Skipulags- og byggingarlög

113. fundur
Mánudaginn 22. febrúar 1993, kl. 15:35:48 (5351)

     Guðrún Helgadóttir (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Það kom mér á óvart hvað mér virtist hæstv. ráðherra eitthvað snakillur við mig. Það er alveg hárrétt hjá honum að ég kom aðeins of seint inn í þessa umræðu en ég sé ekki annað en þau atriði sem hann svaraði hafi öll verið þess virði að minnast á og ég sá nú ekki að hann væri mér ósammála í stórum dráttum um það sem ég sagði. Ég vil hins vegar mótmæla því að ég hafi lýst mig andsnúna frv. Það er fráleitt. Ég lýsti því yfir hvaða atriðum ég væri andsnúin en hreint ekki frv. í heild, það er alls ekki rétt.
    Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir upplýsingarnar um að einhver samræming er að komast í gang í kortagerð. Ég held að það sé afar mikilvægt og ég fagna því jafnframt ef honum finnst ástæða til að a.m.k. kanna hvað til er hjá bandaríska hernum sem gæti komið að gagni. Mér er nú stórlega til efs að þeir hafi verið mjög illa tæknivæddir þegar þeir unnu þetta starf, en auðvitað eru framfarir miklar og kann að vera að eitthvað af tækjum hafi komið til síðar, en sama er um, ég held að með minnkandi ótta um ófrið á þessu svæði, þá held ég að það sé nú full ástæða til þess að kanna það hvort ekki sé hægt að hafa einhver not af þessu mikla verki þannig að ég held að við hæstv. umhvrh. séum ekkert ósammála um alla hluti varðandi þetta frv. En það róar mig ekkert að byggingarreglugerð hafi verið ítarleg áður. Hún var hinn versti óskapnaður og ég var satt að segja að vona að ný reglugerð mætti verða styttri en stærri atriði sem áður voru í byggingarreglugerð yrðu felld inn í lögin sjálf. En um þetta fjallar auðvitað hv. umhvn. þegar þar að kemur svo að við lítum á það þegar málið kemur aftur úr nefnd.