Skipulags- og byggingarlög

113. fundur
Mánudaginn 22. febrúar 1993, kl. 14:46:18 (5340)

     Anna Ólafsdóttir Björnsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég vil taka undir með hv. síðasta ræðumanni að það er ekki sjálfgefið að tilfærsla á valdi til sveitarfélaga þýði valddreifingu. Ég tek undir það sjónarmið hans að okkur skortir gjörsamlega öll ákvæði um áfrýjunarrétt almennings. Þetta er einmitt meginvandamál mjög víða í okkar stjórnsýslu. Að vísu örlar á því í þessu frv. að það sé ákveðinn áfrýjunarréttur og auðvitað er það af hinu góða. En eins og ég kom fram með í andsvari áðan vantar því miður að skýra það nákvæmlega hvernig slík mál munu ganga fyrir sig. Það ég tel fyrst og fremst galla á þessum ákvæðum í frv.
    Hins vegar verð ég að taka það sérstaklega fram að oft og tíðum er meiri fjarlægð frá valdi ef sækja þarf áfrýjunarrétt til ríkis en til sveitarfélaga en ég tek undir þau sjónarmið að þetta er mjög misjafnt eftir sveitarstjórnum og sveitarfélögum. Í tíu ára starfi mínu í nefndum og ráðum og hreppsnefnd í sveitarstjórnum þekki ég bæði dæmi um að það geti verið auðveldara í smærri sveitarfélögum að hafa áhrif á ákvarðanir sveitarstjórna og að það geti jafnvel valdið auknum vanda þar sem persónulegir hagsmunir ráða og jafnvel ákveðin valdabarátta sem ekki verður skýrð af öðru en smæð sveitarfélagsins. Ég held því að fyrst og fremst verði að tryggja vald hinnar smæstu einingar, þ.e. almennings.