Vegáætlun 1993--1996

109. fundur
Þriðjudaginn 16. febrúar 1993, kl. 16:31:56 (5175)

     Gunnlaugur Stefánsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Í tilefni af ummælum hv. þm. Egils Jónssonar um að ég hafi tekið fullan þátt í undirbúningi fjárlagagerðarinnar, m.a. með því að eiga aðild að þessum undirbúningi í sambandi við að því yrði komið til leiðar að viðbótarvegafé mundi tengjast fjárlagagerðinni, þá er það rétt. Ég tók fullan þátt í þeirri vinnu og ég tek líka fulla ábyrgð á þeim gjörðum öllum saman.
    Hér er verið að reyna að þyrla upp moldviðri um eitthvað sem er ekki kjarni málsins. Ég trúi ekki öðru en um það náist góð sátt í Austurlandskjördæmi undir forustu fyrsta þingmanns kjördæmisins að skipa vegamálum eins og best verður á kosið og taka tillit til allra aðstæðna eins og framast má. Ég veit að hv. 1. þm. Austurl. mun halda áfram að gegna þessu mikilvæga forustuhlutverki, eins og hann hefur gert, hér eftir sem hingað til og þar með leggja sitt af mörkum til að tryggja þá einingu og samstöðu sem verður að ríkja í þingmannahópnum, ekki bara um þessi málefni heldur svo fjölmörg önnur sem við þurfum að vinna saman að og láta ekki þessa uppákomu verða til þess að trufla þá einingu á nokkurn hátt. Ég treysti fyrsta þingmanni kjördæmisins til að halda áfram að gegna þessu einingarhlutverki.