Skipulags- og byggingarlög

113. fundur
Mánudaginn 22. febrúar 1993, kl. 14:39:02 (5339)


     Kristinn H. Gunnarsson :
    Virðulegi forseti. Ég hafði ekki hugsað mér að blanda mér í umræðurnar um þetta frv. en vegna orðaskipta sem hér hafa orðið undir lokin þykir mér rétt að árétta tiltekin sjónarmið sem fram hafa komið í umræðunni.
    Ég vil fyrst segja um frv. að mér finnst það horfa að mörgu leyti til betri vegar og hefur allmikil vinna verið lögð í það. Ég hygg að þar sé stigið skref til réttrar áttar í þessum málaflokki. Ég vil þó ítreka og taka undir það sem áður er fram komið að ég er ósammála því ákvæði frv. sem gerir ráð fyrir að þessi mál heyri undir utanrrh. á tilteknum landsvæðum, svonefndum varnarsvæðum, sem er að finna í nokkrum sveitarfélögum landsins. Ég tel það afleitt fyrirkomulag og get tekið undir rökstuðning hv. 1. þm. Norðurl. v. hvað þetta varðar. Ég hef einnig verið í nokkru návígi við þetta mál í minni heimabyggð og reynsla mín af því er sú að það væri betra fyrirkomulag og skynsamlegra á alla vegu að hafa þetta undir almennri nefnd sveitarfélags og síðan umhvrh. en eins nú er.
    Ég vil taka undir það sjónarmið sem mér fannst ráðherra að nokkru leyti vera að gagnrýna og jafnframt andmæla fullyrðingu í framsöguræðu hæstv. ráðherra hér sl. miðvikudag, ef ég man rétt. Það er sú fullyrðing, sem gengur mikið í þjóðfélaginu og mér finnst vera mjög órökstudd, svo ekki sé meira sagt, um að með því að færa verkefni frá ríki til sveitarfélaga séu menn að stuðla að valddreifingu eins og kom fram hjá hæstv. umhvrh. Það er nefnilega ekki sjálfgefið að jafnvel þótt verkefni sé fært úr höndum ríkisins til sveitarfélaga leiði það til meiri valddreifingar eða með öðrum orðum meiri réttar fólksins sem býr í sveitarfélögunum. Það getur verið en það getur líka verið að svo verði ekki. Þetta fer eftir ýmsum atriðum og ég vil mótmæla þessari fullyrðingu. Hún er ekki rétt og því miður eru allmörg dæmi um að menn praktísera vald sitt hjá sveitarfélögum alveg eins dæmi eru um hjá ríki á þann veg að ekki verður undir það tekið að um valddreifingu sé að ræða.
    Það skortir nefnilega ákveðinn þátt í íslenskri löggjöf til þess að tryggja rétt fólksins. Þá fyrst getum við talað um valddreifingu. Það skortir t.d. stjórnsýslulöggjöf sem tryggir rétt íbúanna gagnvart sveitarstjórninni og ákvörðunum hennar alveg eins og það vantar sambærilega löggjöf til að tryggja rétt íbúanna gagnvart ákvörðunum ríkisvaldsins. Ég hef verið það lengi í sveitarstjórn og séð það mörg dæmi um skrýtnar ákvarðanir eða sem manni finnast ganga á hagsmuni einstakra hópa án þess að þeir hafi nokkur tök á að færa fram varnir.
    Þetta ræddi ég dálítið við umræður um skýrslu um umboðsmann Alþingis. Þar kom fram að samkvæmt sveitarstjórnarlögum fer félmrn. með yfirstjórn þeirra mála og menn eiga að geta snúið sér þangað með sín umkvörtunarefni. Umboðsmaður Alþingis hefur gert athugasemdir við túlkun félmrn. á þessu ákvæði laganna en ráðuneytið hefur túlkað það þannig að úrskurðarvald þess gagnvart umkvörtunarefni íbúanna er afar þröngt og afmarkast nánast einvörðungu við formlegheit varðandi stjórn og fundarsköp í sveitarstjórnum. Íbúar sem vilja mótmæla einhverri tiltekinni ákvörðun sveitarstjórnar, álagningu gatnagerðargjalds eða einhverju því um líku, hafa þannig engar leiðir til að koma því á framfæri og óska eftir úrskurði æðra stjórnsýsluvalds. Þessi afstaða félmrn. hefur skapað mikinn vanda og mjög slæma réttarstöðu íbúanna í sveitarfélögunum.
    Til þess að sú fullyrðing hæstv. umhvrh., sem ég geri að umtalsefni, að um valdreifingu sé að ræða við það að færa verkefni frá ríki til sveitarfélaga verði rétt verður að setja sérstaka löggjöf sem tryggir hagsmuni þessara sömu íbúa. Staðreyndin er sú, sem menn vilja allt of oft gleyma, að sveitarstjórnir og ríki eru til fyrir fólkið en ekki öfugt.
    Ég get nefnt nýlegt dæmi úr minni heimabyggð þar sem framkvæmd sömu ákvörðunar sveitarstjórnarinnar er með gerólíkum hætti á milli ára hvað varðar ívilnandi ákvörðun um rétt íbúa til lægri fasteignaskatts samkvæmt álagningarreglum. Sama ákvörðun er tekin í minni bæjarstjórn árið 1992 og 1993. Framkvæmdin 1992 var sú að fasteignaskattur íbúa 67 ára og eldri er felldur niður. Framkvæmdin 1993 er sú að sami skattur er ekki felldur niður. Hvert eiga íbúarnir að snúa sér til að fá leiðréttingu sinna mála? Miðað við ástandið í dag geta þeir ekki snúið sér neitt nema helst til almennra dómstóla.
    Þetta vildi ég undirstrika og jafnframt taka undir sjónarmið hv. 10. þm. Reykv. hvað varðar rétt íbúa í þessum tiltekna lagabálki. Ég held að við verðum að gæta þess í ríkari mæli en verið hefur að lagasetningunni er ætlað að tryggja bæði réttindi og skyldur íbúa. Við megum ekki einvörðungu einblína á skyldurnar heldur verðum við líka að tryggja réttindin.