Vegáætlun 1993--1996

109. fundur
Þriðjudaginn 16. febrúar 1993, kl. 16:28:51 (5173)

     Halldór Ásgrímsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það er út af fyrir sig mikilvægt að það hefur verið upplýst hér á Alþingi að sá nýi háttur sem hefur verið tekinn upp við gerð vegáætlunar er sá að hæstv. samgrh. hefur væntanlega gert tillögur í samráði við þingmenn stjórnarliðsins á Alþingi. Þá vitum við það að hér eru komin upp alveg ný vinnubrögð, að það er ekki ætlast til þess að þingmenn stjórnarandstöðu fjalli um vegáætlun nema til málamynda og það er væntanlega það sem hæstv. samgrh. á við þegar hann vill kenna Framsfl. hvernig hann á að vinna í stjórnarandstöðu. Hann sagði það hér áðan að það væri nú kominn tími til að kenna þessum flokki að vinna í stjórnarandstöðu og ég vænti þess að það séu þessi nýju vinnubrögð að samgrh. sé þeirrar skoðunar að þingmenn stjórnarandstöðunnar eigi ekkert að hafa um þessi mál að segja. Það hefur verið upplýst hér af hv. þm. Agli Jónssyni að þetta hafi verið gert af stuðningsmönnum ríkisstjórnarinnar. Þá vitum við það. En þá er náttúrlega alveg tilgangslaust að kalla okkur á þá málamyndafundi um þessi mál því að það liggur alveg fyrir að það verður að skera niður ýmsar framkvæmdir. Það er ekki rétt sem hv. 3. þm. Austurl., Egill Jónsson, sagði að það verði hægt að ljúka við þær framkvæmdir sem gert er ráð fyrir samkvæmt gömlu vegáætluninni, hvað þá samkvæmt langtímaáætluninni. Þar eru ýmsar framkvæmdir sem verða út undan og ég sé ekki betur en hætta verði við þær. Það er þá jafnframt ákvörðun þessara manna sem vilja kenna öðrum að vinna í stjórnarandstöðu að þessar framkvæmdir verði skornar niður. Það er þá væntanlega ekki ætlun þeirra að kalla þá neitt sérstaklega til sér til aðstoðar við það.