Vegáætlun 1993--1996

109. fundur
Þriðjudaginn 16. febrúar 1993, kl. 17:09:46 (5190)

     Guðmundur Bjarnason (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Mig langaði að gera athugasemdir við tvö atriði úr ræðu hæstv. samgrh. Hann talaði um það að í ræðu minni hefði komið fram að alltaf hefði náðst samkomulag í þingmannahópi Norðurl. e. um vegáætlun og lýsti því yfir að hann hafi verið fullkomlega ósáttur eins og frá henni var gengið seinast í tíð fyrrv. ríkisstjórnar. Ég held að ég hafi sagt í minni ræðu, ég var að vísu með hana skrifaða en ég vænti að það megi slá því upp aftur þegar hún kemur prentuð, að alla jafnan hafi náðst bærilegt samkomulag þó áherslur kunni að hafa verið eitthvað mismunandi á stundum. Ég held að það hafi komið fram eitthvað í þessa veru og einmitt með tilliti til þess sem ég hef áður heyrt hæstv. ráðherra tala.
    Hitt atriðið sem mig langar til þess að nefna var þegar hann talar um að við gerum lítið úr því ,,smáræði`` sem muni á fjárveitingum til samgöngumála í tíð núv. ríkisstjórnar og þeirrar fyrrverandi. Í samanburði mínum hér áðan gerði ég fyrst og fremst samanburð á gildandi vegáætlun fyrir árið í ár og á þeirri vegáætlun sem hér liggur fyrir og er til umræðu. Í því fólst minn samanburður fyrst og fremst og ég vil að það liggi alveg ljóst fyrir og ég hafði einnig orð á því að það hefði e.t.v. verið auðveldara að standa við fyrri áætlun en að taka inn ný verk og þurfa að skera niður önnur á móti.