Verðbréfaviðskipti

114. fundur
Þriðjudaginn 23. febrúar 1993, kl. 13:41:16 (5358)

     Guðrún Helgadóttir :
    Hæstv. forseti. Aðeins örfá orð. Það er orðið alllangt síðan þessari umræðu var frestað og enn lengra síðan málið var upphaflega rætt hér. Við 1. umr. málsins vakti ég athygli á því sem mér fannst þurfa að lagfæra en það var aðallega tvennt. Það var að til þess að íslensk verðbréfafyrirtæki gætu reynst samkeppnisfær við önnur fengju þau heimild til þess að veita viðskiptaaðila lán eða ganga í ábyrgðir vegna verðbréfaviðskipta. Ég sé að nefndin sem málið fékk til meðferðar hefur fallist á þau rök og á þskj. 390 er brtt. við 19. gr. sem leiðréttir þetta.
    Annað benti ég einnig á. Mér fannst ofgert við bankaeftirlit Seðlabankans þar sem í upphaflega frv., 38. gr., var ráðherra veitt heimild til að fela bankaeftirlitinu veitingu leyfa til verðbréfamiðlunar og einnig afturköllun leyfa. Ég gerði við það athugasemd að þar með ætti bankaeftirlitið bæði að veita leyfi, afturkalla þau og sjá síðan um eftirlit. Mér þótti þetta nokkuð mikið haft við bankaeftirlitið, einkum þar sem bæði í 2. gr., 8. gr. og 10. gr. kemur fram að leita skuli umsagnar bankaeftirlitsins jafnt við veitingu leyfa til verðbréfamiðlunar og veitingu starfsleyfa og varðandi réttindi og skyldur verðbréfafyrirtækja. Í stuttu máli hefur nefndin einnig fallist á þessi rök og gerð er tillaga um að 38. gr., sem veitir ráðherra heimild til að bankaeftirlitið megi veita og afturkalla leyfi, verði felld út.
    Að öðru leyti held ég að þetta frv. sé af hinu góða og styð það. Ég þakka hv. nefnd og formanni hennar fyrir að hirða um þær ábendingar sem fram komu við 1. umr.