Vegáætlun 1993--1996

109. fundur
Þriðjudaginn 16. febrúar 1993, kl. 14:49:14 (5148)

     Halldór Ásgrímsson :
    Virðulegur forseti. Hér er til umfjöllunar mál sem snertir alla landsmenn og hefur því mikla þýðingu í kjördæmunum öllum. --- Er það rétt skilið, hæstv. forseti, að ræðutími sé takmarkaður? Ég hafði ekki gert ráð fyrir því og hafði þess vegna hugsað ég mér að fjalla allítarlega um þetta mál en fyrst ekki er ráðrúm til þess mun ég reyna að haga málflutningi mínum í samræmi við það.
    Hæstv. samgrh. sagði að hann vildi vísa þessu máli til umfjöllunar samgn. og þingmanna kjördæmanna. Ég vil minna hæstv. samgrh. á að hann hefur þegar ákveðið skiptingu vegáætlunar að allverulegu leyti. Hann hefur ákveðið að flytja kafla sem gert var ráð fyrir að yrði farið í samkvæmt langtímaáætlun, jafnvel á síðasta tímabili áætlunarinnar, á árunum 1999--2002 fram á fyrsta tímabilið eða það tímabil sem núna er verið að fjalla um.
    Það er alveg ljóst að hér er um mikilvæga vegi að ræða. En hefði það ekki verið skynsamlegra, hæstv. ráðherra, að gefa þingmönnum kjördæmanna tækifæri til að fjalla eðlilega um þessi mál og fara yfir þau í stað þess að hæstv. samgrh. ákveði þetta á einum sólarhring í fljótfærni? Er hæstv. samgrh. svo vel að sér í vegamálum allra kjördæma í landinu að ekki þurfi lengur að ræða við þingmenn kjördæmanna? Er þetta ekki alveg nýtt að samgrh. taki upp slík vinnubrögð? Þetta hefur orðið til þess, hæstv. samgrh., að vekja upp verulega óánægju a.m.k. í mínu kjördæmi. Mér er alveg ljóst að ekki er gott að snúa aftur með ákvarðanir þegar búið er að gefa það út að ráðast eigi í tiltekna vegakafla. Hins vegar er alveg ljóst að ýmislegt sem átti að gera mun fyrr, sérstaklega samkvæmt langtímaáætlun, mun nú raskast verulega því að gert er ráð fyrir því að það lán sem nú er tekið til flýtingar verði greitt síðar. Því er fyrst og fremst verið að snúa við þeirri áætlun sem hafði áður verið gerð og ég veit ekki betur en hæstv. samgrh. hafi tekið þátt í því sem nefndarmaður í þeirri nefnd sem undirbjó langtímaáætlunina.
    Ég minni á í þessu sambandi að í langtímaáætluninni var ákveðið að fara í mjög ítarlegar athuganir í sambandi við tenginguna á milli Norður- og Austurlands en þar segir, með leyfi forseta:
    ,,Tenging Norðurlands og Austurlands um Möðrudalsöræfi hefur verið mikið rædd í starfshópnum. Á þessu stigi liggur ekki fyrir ákveðin tillaga um hvar framtíðarvegur muni liggja. Starfshópurinn leggur áherslu á að niðurstaða fáist fyrir næstu endurskoðun langtímaáætlunar og þá verði tekin afstaða til þess hvernig með hana skuli farið.``
    Þegar þessi umfjöllun átti sér stað var því hreyft af okkur þingmönnum Austurl. hvort mögulegt væri að taka þetta stóra og mikla verkefni inn í stórverkefnaflokkinn. Það var ekki talið mögulegt en síðan var fjallað um málið á fundi þingmanna Austurl. og Vegagerðarinnar í marsmánuði 1991 og eftirfarandi bókun gerð, með leyfi forseta:
    ,,Þingmenn Austurlands ítreka þá áherslu um tengingu Norðurlands og Austurlands sem kemur fram í greinargerð með tillögu um langtímaáætlun. Brýna nauðsyn ber til að hraða ákvörðun um leiðaval og vegarstæði þar þannig að niðurstöður liggi fyrir ekki síðar en við næstu endurskoðun langtímaáætlunar.``
    Nú er enginn ágreiningur um það milli mín og hæstv. samgrh. að um mjög mikilvæga tengingu er að ræða. En svo vill til að rannsóknum er ekki lokið og menn hafa ekki enn þá komist að niðurstöðu um það hvar vegurinn á að liggja. Það liggur alveg fyrir að ef hann fer nálægt þeim stöðum sem vegurinn liggur nú og jafnvel nokkuð fjær þá er hann í 500--600 m hæð á nokkrum köflum. Að sjálfsögðu þarf að athuga í þessu sambandi hvort ekki sé rétt að vegurinn liggi í gegnum Vopnafjörð um Hellisheiði ef hægt er að lækka þann veg með jarðgöngum en slík tenging yrði milli 30--40 km lengri. Ekki er fullnægjandi að fara út í dýra vegagerð nema menn geri sér ljóst hversu lengi slíkur vegur getur verið fær. Því miður liggur ekki fyrir niðurstaða um það hvort tenging yfir fjöllin geti gefið þá tryggingu sem menn sækjast eftir. Það er líka mikilvægt, hæstv. samgrh., að haldið verði áfram að byggja upp veginn frá Vopnafirði um Brekknaheiði og til Þórshafnar og þar norður eftir og ég veit ekki betur, hæstv. samgrh., en að þú hafir sérstaklega beitt þér fyrir því að flutt verði fé sem ætlað er í Brekknaheiði til þess að leggja áherslu á bundið slitlag í kjördæmi þínu. ( Forseti: Nota rétt ávarpsorð.) Ég skal mjög glaður taka við þeirri áminningu, virðulegi forseti, því að ég vil ávarpa virðulegan samgrh. með tilhlýðilegum hætti og má vel vera að fleirum hafi orðið á í messunni og mikilvægt að áminna menn rækilega í því sambandi, ekki síst þegar hæstv. samgrh. á í hlut.
    Ég sé það, virðulegi forseti, að tími minn er senn á þrotum en ég hafði gert ráð fyrir því að hafa lengri tíma. Ég harma það hvernig hæstv. samgrh. hefur unnið að þessu máli. Engin ástæða var til annars en vinna það með venjulegum hætti í samvinnu við þingið. Hann kaus að ganga fram fyrir skjöldu og ákveða sjálfur hvaða vegakafla ætti að fara í án þess að tala neitt um það við Alþingi eða ræða það hér. Síðan kemur hann til Alþingis og óskar eftir því að þetta verði afgreitt hið fyrsta en leyfir sér að ganga fram hjá þinginu í þessu sambandi. Ég vænti þess hins vegar að málið fái eðlilega umfjöllun og um það verði fjallað með hefðbundnum hætti og að tími gefist til þess að ræða það hvað hagsmunum kjördæmanna sé fyrir bestu.
    Ég vil gjarnan að samstaða ríki um vegamál og að unnið verði með þeim hætti sem hefur verið gert á undanförnum árum og áratugum. En eins og hæstv. samgrh. hefur gengið fram í málinu er afar ólíklegt að slík samstaða geti ríkt áfram og má vel vera að það sé það sem hæstv. samgrh. ætli sér. Hann vilji hafa ófrið um þessi mál og það má næstum því ætla miðað við það hvernig hann hefur gengið fram að hann vilji hafa nokkur átök og ófrið í kringum þetta. Hann hefur stofnað til þess en nú er hans að ganga þannig fram að betri samstaða geti náðst á Alþingi.