Vegáætlun 1993--1996

109. fundur
Þriðjudaginn 16. febrúar 1993, kl. 15:40:07 (5156)

     Guðmundur Bjarnason (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Það er auðvitað endalaust hægt að velta sér aftur og fram með tölur. Það þekkjum við og vitum að er auðvelt verkefni í raun. Ég tel mig þó hafa dregið það mjög skýrt fram áðan þegar ég var að benda á það hver væri mismunurinn á þeirri vegáætlun sem við annars vegar höfum verið að vinna eftir og samþykkt er og hins vegar þeim hugmyndum sem hér liggja fyrir og þeim fullyrðingum að verið sé að stórauka framkvæmdir til atvinnusköpunar upp á 1,5 milljarða kr. Það voru mínar athugasemdir. Hverju hefur verið varið til vegamála í einhverri fortíð er svo auðvitað allt annað mál. Það getur verið ánægjuefni ef hægt er að auka þessar framkvæmdir frá því sem var 1990. Ég hygg að það sé það ár sem þingmaðurinn tók hér til viðmiðunar. Má auðvitað benda honum á það líka að eitthvað hefur verðlag breyst á þeim tíma þó að það hafi ekki verið mikið og skipti ekki neinum sköpum í þessum samanburði. En það sem ég dró fram hér og get staðið við, bæði gagnvart hv. þm. og öllum öðrum og sýnt mönnum það hvar og hvenær sem menn vilja á það líta, er að við erum að tala um að auka framkvæmdir frá því sem áður hafði verið fyrirhugað um líklega 400 millj. kr. en ekki 1.550 millj. eins og hv. þm. og hæstv. ríkisstjórn hafa látið í veðri vaka.