Vegáætlun 1993--1996

109. fundur
Þriðjudaginn 16. febrúar 1993, kl. 16:42:59 (5178)

     Samgönguráðherra (Halldór Blöndal) :
    Hæstv. forseti. Út af síðustu ummælum hv. þm. Ólafs Þ. Þórðarsonar vona ég að ég megi lýsa því yfir að ekki sé fyrirhugað að byggja einbreiða brú yfir neina stofnbraut hér á landi og vona að svo verði ekki eftirleiðis. Á hinn bóginn er það rétt sem hv. þm. sagði að þar er mörg slysagildran og óheyrilegt fjármagn sem þarf að kosta til þess að ryðja þeim öllum burtu.
    Út af því sem hv. þm. Jón Kristjánsson sagði, þá vísaði hann til ummæla sem ég á að hafa viðhaft í sjónvarpi um það að Hvalfjarðargöng gætu orðið næstu göngin. Þetta er ekki annað en það sem ákveðið var af fyrri ríkisstjórn að sérstöku fyrirtæki, Speli, var falið að undirbúa hugsanlega jarðgöng undir Hvalfjörð. Sú vinna er enn í gangi. Síðasta greinargerð frá þessu fyrirtæki barst fyrir skömmu. Ég hef sent hana Vegagerð til umsagnar og hef í rauninni ekki meira um það mál að segja að sinni. Það liggur ekki fyrir að í þessi jarðgöng verði ráðist. Þau eru að sjálfsögðu algerlega óháð öðrum framkvæmdum að því leyti að sjálf göngin koma ekki inn á vegáætlun en ævinlega hefur verið gert ráð fyrir því að tenging ganganna við aðalþjóðvegakerfið yrði kostuð af vegafé, eins og ég skil það mál, og kemur auðvitað ekki jarðgöngum á Austurlandi við ef hv. þm. var að vísa til þess.
    Ég vil minna á að samkvæmt þáltill. sem fyrir lá og samkvæmt þeim hugmyndum sem fram komu í þeirri vegáætlun sem ekki var samþykkt var gert ráð fyrir því um aldamótin að ráðast í jarðgöng á Austurlandi. Nú heyri ég að hv. 1. þm. Austurl. leggur áherslu á að þau jarðgöng verði undir Hellisheiði. Það kostar um 2--3 milljarða kr. Hann vill bíða með að leggja í það að tengja Norður- og Austurland þangað til hægt er að ráðast í þau jarðgöng. Mér finnst það fulllangur tími. Á hinn bóginn vakti það athygli mína hversu hart hann brást við, og raunar líka fyrrv. samgrh., hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon, varðandi þær hugmyndir sem nú eru uppi um að reyna að bæta vegina milli Norður- og Austurlands. Eins og þeim á að vera kunnugt, a.m.k. fyrrv. samgrh., er versta haftið nú þegar snjóar að ráði á Mývatnsöræfum frá Búrfellshrauni á nýja leið eins og sagt er. Það er um 10--11 km kafli og kostar um 100 millj. kr. Auðvitað væri hægt að ráðast í hann ef peningar væru fyrir hendi. En það kemur mér algerlega á óvart ef menn eru að tala um það á Alþingi sem einhverja ósvinnu að setja sér það mark að loka hringveginum og raunar undarlegt ef úrtöluraddir í þeim efnum koma eingöngu frá Austurlandi og Norðurlandi eystra, sem er alveg gagnstætt þeim röddum sem ég heyri úr þessum kjördæmum báðum hvort sem ég tala um sveitarstjórnarmenn á Austurlandi eða sveitarstjórnarmenn í Norðurlandi eystra, hvort sem ég tala um menn sem standa fyrir atvinnurekstri á Austurlandi eða Norðurlandi eystra eða hinn almenna borgara sem ekki á eins beinna hagsmuna að gæta og þeir sem eiga atvinnu sína undir flutningum.
    Þess vegna hafa orðið mjög góð viðbrögð við því að nú á að gera tilraun til þess að halda leiðinni opinni. Það er auðvitað mjög úrhendis ef menn ætla það að vöruflutningabílar eigi að aka um Þórshöfn og Vopnafjörð og þá væntanlega upp á Möðrudalsöræfin þaðan því að ekki er hægt að búast við því að hægt sé að halda vöruflutningum gangandi yfir veturinn með því að fara yfir Hellisheiði. Það eru þá alveg ný tíðindi ef sú leið ætti að vera trygg í þeim efnum.
    Þessi umræða mun auðvitað halda áfram en um þá vegáætlun sem nú liggur fyrir og þá langtímaáætlun um vegagerð sem var lögð fram á síðasta þingi en fékk ekki þinglega meðferð vil ég almennt segja að það var síður en svo full samstaða um hana og fullkomlega rangt hjá hv. 1. þm. Norðurl. e., Guðmundi Bjarnasyni, að ég hafi verið sammála þeim áherslum sem komu fram í vegáætlun fyrir síðustu kosningar. Ég var mjög áhugasamur um það að ljúka veginum milli Dalvíkur og Ólafsfjarðar, eins og hv. þm. er kunnugt, en á hinn bóginn varð ég að sætta mig við að meiri hluti Alþingis var annarrar skoðunar, sú ríkisstjórn sem þá sat og sá þingmeirihluti sem þá réði. Fyrir bragðið var vegurinn milli Ólafsvíkur og Dalvíkur utan vegáætlunar. Ég hef á hinn bóginn eftir að ég kom í sæti samgrh. beitt mér fyrir því að þar verði bætt úr.
    Það kom líka skýrt fram í nefndinni um langtímaáætlun sá mikli áhugi sem ég hafði fyrir því að leggja veg milli Norður- og Austurlands, eins og hafði raunar áður komið fram í tillöguflutningi á Alþingi hjá hv. 3. þm. Austurl.
    Ég álít með öðrum orðum rangt að Alþingi sé á síðasta ári kjörtímabils að velta fyrir sér langtímaáætlun í vegagerð. Reynslan hefur sýnt að eftir kosningar hafa menn ekki verið menn til þess að standa við sínar vegáætlanir. Ef Framsfl. endilega vill er hægt að rifja upp ýmis dæmi þess frá síðustu 20 árum. Ég vil líka taka það alveg skýrt fram að ég man ekki eftir öðru dæmi um það nú að hægt sé að standa við vegáætlun sem samþykkt var fyrir kosningar. Það er auðvitað algerlega út í bláinn að vera að breiða sig út með þeim hætti að segja að það muni einhverju smáræði í framkvæmdafé nú og hjá síðustu ríkisstjórn.
    Ég hóf ekki þessar umræður en ef við lítum á framkvæmdamáttinn í nýjum þjóðvegum, þá er það þannig þau ár sem forveri minn var samgrh.: 2,1 milljarður 1989, 2,2 milljarðar 1990, 2,4 milljarðar 1991, 3,7 milljarðar nú. Það lætur nærri að meðan hann hafði efni á því og ráð að láta 2 kr. í nýbyggingar vega eru lagðar 3 kr. á þessu ári. Það er 50% aukning í framkvæmdamagni frá þessum tíma. Svo kemur hér upp hver þingmaður stjórnarandstöðunnar á fætur öðrum og er að tala um að þetta sé sjálfsagður hlutur. Ef þetta er sjálfsagður hlutur nú á þessum þrengingartímum af hverju var þetta ekki sjálfsagður hlutur meðan Alþb. fór með samgöngumálin og á þessum 20 árum sem Framsfl. var við völd? Það er auðvitað laukrétt að á einum tíma var meiru varið til vegagerðar. Það var þegar samtímis voru lagðir vegirnir út frá Reykjavík austur yfir fjall og lokið við veginn yfir Skeiðarársand. Þá var meira fé varið til samgöngumála en verið hefur síðan og þá lagði þjóðin öll metnað sinn í það að koma veginum austur eins og ég veit að utan þessara þingsala er fullkomin samstaða um hjá þorra þjóðarinnar að tími sé kominn til að loka hringveginum. Það er rétt sem hv. 3. þm. Austurl. sagði áðan. Á þessu ári verður búið að leggja bundið slitlag á hringveginn í öllum kjördæmum öðrum en Norðurl. e. og Austurlandi nema á Öxnadalsheiði er eftir smákafli. (Gripið fram í.) Já, rétt, þarna fór ég rangt með, ég bið afsökunar á því. Á næsta ári verður það allt komið. Vatnsskarðið er eftir og smákafli á Öxnadalsheiðinni. Að öðru leyti verður það alveg komið. Þá er spurningin um að ljúka hringveginum, spurningin um það að koma bundnu slitlagi á hringveginn á Austurlandi og Norðurl. e. og milli Austurlands og milli Norðurl. e. Ég vil gjarnan reyna að standa undir þeim myndum sem voru birtar af mér í Dagblaðinu fyrir helgina, ég reyndi að hugsa um mitt eigið kjördæmi, og vil þess vegna mjög gjarnan reyna að fylgja málinu fram. Ég hygg líka að þetta mál sé ekki eingöngu mál sem varðar þessi kjördæmi heldur hafi það mikla þýðingu fyrir atvinnulífið í heild sinni og ferðaþjónustuna. Eins og hv. þm. Ólafur Þ. Þórðarson sagði réttilega þá hugsa menn nú um það hvar malarvegir eru og hvar ekki. Ég vil í þessu sambandi minna á að við eigum eftir álíka mikið verk við Ísafjarðardjúp og að koma veginum frá Norðurlandi til Austurlands. Það kostar heldur minna, 200 millj. minna að ljúka veginum inn í Djúp en að koma veginum yfir Möðrudalsöræfi ef Jökuldalsheiði er farin.
    Hv. 6. þm. Vestf., Jóna Valgerður Kristjánsdóttir, kvartaði í fyrsta lagi yfir því að erlendir sérfræðingar kæmu að störfum hér. Hér er um tilraunir að ræða í sambandi við lagningu bundins slitlags og verið að sækja sérfræðiþekkingu út fyrir landsteinana. Það er alls ekki í fyrsta skipti sem það er gert. Á þessu ári á að verja 30 millj. kr. til tilrauna, 28 millj. á næsta ári, á árinu 1991 27 millj. og þar fram eftir götunum. Þetta hafa verið svipaðar fjárhæðir og ég álít að því fé sé ekki illa varið.
    Hv. þm. spurði jafnframt hvort inni í þeim 413 millj., sem gert er ráð fyrir að fari á höfuðborgarsvæðið, væru greiðslur í samræmi við þann samning sem fyrrv. fjmrh. og fyrrv. borgarstjóri gerðu. Svo er, þar er um 130--140 millj. kr. að ræða sem er svipuð upphæð og gert hafði verið ráð fyrir í þeirri vegáætlun sem nú gildir, ef ég man rétt. Ég þori ekki að fullyrða á hvorn veginn skakkar.
    Þá er spurt hvenær eigi að endurgreiða lánin sem nú eru tekin til atvinnuaukningar. Í þingsalnum hefur oft verið rætt um það á þenslutímum þegar menn hafa samtímis staðið að því að byggja stórvirkjanir og álver eða járnblendiverksmiðju að skynsamlegra hefði verið að leggja meiri áherslu á vegaframkvæmdir þegar slíkar framkvæmdir lægju niðri til að jafna verktakavinnu og til þess að reyna að halda uppi hærra atvinnustigi. Sú vinna, sem nú fer fram, er einmitt þess eðlis þegar við gerum ráð fyrir því að verja til vegamála í heild sinni hálfum öðrum milljarði meira en gert var 1991, ríflega það bæði árin 1989 og 1990 þegar við erum að tala um sama verðlag. Þessir peningar skila sér því með þeim hætti. Hitt er annað mál að síðasta ríkisstjórn setti fram áætlanir um það að auka tekjur Vegasjóðs með hærri skattheimtu. Ekki voru það nú samt nema tilburðir og ekkert var fest í lög um þau efni eins og hv. þm. er kunnugt. Því hefur ekki verið slegið föstu. Ég hef gert ráð fyrir því að endurgreiðsla á þessu fé hefjist þegar framkvæmdum við Vestfjarðagöng er lokið, a.m.k. ekki fyrr, en ég vil líka vekja athygli á því að skuldir vegna flóabáta eru ríflega 2 milljarðar kr. Eftir síðasta yfirliti, sem ég fékk, eru þær skuldir 2,3 milljarðar kr. Á árinu 1991 var varið til flóabáta 150 millj. kr. Slík upphæð dugir náttúrlega hvergi nærri til í sambandi við þetta mikla skuldasöfnun. Það er öldungis ljóst að ekki dugir til lengdar að Alþingi taki ákvarðanir um ferjur eins og Herjólf eða Baldur sem kosta jafnmikla fjármuni án þess að kosta einum einasta eyri til á smíðatíma. Það gengur auðvitað ekki, það er auðvitað óverjandi. Auðvitað er líka óverjandi þegar ráðist er í kaup á skipi eins og Akraborginni að þá skuli hvíla á því súlulán sem engin afborgun er af í svo og svo mörg ár og það gjaldfalli svo kannski fimm árum eftir að skipið er keypt og komið á það

viðhald og breyttir tímar. Ef Alþingi treystir sér á annað borð til þess að leggja í fjárfestingu upp á 2 milljarða í ferjumálinu á tveimur eða þremur árum þá verður það að sýna lit í því að eiga einhverja peninga aflögu á sama tíma og ákvörðunin er tekin.
    Að síðustu vil ég leiðrétta hv. þm. Steingrím J. Sigfússon. Ekki er verið að tala um veg svo hundruð km skiptir um óbyggð svæði þegar verið er að leggja veg frá Mývatnssveit yfir Jökuldal, síður en svo. Það eru alls ekki mörg hundruð km þar á milli. Mikill misskilningur. Ég skal ekki nákvæmlega segja hvað það er en ég veit að hv. þm. hefur mismælt sig þegar hann sagði þetta, en sama er. Þannig var tekið til orða til þess að reyna að gera þessa framkvæmd tortryggilega og ég er vitaskuld fullkomlega ósammála honum um það að ekki sé tímabært að leggja í veginn milli Norður- og Austurlands.