Vegáætlun 1993--1996

109. fundur
Þriðjudaginn 16. febrúar 1993, kl. 15:28:14 (5153)


     Gunnlaugur Stefánsson :
    Virðulegi forseti. Mér koma þessar umræður hér svolítið á óvart. Ég hefði frekar búist við því að þeir sem hér hafa talað af hálfu stjórnarandstöðunnar mundu fagna þeim sinnaskiptum sem orðið hafa hvað varðar framlög til vegamála. Hér hefur verið gerð sérstök tilraun til þess að þyrla upp moldviðri í kringum þá auknu fjármuni sem nú verða til skiptanna til framkvæmda og til stóraukins átaks í vegamálum. Það er eitt stærsta hagsmunamál landsbyggðarfólks að gera átak í vegamálum. Við þær aðstæður sem þjóðarbúið býr nú við í efnahagslífi þjóðarinnar hefði fremur mátt búast við einum niðurskurðinum í viðbót á þessum vettvangi í stað aukins fjármagns sem til skiptanna er núna. Það er staðreynd að á þessu ári verður meiri fjármunum varið til vegamála en gert hefur verið allt aftur til ársins 1983 eða í heilan áratug. Ég hef ekki tölur lengra aftur í tímann. Þetta segja tölur til um og um þetta þarf ekki að deila.
    Um það má að vísu deila hvernig fjármuna er aflað. Hitt er rétt að því sem næst í jafnlangan tíma hafa fjárlög verið afgreidd héðan frá Alþingi með halla og ríkissjóður rekinn með lánum til að brúa hallann. Það hefur sjaldnast verið umræðuefni hvernig á að greiða upp þennan halla. Hann safnast fyrir og er farinn að sliga þjóðarbúið svo að þriðji hver þorskur fer til greiðslu afborgana og vaxta sem þýðir að greiðslubyrðin er að komast upp í 30% miðað við útflutningsverðmæti þjóðarinnar. Þetta nefni ég hér vegna þess að það hefur verið gagnrýnt að þetta viðbótarfé, sem verður notað upp á 1.550 millj. kr., skuli vera tekið að láni og borgað í framtíðinni.
    Það kemur fram í till. til þál. um vegáætlun að ekki sé búið að ákveða hvernig að endurgreiðslum verði staðið og það verði seinni tíma mál. Ég lít svo á að þetta sé einn hluti af lánabyrði þjóðarinnar eins og gildir um önnur lán þjóðarinnar.
    Síðasta ár var líka mikið framkvæmdaár í sögu vegamála á Íslandi. Það var mesta framkvæmdaár miðað við tölur til framkvæmda allt frá árinu 1983 þrátt fyrir að um ákveðinn niðurskurð hafi verið að ræða miðað við þau lög sem gilda um fjáröflun til vegaframkvæmda. Það er ekki nýtt á Alþingi að gripið hafi verið til þeirra efnahagsaðgerða að skerða framlög til vegamála og taka markaðan tekjustofn að hluta til almennra útgjalda fyrir ríkissjóð. Að því hafa allar ríkisstjórnir staðið.
    En nú verða kaflaskipti. Ákveðið er að verja meiri fjármunum til vegamála en gerst hefur í heilan áratug. ( Samgrh.: Í tvo áratugi.) Hæstv. samgrh. bætir um betur og segir: Í tvo áratugi. Þetta er kjarni málsins. Og það þýðir ekkert fyrir þá sem vilja gera lítið úr þessu brýna lífskjaramáli þjóðarinnar að þyrla upp moldviðri og gera meira úr því hverjir skipta.
    Auðvitað er það rétt hjá hv. 1. þm. Austurl. að það er mjög brýnt að um framkvæmdir í vegamálum geti ríkt sem best eining og sem best samstaða. Ríkisstjórnin ákvað að láta fylgja með tilkynningu sinni um viðbótarfjárveitingu tillögur um það hvernig þessari viðbótarfjárveitingu skyldi varið. Það er eins og um allar tillögur í vegamálum að þar verða kannski ekki allir á eitt sáttir í upphafi. Það gilti um þessar tillögur eins og svo oft áður. En nú er komið fram á framkvæmdaár og ég veitti því athygli að hv. 1. þm. Norðurl. e. sagði að þetta væri til umræðu í sínum þingmannahópi og um þetta kynni að nást góð sátt. Og ég treysti því að í þingmannahópi Austurlands megi nást um þessar tillögur mjög góð sátt og skil ekki annað en grundvöllur sé til þess.
    Þau þrjú verkefni sem tillaga hefur verið gerð um að verja þessum fjármunum til á Austurlandi er til vegaframkvæmda í Austur-Skaftafellssýslu, á Berufjarðarströnd og til stórverkefnis, byggingar nýrrar brúar yfir Jökulsá á Dal. Það deilir enginn um hve mikið og brýnt mál það er að byggð verði ný brú yfir Jökulsá á Dal. Þar er svo komið að brúin virðist í langtum verra ásigkomulagi en menn gerðu sér grein fyrir fyrir nokkrum árum síðan. Síðast en ekki síst er þetta að verða erfiður þröskuldur sérstaklega fyrir stærri flutninga og þá á ég við fiskflutninga á milli fjórðunga. Það er því stórt og brýnt mál að þarna verði gerð varanleg bót á. Ég held að það ætti að nást gott samkomulag og eining um að þessari framkvæmd verði flýtt frá því sem vegáætlun gerði ráð fyrir.
    Tími minn er senn runninn. Ég fagna þeirri yfirlýsingu sem hæstv. samgrh. gaf í þinginu í síðustu viku að á morgun muni hefjast snjómokstur á leiðinni milli Norður- og Austurlands og þar verði mokað einu sinni í viku þannig þó að fært verði í tvo daga eins og veður og aðstæður leyfa. Þetta er fagnaðarefni og kannski fyrsta skrefið í átt að varanlegum vegabótum svo að þarna megi koma varanleg samgönguleið í framtíðinni, hvort sem það verður yfir öræfi eða meðfram strönd.