Skipulags- og byggingarlög

113. fundur
Mánudaginn 22. febrúar 1993, kl. 15:11:33 (5348)

     Páll Pétursson :
    Herra forseti. Ég lít svo á að bæði brýr og vegir séu mannvirki. Það ætti því ekki að þurfa að verða deiluefni í þessu sambandi. Ég þakka hæstv. umhvrh. fyrir að fara ekki aftur á flot með hið framúrskarandi mislukkaða og vitlausa frv., sem við ræddum lítillega í fyrravor, um skipulagsmál á Miðhálendinu. Það er sannarlega spor í rétta átt og þakkarvert.
    Auðvitað ber þetta frv. merki þess að annar aðalhöfundur þess er formaður Sambands ísl. sveitarfélaga og borgarfulltrúi í Reykjavík og sennilega á hann einhvern tímann eftir að verða borgarstjóri --- hann hefur sýnt ákveðinn áhuga á því.
    Auðvitað er þetta með valddreifinguna ekkert einhlítt. Það er ekkert einhlítt að það sé fólgin valddreifing í því að færa verkefni frá ríki til sveitarfélaga. Það fer náttúrlega eftir eðli sveitarfélaga og eftir því hvernig þeim er stjórnað. Ég hygg að dæmin sanni að gerræði og spilling getur þrifist ekki síður a.m.k. í sveitarfélagi en á vegum ríkisins. Það kann að vera enn frekar hætta á að þvílíkt ástand skapist, sérstaklega þegar fámennisstjórn hefur verið á sveitarfélagi um lengri tíma. Það er ekkert einhlítt að það sé valddreifing.
    Hv. 9. þm. Reykv. lýsti ákveðnum áhyggjum út af þessu atriði og nefndi til það sveitarfélag þar sem við erum nú stödd, þ.e. Reykjavík. Ég tel það verðugt verkefni fyrir Reykvíkinga að skipta um meiri hluta. Það sé lausnin fremur en vera sérstaklega hrædd við að fela sveitarstjórn þessi samfélagslegu verkefni.
    Varðandi friðun húsa vil ég gera litla athugasemd við það sem hv. 9. þm. Reykv. sagði. Ég tel að núv. borgarstjóri, og þá sé öllu til skila haldið, Markús Örn Antonsson, hafi að ýmsu leyti menningarlegt viðhorf til varðveislu gamalla húsa og menningarlegs umhverfis. Ég tel að það hafi orðið veruleg breyting við síðustu borgarstjóraskipti í Reykjavík að þessu leyti og barbarismi fortíðarinnar er ekki í verkum núv. borgarstjóra, a.m.k. ekki eins augljós og hjá fyrri borgarstjóra. Auðvitað getur friðun gengið út í öfgar og þetta er allt saman vandmeðfarið. Við höfum í næsta nágrenni hús sem eru í eigu Alþingis og mér skilst að einhver andstaða sé við að rífa. Mér finnast þessi hús til óprýði í borginni og sögulegt gildi þeirra ekki sérstaklega mikið. Það er dæmi um hvernig getur farið ef friðunaráráttan gengur út í öfgar.

    Af tillitssemi við hv. þm. Sjálfstfl. ætla ég ekki að ræða hér og nú frammistöðu þeirra í umræðum . . .   (Gripið fram í.) Jú. Hér er fyrrv. þingflokksformaður, þó það beri minna á honum núna en meðan hann var og hét á þingi, þ.e. var formaður þingflokks Sjálfstfl. Hann ,,degraderaðist`` eftir síðustu kosningar og varð menntmrh. --- En hv. 5. þm. Norðurl. e. er genginn í salinn. Ég ætla ekki að skaprauna þessum tveimur sjálfstæðismönnum sem gera okkur þann heiður að vera viðstaddir með því að fara að rifja upp framgöngu Sjálfstfl. þegar frv. til laga um stofnun umhverfisráðuneytis var til umræðu. Við sem sátum á þingi þá munum þetta allt saman. Ég held að reynslan hafi sannað að það var réttmætt að stofna umhverfisráðuneyti. Það var rétt skref. Við höfum verið svo heppin að eignast tvo ágæta umhvrh. Ég tel að þeir báðir vilji vel og hafi hvor um sig unnið ágæt störf þó kannski megi finna að einhverju sem þeir hafa gert. Ég tel að núv. ráðherra muni ekkert standa að baki fyrrv. umhvrh. þegar upp er staðið eða vona það a.m.k. Ég tel að afstaða Sjálfstfl. til þessa máls hafi verið honum sjálfum til skammar og er alveg viss um að sumir þeir þingmenn sem annaðhvort lásu texta til að tefja tímann eða sögðu annað, sem reyndar var flest miklu óviturlegra en að lesa ,,Raddir vorsins þagna`` í þeirri umræðu, sjái eftir orðum sínum sem þeir létu falla þá og sú framganga öll hafi verið þeim til skammar.