Samkeppnislög

114. fundur
Þriðjudaginn 23. febrúar 1993, kl. 14:25:11 (5364)

     Kristín Ástgeirsdóttir (um þingsköp) :
    Virðulegi forseti. Að mínum dómi er komin upp nokkuð sérkennileg staða varðandi næsta mál sem hér er á dagskrá en það eru samkeppnislögin. Það hefur ríkt mikil samstaða um efnisinnihald þess frv. ef

frá er talinn kaflinn um hið Evrópska efnahagssvæði eða stofnanir hins Evrópska efnahagssvæðis þar sem töluvert valdaframsal á sér stað.
    Eins og kom fram í máli síðasta ræðumanns, þá gerðist það eftir 2. umr. um þetta mál að Svisslendingar felldu samninginn um Evrópskt efnahagssvæði sem auðvitað gerbreytti forsendum og hefur orðið til þess að enn er allt óljóst um það hvað verður um EES-samninginn. Nú hefur ekki átt sér stað nein alvarleg umræða hvorki í þingsölum né meðal þingflokksformanna um það hvernig staðið skuli að afgreiðslu hinna svokölluðu EES-mála, en mér virðist að meiningin sé að afgreiða þessi mál eftir því sem þau koma hér á dagskrá óháð því hvað verður og eiginlega hvað í þeim stendur. Ég hefði óskað þess, virðulegi forseti, að menn hefðu gengið í það að ná samkomulagi um afgreiðslu þessa máls á þann veg að EES-kaflanum eða stofnanakaflanum yrði hreinlega sleppt þannig að við gætum öll staðið að afgreiðslu þessa máls, en það er ljóst að síðar mun gefast tækifæri til þess að taka þann kafla inn aftur ef samningurinn um EES verður að veruleika. Nú veit ég það auðvitað að samkvæmt frv. er gert ráð fyrir því að kaflinn gangi ekki í gildi nema Evrópska efnahagssvæðið verði að veruleika, en það breytir ekki því að þetta er mjög mikilvægt og stórt mál sem hér er um að ræða og við hefðum gjarnan viljað standa að sem erum að öðru leyti ekki sátt við hið Evrópska efnahagssvæði.
    Þar við bætist, virðulegi forseti, að það þarf að huga að orðalagi þessa kafla, hvort það stenst að tala um eftirlitsstofnun EFTA og dómstól EFTA í ljósi þess að Svisslendingar felldu EES-samninginn og eru ekki lengur aðilar að þessu samkomulagi. Því vil ég beina því til forseta að þessu máli verði frestað og okkur gefist kostur á að ræða það nánar hvort ekki sé leið til samkomulags og hvort ekki sé nauðsynlegt og eðlilegt að fella þennan kafla niður eða í það minnsta að breyta orðalagi í þessum kafla þannig að hann standist veruleikann.