru í þjóðarbúinu. Óæskilegt er að þetta verði gert til frambúðar og þarf að stefna að því að mörkuðum tekjum til vegamála verði varið óskertum til þeirra strax og hagur ríkissjóðs vænkast.
    Ríkisstjórnin ákvað í september 1992 að beita sér fyrir auknum framkvæmdum til að bæta atvinnuástand. Eins og áður var getið var upphaflega við það miðað að á þessu ári færi 1,8 milljarðar kr. til vegagerðar í þessu skyni. Þeirri upphæð var síðar breytt í 1 milljarð 550 millj. kr. Í tillögunni er gert ráð fyrir að átak þetta haldi áfram á árunum 1994 og 1995 og 900 millj. kr. verði varið til atvinnuaukningar á næsta ári og 450 millj. kr. á árinu 1995.
    Í samþykkt ríkisstjórnarinnar var tiltekið að fé þetta skiptist milli kjördæma samkvæmt hefðbundnum reglum sem notaðar hafa verið við afgreiðslu vegáætlunar. Þá fylgdi samþykktinni einnig listi um þau verkefni sem njóta skyldu fjárins. Niðurstöðutala fjáröflunar 1993 er 7 milljarðar 266 millj. kr. Niðurstöðutölur 1994 eru 6 milljarðar 924 millj. kr., 6 milljarðar 646 millj. kr. árið 1995 og 6 milljarðar 306 millj. kr. árið 1996.

    Lækkun á niðurstöðutölunum skýrist af lækkun viðbótarfjárveitinga til atvinnuaukningar.
    Næst er að víkja að gjaldalið áætlunarinnar. Þar kemur fyrst að liðnum stjórn og undirbúningur. Fjárveitingar til þessa liðar eru nokkuð lægri en verið hefur á undanförnum árum og er ljóst að mjög er kreppt að þessum málaflokki þar sem verkefnin verða sífellt umfangsmeiri og flóknari og þarfnast samráðs og umsagnar fleiri aðila en áður var. Þá eru kröfur um aukna upplýsingaþjónustu stöðugt vaxandi.
    Lagt er til að fjárveitingar til almennrar þjónustu aukist nokkuð frá því sem verið hefur en kröfur um þjónustu á vegakerfinu fara stöðugt vaxandi. Er í aðalatriðum miðað við að staðið verði við þau markmið sem fram voru sett í drögum að langtímaáætlun fyrir árið 1991--2002.
    Fjárveiting til vetrarþjónustu árið 1993 er í samræmi við meðaltalskostnað við þennan málaflokk á síðustu tíu árum. Á árunum 1994--1996 er lagt til að fjárveitingar aukist nokkuð þannig að svigrúm verði til aukinnar þjónustu miðað við meðalárferði.
    Lagt er til að fjárveitingar til viðhalds hækki töluvert á þessu ári og því næsta frá því sem verið hefur en þessi málaflokkur hefur mjög liðið fyrir fjárvöntun undanfarin ár. Þessi vöntun hefur komið hvað harðast niður á styrkingum og viðhaldi malarvega en fjárþörf til viðhalds bundinna slitlaga fer nú ört vaxandi þar sem lengd þeirra vega sem þarfnast viðhalds eykst ört og miklir fjármunir eru í húfi þar eð slitlagið getur eyðilagst ef það fær ekki nauðsynlegt viðhald.
    Í tillögunni er lagt til að haldið verði hinum hefðbundnu framkvæmdaliðum, almennum verkefnum, sérstökum verkefnum, stórverkefnum o.s.frv.
    Eðlilegast er að samgn. fjalli um skiptingu fjármagns milli kjördæma og skiptingu fjárveitinga til sérstakra verkefna og stórverkefna eins og venja hefur verið og fjárveitinganefnd gerði áður en skipan mála var breytt hér á Alþingi.
    Nýmæli eru sérstakar fjárveitingar til framkvæmdaátaks til eflingar atvinnumála eins og áður er vikið að. Með tilkomu þessa fjármagns verður meira fé varið til nýbygginga, vega og brúa á þessu ári en verið hefur undanfarin 20 ár. Þar með verður unnt að flýta framkvæmdum við ýmis brýn verkefni sem ýmist voru komin inn á vegáætlun eða næst eru samkvæmt drögum að langtímaáætlun. Æskilegt er að áfram verði unnt að auka fjármagn til nýbyggingar vega og brúa því þar bíða mörg brýn verkefni framkvæmda. Má þar nefna tengingu Norðurlands og Austurlands sem orðin er enn þá brýnni vegna breyttra strandsiglinga.
    Þá eru mörg aðkallandi verkefni hér á höfuðborgarsvæðinu ekki hvað síst vegna umferðaröryggis og nægir þar að nefna tvöföldun Reykjanesbrautar milli Reykjavíkur og Hafnarfjarðar og Vesturlandsveg austur úr borginni.
    Segja má að fjárveitingar til annarra útgjaldaliða séu með hefðbundnu sniði. Gert er ráð fyrir að sérstakar fjárveitingar til brúagerðar verði svipaðar eða lítið eitt minni en verið hefur á undanförnum árum en verulegar upphæðir af liðunum Stórverkefni og Viðbótarfé til atvinnuaukningar renna til brúagerðar. Lagt er til að fjárveitingar til fjallvega fari hækkandi og verði strax á næsta ári meiri en áður hefur verið en brýnt er að bæta vegi að helstu ferðamannastöðum og ýmsar leiðir um hálendi landsins.
    Lagt er til að fjárveitingar til annarra liða verði svipaðar og verið hefur á undanförnum árum. Þó er gert ráð fyrir heldur lægri fjárveitingum til þjóðvega í kaupstöðum og kauptúnum en benda má á að verulegar fjárhæðir renna auk þess til þjóðvega á höfuðborgarsvæðinu.
    Við afgreiðslu fjárlaga fyrir þetta ár var staðfest sú ákvörðun að stofnkostnaður við ferjur og rekstrarstyrkir til þeirra, sem hingað til hafa verið greiddir með fjárveitingum úr ríkissjóði, skuli greiddir með mörkuðum tekjum til vegamála. Er þetta gert í samræmi við heimild í 41. gr. vegalaga. Í tilefni af þessari breytingu vil ég fara nokkrum orðum um ferjur og ferjurekstur almennt.
    Ferjur koma í stað vega og þar sem kostnaður við þær greiðist nú af vegafé er eðlilegt að þær verði felldar inn í vegáætlun og fái hliðstæða meðhöndlun og þjóðvegir. Þannig ákveður Alþingi á hvaða leiðum ferjur skuli reknar á vegáætlunartímabilinu og hvert sé meginmarkmið með ferjurekstrinum, flutningur bíla eða farms auk fólksflutninga. Framlög til stofnkostnaðar yrðu sundurliðuð á einstakar ferjuleiðir eins og gert er með framlög til nýbyggingar vega. Vegagerðinni hefur verið falin umsjón þessara mála. Mun hún leggja tillögur sínar um þessi efni, eins og önnur sem snerta vegamál, fyrir samgn. Alþingis. Samkvæmt tillögunni sem hér liggur fyrir eru framlög til ferja áætluð sem hér segir:
    Árið 1993 330 millj. kr., 466 millj. kr. 1994, 515 millj. kr. 1995 og 499 millj. árið 1996.
    Þessar tölur eru byggðar á áætlunum frá miðju ári 1992. Nánari skoðun á stöðu ferjureksturs sem staðið hefur yfir undanfarið bendir til að framlög þurfi að vera nokkru hærri en talið var og er þá einnig tekið tillit til gengisþróunar á síðari hluta síðasta árs. Tölur byggðar á forsendum nú í ársbyrjun munu liggja fyrir á næstu dögum og verður samgn. gerð grein fyrir þeim.
    Ég vil geta þess hér að samkomulag er um það að hækkun framlaga til ferja sem nauðsynlegt kann að reynast bitni ekki á framlögum til annarra framkvæmda í vegáætlun. Nauðsynlegt framlag á þessu ári umfram 330 millj. kr. verður tekið inn í fjáraukalög 1993. Á árunum 1994--1996 yrði hækkun á framlagi til ferja mætt með lækkun þeirrar upphæðar sem færð er í ríkissjóð. Að því er varðar rekstur ferjanna hef ég lagt á það áherslu við Vegagerðina að leitað sé allra leiða til að draga úr rekstrarkostnaði. Takist að draga úr fjárþörf ferjanna rennur það fé sem sparast til annarra framkvæmda í vegáætlun.
    Hér hefur verið vikið nokkuð að ferjum almennt. Ekki er ástæða á þessu stigi til að ræða einstakar ferjuleiðir. Þær koma til kasta samgn. og þingsins sjálfs við meðferð málsins og afgreiðslu þess.
    Í þessu sambandi vil ég geta þess vegna þess að reglulegar áætlunarsiglingar hafa fallið niður milli Norður- og Austurlands, sem hefur raskað vöruflutningum og viðskiptum milli þessara landshluta, að ég hef nú falið Vegagerðinni að veita lágmarksþjónustu á leiðinni frá Mývatni austur á Hérað. Gert er ráð fyrir að opnað verði einu sinni í viku, þó þannig að flutningabílar komist fram og til baka. Ákvörðunin er tekin til reynslu og með fyrirvara um að snjóþyngsli verði ekki óviðráðanleg. Eins og kunnugt er hefur þessi vegur verið látinn sitja á hakanum, leiðin á milli Norður- og Austurlands.
    Í vegalögum eru lagðar meginlínur um það hvaða vegir teljist þjóðvegir og skiptingu þeirra í vegflokka. Í þáltill. eru allir þjóðvegir taldir upp og gerð grein fyrir skiptingu þeirra í stofnbrautir, þjóðbrautir og aðalfjallvegi. Í þáltill. eru ekki tillögur um breytingar á vegaskránum en þörf er á ýmsum leiðréttingum og breytingum sem m.a. eru tilkomnar vegna breytinga á búsetu. Samgn. og þingmönnum einstakra kjördæma verður gerð nánari grein fyrir þessum tilvikum við áframhaldandi vinnu við tillöguna.
    Ég vil ljúka þessari framsögu fyrir tillögu um vegáætlun með því að leggja til að henni verði vísað til samgn. Mér er kunnugt að þegar er hafnar viðræður þingmanna hinna ýmsu kjördæma við Vegagerðina um röðun verkefna innan kjördæmanna.
    Það er von mín að afgreiðsla þessa máls geti tekið skamman tíma sem mundi greiða fyrir því að hægt sé að bjóða verkefni út sem að sjálfsögðu mundu þegar í stað verka til þess að bæta atvinnuástand. Ég legg til að tillögunni verði vísað til síðari umr. og samgn.