Vegáætlun 1993--1996

109. fundur
Þriðjudaginn 16. febrúar 1993, kl. 17:27:26 (5193)

     Samgönguráðherra (Halldór Blöndal) (andsvar) :
    Herra forseti. Út af hinum síðustu orðum hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar vil ég enn minna á það sem margsinnis hefur komið fram. Þegar ráðist var í göngin fyrir vestan var tekin ákvörðun um það með þáltill., það var stefna forvera míns að taka lán til jarðgangagerðarinnar fyrir vestan þannig að . . .   (Gripið fram í.) Flýta þeirri framkvæmd segir þingmaðurinn. Það var einmitt það sem hann var að fordæma áðan að tekin væru lán til vegagerðar og var að tala um að það væri annað að framkvæma fyrir lánsfé en að framkvæma fyrir eigið aflafé. Þannig að þar er nú einhver mótsögn uppi. Í annan stað ítreka ég það sem ég sagði áðan: Meðan hv. þm. var samgrh. ætlaðist hann til þess að tekjur Vegasjóðs gæfu miklu meira af sér eftir kosningar en áður. Hann var ekki maður til að koma í gegn eða gera ráðstafanir til þess að afla þeirra tekna í Vegasjóð meðan hann var samgrh. sem hann ætlaðist til að Vegasjóður fengi síðar meir. Það sýnir auðvitað að vegáætlun síðast, sem samþykkt var rétt fyrir kosningar, eins og undirskriftin á Vestmannaeyjaferjunni --- að það var með blendnum huga sem ýmsir þingmenn, sem voru í nefndinni um langtímaáætlun, samþykktu þessa hluti og mér er vel kunnugt um það. Auðvitað hefðu báðir þeir þingmenn sem hér hafa talað, 1. þm. Austurl. sem þá var sjútvrh. og samgrh., kosið að geta lagt meira með sér til vegamála fyrir kosningarnar en það gátu þeir ekki gert. Þeir treystu sér ekki til þess að hækka tekjustofna Vegasjóðs í samræmi við það sem vegáætlun segir til um. Það er því laukrétt sem ég sagði áður, þessi vegáætlun bar keim af kosningum, það var kosningavegáætlun, en þó svo hafi verið eru allar horfur á að það takist að útvega það fé sem nauðsynlegt er til þess að standa undir því framkvæmdamagni sem þar er gert ráð fyrir.
    Hitt er svo rétt, herra forseti, að vond staða þjóðarbúsins nú veldur því að við getum ekki búist við því að fá það sjálfsaflafé sem við bjuggumst við. Við höfum tekið ákvörðun um það að ráðast í meiri framkvæmdir en tekjustofnar Vegagerðarinnar standa undir vegna atvinnuástandsins og hyggjumst síðan endurgreiða þá peninga síðar meir þegar betur árar.