Vegáætlun 1993--1996

109. fundur
Þriðjudaginn 16. febrúar 1993, kl. 15:43:54 (5158)


     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Hv. þm. Gunnlaugur Stefánsson sagði áðan að við ættum að fagna því að framkvæmdir í vegamálum væru auknar. Það hefur vissulega verið gert. Því var fagnað strax í haust þegar tilkynning kom frá ríkisstjórninni um auknar framkvæmdir upp á 1,8 milljarða kr. Síðan hefur þetta fjármagn minnkað raunar í 1.550. En það fylgdi náttúrlega þeim fögnuði stjórnarandstöðunnar og annarra þingmanna að þeir vildu vita hvernig þessar milljónir væru fengnar og hvernig vegáætlun mundi líta út. Ef við skoðum aðeins framlög til Vegagerðarinnar á síðustu árum, þá var vegáætlun skert af þessari ríkisstjórn um 350 millj. kr. árið 1991. Árið 1992 var vegáætlun skert um 750 millj. kr. og nú á að skerða um 344 millj. Allt þetta rennur beint í ríkissjóð og er skerðing upp á samtals 1.450 millj. kr. frá því að ríkisstjórnin tók við. Núna segist hún ætla að auka framlög til vegamála um 1.550 millj. Það munar ekki nema 100 millj. þarna. Og ef við tökum ferjurnar með er það líklega dæmi upp á 400 millj. kr. á þessu ári. Þar með erum við komin í mínus 300 millj. kr. frá því að ríkisstjórnin tók við. Það er auðvitað endalaust hægt að leika sér með tölur á þennan veg.