Vegáætlun 1993--1996

109. fundur
Þriðjudaginn 16. febrúar 1993, kl. 17:11:20 (5191)

     Samgönguráðherra (Halldór Blöndal) (andsvar) :
    Herra forseti. Um þetta er það að segja að ég er andvígur því, ég tel það rangt, að ákveða vegáætlun eins og gert var rétt fyrir kosningar. Það gefur tilefni til þess að vera með yfirboð. Auk þess sem þeir þingmenn sem þá eru að kveðja eiga ekki að ráða stefnunni í vegamálum næstu fjögur ár. Það er mjög undarleg kenning sem hér kemur fram hjá hverjum þingmanninum á fætur öðrum að þeir nýju þingmenn sem voru kjörnir í síðustu kosningum eigi ekki að fá að koma að ákvörðunum um vegamál fyrr en eftir að þeir eru sjálfir farnir burtu. Mjög undarleg kenning. ( HÁ: Átt þú ekki að gera þetta einn?) Ég heyri að nafni minn Ásgrímsson spyr hvort ég eigi ekki að ráða þessu einn. Við erum líkir að því leyti nafnarnir að við viljum ráða einir, þannig að ég get vel tekið undir þetta. ( SJS: Ætlar þú ekki að leggja fram vegáætlun 1995?) ( JónK: Þetta er síðasta vegáætlunin.)