Skipulags- og byggingarlög

113. fundur
Mánudaginn 22. febrúar 1993, kl. 14:32:55 (5336)


     Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Hæstv. ráðherra sagði áðan að það hefði verið einhver áherslumunur í málflutningi mínum og Önnu Ólafsdóttur Björnsson, þingkonu Kvennalistans, þar sem Anna Ólafsdóttir Björnsson hefði talið fundið fé að sveitarfélögin fengju nokkurt vald í skipulagsmálum en ég ekki. Nú held ég að ráðherrann fari svolítið frjálslega með því að ég sagði að það væri vissulega ágætt og góðra gjalda vert að sveitarfélög hefðu meira frumkvæði og hefðu þessa vinnu með höndum.
    Ég hugsa að áherslumunurinn í málflutningi okkar Önnu Ólafsdóttur Björnsson ráðist kannski fyrst og fremst af búsetu en ekki pólitík. Það er þannig að eftir að hafa setið hér í borgarstjórn í Reykjavík og fylgst með skipulagsmálum í Reykjavík þá er fyllilega ástæða til þess að vara við of miklu valdi sveitarstjórna í þessum málum og vara við því að íbúar eigi ekki áfrýjunarrétt. Ég vil vissulega veg sveitarstjórnar sem mestan en ég vil öðru fremur tryggja stöðu og rétt íbúanna því að við erum fulltrúar þeirra en ekki annars stjórnvalds sem er sveitarstjórnin. Reykvíkingar eiga bara allnokkurra harma að hefna í skipulagsmálum og nægir að minna hér á ráðhúsið, Skúlagötuskipulagið, Þingholtin og deiluefni sem hafa komið upp þar, Kvosarskipulagið o.s.frv.
    Þetta er ástæðan fyrir því að ég kem hér upp og legg áherslu á að það sé mjög skýrt kveðið á um rétt íbúanna í þessum lögum og mjög skýrt kveðið á um hvernig þeir geti farið að því að áfrýja í þessum málum.
    Varðandi borgarverndina, sem er fyrirbæri sem er til í Reykjavík, var einu sinni um það rætt þegar það kom inn í aðalskipulagið að það hefði ósköp litla þýðingu að vera að búa til einhver svæði í Reykjavík sem hétu borgarvernduð svæði vegna þess að það hefði engan lagalegan status, væri aðeins hugtak sem menn hafa búið sér til. En mér finnst, virðulegur forseti, kannski ástæða til þess að gefa slíku hugtaki einhvern status í skipulagslögum þannig að það væri það millistig milli útivistarsvæðisins og fólkvangs sem vantar kannski núna.