Skipulags- og byggingarlög

113. fundur
Mánudaginn 22. febrúar 1993, kl. 14:30:41 (5335)

     Anna Ólafsdóttir Björnsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég veit ekki hvað ég kemst í að nýta mér andsvar ítarlega en ég vil fyrst taka fram varðandi verndun gamalla húsa að tel ég að það ætti fortakslaust að vera hluti af skipulagslögum að fjalla um sérstaklega heildstæðar húsaþyrpingar þar sem um gamla byggð er að ræða og einnig þurfi að fjalla sérstaklega um þetta innan skipulagslaga. Það þarf ekki að koma í veg fyrir að um menningarverðmæti sé fjallað í lögum er heyra undir menntmrn. Ég tel fulla ástæðu til að það sé á báðum stöðum.
    Varðandi það hvort heppilegt sé að skipulagsmál séu hjá sveitarfélögum, þá er það vissulega rétt að ég tel að öðru jöfnu ljómandi gott að þau séu vistuð þar að því tilskildu, og það var kannski eitt aðalatriði ræðu minnar, að réttur almennings sé tryggður gagnvart ákvörunum sveitarfélagsins því að sveitarfélög geta alveg eins og annað stjórnvald tekið ákvarðanir sem brjóta á rétti almennings. Ég ítreka þetta svo það fari ekkert á milli mála að þetta var eitt meginefni ræðu minnar.
    Ég gerði athugasemd í ræðu minni varðandi 13. gr. laganna þar sem ítarlega er talað um umfjöllun athugasemda um staðfestingu aðalskipulags. Mér finnst vanta í þessa grein að fá það klárlega á hreint hvernig ráðherrar ætla að taka sína lokaákvörðun og dálítið misvísandi skilaboð innan greinarinnar.