Skipulags- og byggingarlög

113. fundur
Mánudaginn 22. febrúar 1993, kl. 14:35:28 (5337)


     Umhverfisráðherra (Eiður Guðnason) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég get tekið undir það sem hv. þm. sagði með hugtakið borgarvernd. En ég vek athygli á þeim áherslumun sem kemur fram hjá þingmönnum Kvennalistans. Varðandi það sem hv. þm. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir sagði um áfrýjunarrétt og réttindi almennings og réttindi borgaranna í þessu máli, þá hygg ég að það sé bærilega tryggt í þessu frv. Auðvitað má hafa margar skoðanir á því og auðvitað má ævinlega segja að betur eigi að gera. Hins vegar nefndi hún ýmis dæmi þar sem hún taldi að mjög hefði verið gengið á rétt borgaranna í Reykjavík, t.d. varðandi ráðhús borgarinnar, Skúlagötuskipulag o.fl. Ég tel ekkert liggja fyrir um það að t.d. ráðhúsbyggingin hafi verið byggð í andstöðu við meiri hluta Reykvíkinga. Þar var mjög hávær minni hluti sem hafði sig mjög mikið í frammi, en ég held að sú ákvörðun hafi verið rétt tekin af þar til bærum aðilum og um það sé ekkert að deila.
    Ég tek undir að það á að tryggja rétt almennings til að koma sínum sjónarmiðum hér á framfæri og vernda rétt einstaklinganna gagnvart því að á þeirra hlut sé gengið. Hins vegar getur slík löggjöf aldrei orðið til þess og á ekki að verða til þess að taka hagsmuni minni hlutans fram yfir hagsmuni eða skoðun meiri hlutans. Það getur ekki verið ætlun hv. þm.