Skipulags- og byggingarlög

113. fundur
Mánudaginn 22. febrúar 1993, kl. 15:10:14 (5347)

     Svavar Gestsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Ég þakka umhvrh. fyrir það sjónarmið sem fram kom í hans máli núna varðandi kynningu á sjónarmiðum minni hluta þegar verið er að kynna skipulagsuppdrætti eða breytingar á skipulagi. Ég tel mjög mikilvægt að þetta sjónarmið hafi komið fram og vænti þess að hv. nefnd taki tillit til þessara viðhorfa hæstv. umhvrh.
    Varðandi brýrnar endurtek ég það sem ég sagði áðan. Ég held a.m.k. þegar um er að ræða brýr í þéttbýli eigi að líta á þær sem mannvirki sem lúti hinum almennu skipulagsreglum í landinu. Það er mín skoðun og ég geri ráð fyrir að það sé skoðun umhvrn. líka án þess að það hafi komið skýrt fram í máli hans. Ég heiti á hann að halda þannig á málum að eitthvert samkomulag náist um það í þessu gamla deilumáli, sem hann rifjaði upp, á milli félmrn. og samgrn. og ég kannast við frá fyrri tíð þegar ráðherrann minnir á það.