Vegáætlun 1993--1996

109. fundur
Þriðjudaginn 16. febrúar 1993, kl. 15:41:46 (5157)

     Gunnlaugur Stefánsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Til þess að fyrirbyggja allan misskilning, þá er ég að tala um tölur á föstu verðlagi. Ef hv. þm. Guðmundur Bjarnason sæti í ríkisstjórn nú og ætlaði að kynna fyrir okkur vegáætlun þá er hann stóð að að kynna árið 1990, þá væru tölurnar sem til umræðu væru 5 milljarðar 225 millj. kr. og hefði hann án efa verið stoltur af. Í staðinn erum við að tala um tölur til framkvæmda sem eru upp á 6 milljarða 936 millj. kr. og við hljótum að vera sammála um það, hv. þm. Guðmundur Bjarnason og ég, að við erum stoltari af þessari tölu en hinni lægri.
    Þetta er kjarni málsins. Að drepa málinu á dreif er að þora ekki að horfast í augu við þennan kjarna málsins. Við eigum að sameinast um að fagna þessu því aukin fjárveiting þýðir auknar framkvæmdir. Auðvitað eru þær atvinnuskapandi. En hinn atvinnuskapandi þáttur framkvæmdanna kemur best fram í betri samgöngum. Það þekkjum við vel sem úti á landi eigum heima.