Verðbréfaviðskipti

114. fundur
Þriðjudaginn 23. febrúar 1993, kl. 13:55:58 (5361)

     Steingrímur J. Sigfússon :
    Hæstv. forseti. Ég ætla eins og fleiri ræðumenn að nota tækifærið þegar hið fyrsta af þremur frv. sem tengjast verðbréfaviðskiptum kemur fyrir, þ.e. 2., 3. og 4. mál á dagskrá þessa fundar, verðbréfaviðskipti, verðbréfasjóðir og Verðbréfaþing, og reifa viðhorf mín til þessara mála almennt við umræður um fyrsta dagskrármálið og gera jafnframt grein fyrir fyrirvara, sem ég hef í nál., við þessi þrjú mál. Ég get að nokkru leyti vísað þar til þess sem hv. 18. þm. Reykv. þegar hefur sagt. Fyrirvarinn stafar ekki af efnislegum ágreiningi í sjálfu sér um nein einstök atriði frv. því að um þau hefur tekist allgóð efnisleg samstaða í efh.- og viðskn. í kjölfar mikillar vinnu sem þar hefur átt sér stað í sambandi við þessi mál. Er ekki frítt við, svo að maður ljóstri upp því hernaðarleyndarmáli úr efh.- og viðskn., að einstöku maður sé að verða hálfleiðir á þessum verðbréfapakka, sem eru þrjú allmikil frv., svo ekki sé meira sagt. Þykir sumum að þar sé á ferðinni nokkuð viðamikil umgjörð um lítið innihald því að eins og kunnugt er, hæstv. forseti, er þessi markaður enn að slíta barnsskónum á Íslandi. Ekki mikill fyrir mann að sjá, ef svo má að orði komast, og umfang viðskiptanna ekki ýkja stórt. Til marks um aðstæður má til að mynda hafa það að yfir áhorfendum Stöðvar 2 er nú lesið á hverju kvöldi gengi ákveðinnar vísitölu í þessum efnum og jafnframt upplýst að viðskiptin hafi verið frá 10--20 þús. upp í nokkur hundruð þús. kr. á sólarhring. Þar eru svo sem ekki á ferðinni fjárhæðir sem hreyfa miklu til í þessum efnum.
    Hitt er svo alveg ljóst, og þar vil ég ekki draga neina dul á, að í þeim mæli sem þessi viðskipti eru orðin staðreynd hér er að sjálfsögðu nauðsynlegt og reyndar löngu tímabært að um þau gildi sæmilega útfærð lagaákvæði, þennan vísi af fjármagnsmarkaði sem segja má að hér sé starfræktur. Um hann þurfa að sjálfsögðu að gilda skýr lagaákvæð og þá ekki síst um það sem lýtur að vönduðum viðskiptum og viðskiptaháttum, greiðum aðgangi að upplýsingum o.s.frv.
    Fyrirvari minn lýtur í sjálfu sér meira að stöðu þessara viðskipta í ljósi þess að hér er á ferðinni eingöngu vísir að markaði sem enn er að slíta barnsskónum. Ég hef þess vegna nokkuð velt því fyrir mér hvort ekki hefði mátt reyna að einfalda þessa umgjörð um verðbréfaviðskipti og verðbréfamarkað meira en

hér er gert þar sem valin er sú leið að hafa hliðsjón af löggjöf og setja jafnviðamikla löggjöf um þessi viðskipti og tíðkast hjá milljónaþjóðum þar sem áratuga eða aldagamall markaður er á ferðinni. Ég hef til að mynda velt því fyrir mér hvort ekki hefði hentað íslenskum aðstæðum betur að láta þennan fjármagnsmarkað, ef svo má kalla, eða verðbréfamarkað þróast út úr t.d. bankakerfinu sem hliðarstarfsemi í meira mæli en orðið hefur raunin. Rök mín fyrir slíku eru fyrst og fremst þau að við Íslendingar þurfum að varast að fá eitthvert mikilmennskubrjálæði og láta það hvarfla að okkur að hér geti a.m.k. við núverandi aðstæður og á allra næstu árum sprottið upp úr jörðinni fullskapaður fjármagnsmarkaður sem standi undir því nafni í öllu tilliti og verði svo mikill að umfangi að hann beri yfirbyggingu sem er samfara slíkri starfsemi þar sem milljarðar og milljarðatugir og hundruð milljarða velta hjá milljónaþjóðunum.
    Þá hlýtur og að vakna spurning um hvort í okkar afar smáa efnahagskerfi og litlu fjármagnsveröld, ef svo má að orði komast, sé sjálfgefið að verkaskipting milli t.d. bankakerfisins og verðbréfasjóða, verðbréfaþings og verðbréfamiðlunar eða miðlara sé hin sama og erlendis hjá stórþjóðunum. Við Íslendingar þekkjum þess auðvitað mörg dæmi að við höfum orðið að sníða okkur stakk eftir vexti í ýmsum efnum og menn mega ekki alltaf gefa sér að umbætur í löggjöf á Íslandi eigi að felast fyrst og fremst í því að sigla eða fljúga út fyrir landsteinana og skoða það sem nýjast er í löggjöf stórþjóðanna og innleiða það svo hér. Það á ekki alltaf við. Ég verð að segja alveg eins og er, hæstv. forseti, að efasemdir mínar og fyrirvari lúta ekki síst að því að ég vil hafa á því fullan fyrirvara að það sé raunhæft að þessi markaður hafi forsendur til að þróast í öllu tilliti hér eins og hann hefur gert á áratugum meðal stórþjóðanna í kringum okkur. Þá kæmi að þeirri spurningu, og kannski leiðir reynslan á næstu árum hana að einhverju leyti í ljós: Verður að hafa að nokkru leyti sérreglur um það hvernig verkaskipting til að mynda milli banka, fjárfestingarlánasjóða og svo þessarar starfsemi er á Íslandi?
    Nú er það að vísu svo að skeggið er skylt hökunni og staðreyndin er sú að þessir aðilar eiga í raun og veru hverjir aðra á Íslandi. Bankakerfið á í grófum dráttum verðbréfafyrirtækin og má kannski segja að þar með sé það de facto eða í reynd, sem ég var velta fyrir mér hvort ætti að verða að lögum, að þessi starfsemi sé hliðarstarfsemi út úr bankakerfinu. Það má vel vera að lagalega séð sé rétt að hafa þetta aðgreint og láta sér svo í léttu rúmi liggja þó að eignarhaldið sé með þessum hætti að bankakerfið ráði þessu á bak við tjöldin.
    Eina efasemd enn vil ég færa fram, hæstv. forseti. Hún er einfaldlega sú hvort í okkar afar smáa viðskipta- og efnahagslífi sé ekki nokkur hætta á því að með uppbyggingu þessa verðbréfamarkaðar, verðbréfaviðskipta, sjóða og jafnvel kauphallar eða kaupþings, lendi óþarflega margir menn á fóður, ef svo má að orði komast, miðað við umfang fjármagns sem hér er í umferð og mögulegt umfang þessara viðskipta eins og það getur orðið í sjáanlegri framtíð. Það væri auðvitað til lítils að beita hagræðingarráðstöfunum og reyna t.d. að spara í rekstri bankakerfisins, sem er ekki vanþörf á, ef á sama tíma yxi þarna upp hliðarbákn sem sogaði til sín mannafla og færi að mestu leyti í að fóðra sjálft sig á næstu árum. Því er ekki að leyna að mér virðist sem nokkurrar tilhneigingar gæti til þess að vöxturinn komi fram til að mynda í þessum geira í stað þess sem svarar samdrættinum annars staðar.
    Enn fremur vil ég, hæstv. forseti, láta það sjónarmið mitt koma fram að nauðsynlegt sé að reikna með endurskoðun þessara laga innan tíðar og þá auðvitað í ljósi reynslunnar og þróunarinnar á allra næstu árum. Ég hefði talið að ekki væri óeðlilegt að reikna með því að innan 3--5 ára yrði farið yfir stöðu þessara mála á nýjan leik og lögin endurskoðuð. Í þeim er ekki að finna sjálfstætt ákvæði í þá veru, hvorki endurskoðunarákvæði og þaðan af síður sólarlagsákvæði sem tryggi það að slík endurskoðun fari fram. Ég vil engu að síður láta þetta sjónarmið mitt koma hér fram. Það væri fróðlegt að heyra hvort hæstv. viðskrh. hefur að eitthvað velt því fyrir sér.
    Eitt atriði enn verða menn að hafa í huga þegar rætt er um þessa starfsemi og þróunarforsendur hennar á næstu árum og það er sú opnun fjármagnsmarkaðarins sem er að eiga sér stað. Það hlýtur að gegna nokkuð öðru máli um aðstæður hér uppi á Íslandi þar sem þessi markaður er í raun og veru fyrst að komast í gang, fyrst að þróast nú einmitt á sama tíma og hömlur eru að afleggjast í fjármagnshreyfingum milli landa. Ef sú lagasetning, sem við erum að ræða um og sú þróun, sem er að eiga sér stað, hefði verið við skulum segja tíu árum fyrr á ferðinni, t.d. í þá veru að nokkur fjöldi fyrirtækja væri ýmist þegar kominn á skráðan hlutabréfamarkað eða á leiðinni þangað og menn hefðu síðan haft tíu ár í skjóli þeirra hamla sem verið hafa á fjármagnshreyfingum milli landa til að láta þennan markað þróast og koma undir sig fótunum, hefði það að sjálfsögðu breytt miklu. Nú sjáum við til að mynda að lífeyrissjóðir, sem eru að flestra dómi og af skiljanlegum ástæðum taldir líklegastir fjárfestar hér á næstu árum svo einhverju nemi í hlutabréfum eða verðbréfum eða almennt á fjármagnsmarkaði, eru sumir að leita hófanna með ávöxtun á sínu fé erlendis og var barnaskapur annað en að reikna með því að um leið og þeir möguleikar opnuðust mundu slíkir aðilar þreifa fyrir sér í þeim efnum, þó ekki væri nema til þess að öðlast reynslu og innsýn í slík viðskipti, til að dreifa áhættunni og fá þann samanburð sem í því felst að vera að einhverju leyti með eggin í þeirri körfu.
    Það hefur að vísu gerst, sem er svolítið broslegt í ljósi þess hverjir hafa mest talað um nauðsyn þessarar opnunar og frelsis undanfarin ár, að þeir hinir sömu ráðamenn hafa nú sett þeim lífeyrissjóðum stólinn fyrir dyrnar sem ætluðu að leita hófanna með fjárfestingar erlendis í reynslu skyni á þessu ári og það er spurning hvað maður á að segja um það, hæstv. forseti, af því að mér verður á að horfa hér út undan mér á hæstv. viðskrh. Það er auðvitað svolítið broslegt, eins og ég segi, í ljósi allrar þeirrar umræðu sem farið hefur fram um það að þegar svo einhverjir ætla að ríða á vaðið með þeim hætti sem ég hygg að Lífeyrissjóður bænda og einhver annar lífeyrissjóður hugðust gera á þessu ári, þá er beitt ákvæðum til að stöðva það.
    Ég held að menn verði að gera upp við sig hvort menn vilja frelsið eða vilja það ekki og vera svo sjálfum sér samkvæmir í því. Ég verð að segja alveg eins og er að mér finnst engin sérstök reisn yfir því að bregðast við eins og þarna var gert þegar menn á annað borð hafa opnað fyrir slíkar hreyfingar á fjármagni. Það er þá eins og þegar til kastanna komi séu menn hræddir við eigin afkvæmi. Ég vil spyrja hæstv. viðskrh. í þessu sambandi hvaða sjónarmið hafi helst legið þar til grundvallar. Er til að mynda mat hans að íslenskur fjármagnsmarkaður og verðbréfaviðskipti hér megi ekki við því að þessar heimildir verði nýttar á allra næstu árum af aðilum sem kynnu að vilja leita hófanna með ávöxtun síns fjár erlendis?
    Það væri freistandi, hæstv. forseti, að ræða einnig svolítið um vaxtamálin og stöðuna almennt á þessum markaði í þessu samhengi. Það hlýtur að skipta máli í sambandi við möguleika manna til þess að hafa hér sæmilega heilbrigt ástand að þessi viðskipti þróist með eðlilegum hætti og ávöxtunarkjörin þar geti orðið slík að þau standist til langframa. Ýmsar efasemdir hefur maður haft a.m.k. á undanförnum árum um að raunveruleg arðsemissjónarmið eða raunveruleg ávöxtun væri það sem réði ferðinni, til að mynda í hlutafjárviðskiptum í landinu, heldur kæmi þar fleira til svo sem eins og valdabarátta í fyrirtækjum og áhrif hér í hinum litla og lokaða viðskiptaheimi. Slík sjónarmið ættu nú tæplega að geta átt við lengur þegar komið væri út í óbeinar fjárfestingar eða óbeina eign í sambandi við verðbréfasjóði og að því leyti til ætti starfsemi þessara aðila að geta verið til bóta í þessum efnum.
    En fyrst og fremst held ég að nauðsynlegt sé, og það skal ég láta verða mín síðustu orð, að menn geri sér ekki allt of háar hugmyndir um umfang þessara viðskipta eða þróun þeirra á allra næstu árum. Menn ósköp einfaldlega muni eftir því hvar þeir eru staddir uppi á litla Íslandi og sníði sér stakk eftir vexti, séu ekki með óraunhæfar hugmyndir eða væntingar í þessum efnum. Ég á ekki von á því hvað sem þessari lagasetningu líður að það verði miklar stökkbreytingar í þróun þessara viðskipta á næstu árum. Ég held að þær forsendur séu einfaldlega ekki fyrir hendi, enda kannski ekki eftir því að sækjast í sjálfu sér. Ef þessi uppbygging getur orðið með sæmilega farsælum og stöðugum en ekkert umrótskenndum hætti, þá er það væntanlega affarasælast. Lagasetningin er þörf, um það er ekki að deila, og ég held að hv. efh.- og viðskn. hafi eftir atvikum reynt að vinna samviskusamlega að því að lagfæra þessi frumvörp og reyna að koma þeim í þann búning sem að bestu manna yfirsýn, nefndarinnar og fjölmargra gesta hennar, ættu að þjóna best tilgangi laganna, þjóna best málstaðnum en þar með er ekki sagt að þarna sé róið fyrir hverja vík og auðvitað eru fjölmörg álitamál í þessu sem sjálfsagt enginn nema reynslan getur skorið úr um hvernig verði best hagað og í því sambandi held ég að væri rétt að stefna strax í upphafi að því þarf að endurskoða lögin innan tiltölulega fárra ára í ljósi þeirrar reynslu sem af þeim hlýst á fyrstu árum gildistíma þeirra.