Fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri

114. fundur
Þriðjudaginn 23. febrúar 1993, kl. 15:21:01 (5367)

     Steingrímur J. Sigfússon :
    Herra forseti. Það eru nokkur atriði sem ég vil gera að umtalsefni hér í tengslum við þetta frv. til laga um breytingu á lögum um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri. Ég vil í fyrsta lagi segja út af orðum hæstv. viðskrh. að það er nærtækt að vitna til þessara laga um fordæmi fyrir því að okkur er engin nauðung að fá í öllum tilvikum á okkur utanaðkomandi þrýsting til að breyta fyrirkomulagi hlutanna á Íslandi. Ég held einmitt að sú breyting sem átti sér stað á lögunum um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri árið 1991 sé ágætt dæmi um að við Íslendingar getum sjálfir á okkar eigin forsendum, hvenær sem okkur býður svo við horfa, gert þær breytingar á okkar löggjöf eða á okkar málefnum sem okkur þykir tilhlýðilegt. Þess vegna tel ég það ekki endilega í tengslum við þetta málefni sérstaklega vel til fundið að lofsyngja samninginn um Evrópskt efnahagsgsvæði einmitt vegna þess að hann hafi í för með sér svo

miklar umbætur á íslenskum lögum. Í þessu tilviki tel ég a.m.k. að þær umbætur hafi þegar átt sér stað og það sem hér sé verið að breyta sé heldur til hins verra frá þeim lögum sem um margt voru ágæt og vel heppnuð og kannski mikilsverðust fyrir það að um þau tókst nokkurn veginn alger þverpólitísk samstaða. Er þetta þó mál sem oft hefur verið býsna viðkvæmt í umræðum á Íslandi, þ.e. spurningin um áhrif erlends fjármagns og aðgang erlendra aðila og réttindi til fjárfestinga hér.
    Það tókst til að mynda alger samstaða um það eins og hér hefur þegar verið nefnt í umræðunni að í fiskveiðum og frumvinnslu íslenskra sjávarafurða ætti erlent fjármagn ekki að hafa aðgang. Þetta væri slíkur grundvöllur sjálfstæðs efnahagslífs og í raun og veru sjálfstæðis landsmanna að það kæmi ekki til greina að leyfa erlendu fjármagni að síast þar inn. Það er að vísu þakkarvert að í þessu frv. sem hér er flutt er ekki gerð tillaga um neina breytingu á þessu ákvæði. Þess vegna er í sjálfu sér ekki út af því tilefni til að gera þetta að umtalsefni hér, en ég leyfi mér þó að gera það vegna þess að stjórnskipuð nefnd á vegum hæstv. ríkisstjórnar hefur látið það sjónarmið koma fram að rétt sé að rýmka þær reglur sem nú gilda um fjárfestingartakmarkanir gagnvart erlendum aðilum í sjávarútvegi. Þetta er hin svonefnda margfræga tvíhöfða nefnd sem skipuð er sérstökum trúnaðarmönnum stjórnarflokkanna og hefur unnið að því undanfarna mánuði að endurskoða lög um stjórn fiskveiða og reyndar ýmislegt fleira í tengslum við sjávarútveg. Er nú orðið býsna erfitt að átta sig á því yfir höfuð hvað afmarkar verksvið nefndarinnar þegar hún er m.a. farin að senda frá sér í fjölmiðla álit sitt á hlutum eins og þessum. Þegar forustumenn tvíhöfða nefndarinnar komu á fund sjútvn. sl. miðvikudag höfðu þeir um þetta atriði þau orð að niðurstaða nefndarinnar væri sú að óhjákvæmilegt væri að skoða rýmkun á þessum fjárfestingartakmörkunum, einkum hvað varðaði óbeina fjárfestingu. Ég hjó sérstaklega eftir því og gekk á þá með það við hvað væri átt þegar svona væri tekið til orða, ,,einkum hvað varðar óbeina fjárfestingu``, hvort það fæli í sér að í hugum nefndarmanna væri ekki eingöngu um það að ræða að slík rýmkun ætti að taka til óbeinnar eignaraðildar heldur einnig beinnar í einhverjum mæli og svarið var já. Það þyrfti að skoða þetta mál í heild sinni, bæði hvað snertir óbeina og beina eignaraðild, einkum þó hina óbeinu. Þegar þessi sjónarmið koma fram um sama leyti og þetta mál er tekið til umræðu og það frá aðilum sem njóta sérstaks trúnaðar stjórnarflokkanna, eru í forustu fyrir endurskoðun á lögum um málefni sjávarútvegsins af hálfu hæstv. ríkisstjórnar, þá finnst mér ómögulegt annað en gera þetta lítillega hér að umtalsefni.
    Ég gef mér að vísu að framlagning þessa frv. og flutningur þess hér vísi á að hæstv. ríkisstjórn hafi það ekki í hyggju að taka tillit til þessara sjónarmiða forustumanna tvíhöfða nefndarinnar og það er vel, en þau eru komin fram og gera það að verkum að eðlilegt er að um þetta sé rætt.
    Það ætti ekki að þurfa að taka það fram að sá sem hér talar er algerlega andvígur því að slakað verði á í þessum efnum og ég held að þá fyrst væru menn nú komnir út á hálan ís ef menn vildu ljá máls á slíku. Hitt er miklu meira áhyggjuefni og hefur reyndar verið til umræðu hvort þeir fjárfestingarfyrirvarar eða þessi fjárfestingarfyrirvari, sá eini í raun og veru sem eftir stendur í samningnum um Evrópskt efnahagssvæði af okkar hálfu, og ákvæði þessara laga sem eru í samræmi við hann eða öfugt öllu heldur að fjárfestingarfyrirvarinn um sjávarútveginn í samningnum um Evrópskt efnahagssvæði tekur mið af ákvæðum þessara laga, hvort hann haldi í reynd, hvort hann sé hægt að framkvæma þannig að það takist að verja fiskveiðar og frumvinnslu sjávarafurða á Íslandi fyrir áhrifum erlends fjármagns. Sjónarmið nefndarmannanna, forustumannanna í tvíhöfða nefndinni, benda til þess að þar sé hætta á ferðum því að þau endurspegla í rauninni ekkert annað en uppgjöf að sínu leyti gagnvart því að verja þennan fyrirvara. Að hinu leytinu geta menn svo haft það sjónarmið, þá skoðun, sem öðrum þræði virtist bryddað á í málflutningi forustumanna tvíhöfða nefndarinnar, að það eigi alls ekkert að vera með þessi takmörk. Spurningin sé sem sagt ekki tæknilegs eðlis hvort unnt sé í framkvæmdinni að tryggja þennan fyrirvara heldur pólitísks eðlis, þ.e. hvort það sé yfir höfuð rétt að viðhafa slíkar takmarkanir. Að sjálfsögðu snúa þá talsmenn þeirra sjónarmiða málunum þannig að spurningin snúist um það hvort eigi að meina íslenskum sjávarútvegi að hafa sama aðganginn að fjármagni eins og sagt er og öðrum atvinnugreinum. Þessu er þá snúið upp í það að vera einhver sérstök meinbægni í garð sjávarútvegsins að vilja verja hann fyrir erlendum áhrifum með þessum hætti.
    Ég held að hvort tveggja sé ástæðulaust. Ég held að það sé með öllu ástæðulaust að gefast upp við það að verja þennan fjárfestingarfyrirvara. Fyrir því eru ótal fordæmi að slíkt er tryggt í framkvæmd og að hinu leytinu held ég að það byggi á miklum misskilningi um það hvað okkur Íslendingum í efnahagslegu og mér liggur við að segja í stjórnmálalegu tilliti sé fyrir bestu að við þurfum að byggja á því í framtíðinni að okkar sjávarútvegur og undirstöðuatvinnugrein okkar verði að reiða sig í auknum mæli á erlent fjármagn til þess að geta fjármagnað sína starfsemi. Því erlenda fjármagni fylgja að sjálfsögðu aðrir hlutir, ítök þeirra sem fjármagnið leggja til og áhrif með ýmsum hætti á okkar atvinnurekstur.
    Ég vil aðeins spyrja hæstv. viðskrh. betur út í 2. mgr. 2. tölul. 2. gr. frv., þeirrar sem hann gerði reyndar að umtalsefni um úrskurðarvald viðskrh. til þess að skylda fyrirtæki sem að hluta eða að öllu leyti hafa verið keypt upp af erlendum aðilum og eiga í íslenskum sjávarútvegi, þeim sem hér um ræðir, þ.e. fiskveiðum eða frumvinnslu sjávarafurða, að úrskurða um með hvaða hætti þeir skulu losa sig við þá eignaraðild. Hér er væntanlega á ferðinni úrræði til þess að taka á þeim aðstæðum sem tímabundið geta komið upp í gegnum kaup á fyrirtækjum að erlendir aðilar verða með þeim hætti óbeinir eignaraðilar að íslenskum sjávarútvegsfyrirtækjum. Ég gef mér að um beina eignaraðild gæti ekki orðið um að ræða því slík viðskipti yrðu stöðvuð. Það þarf auðvitað að tryggja að til slíkrar beinnar eignaraðildar geti ekki komið fyrir slys eða misgáning, svo sem eins og með einhvers konar tilkynninga- eða upplýsingaskyldu um slíka hluti. Hitt er augljóst mál að óbein eignaraðild getur væntanlega fyrir sviptingar í viðskiptum með hlutabréf og fyrirtæki komið til og þá þurfa að vera fyrir hendi reglur, úrræði, varðandi slíkar aðstæður. Það hef ég áður gert að umtalsefni, m.a. á sl. vetri. Þegar talsmenn þeirra sjónarmiða að opna erlendu fjármagni leið inn í íslenskan sjávarútveg létu á sér kræla leyfði ég mér að halda því gagnstæða sjónarmiði fram að það væri ekki það sem við þyrftum á að halda heldur hitt að settar yrðu skýrar reglur um með hvaða hætti fyrirtækjum sem tímabundið lenda þannig í því að verða óbeinir eignaraðilar að íslenskum sjávarútvegsfyrirtækjum væri gert skylt að afsetja þá eign. Hér er væntanlega á ferðinni málsgrein sem á að beita í slíku skyni. Spurningin er sú hvort ekki þurfi að vinna þarna frekari vinnu, setja fyllri reglur um þetta og jafnvel binda í lög skýrari ákvæði um t.d. innan hvaða tímamarka eða eftir hvaða ákvæðum öðrum sé farið í svona tilvikum.
    Það er líka spurning í mínum huga hvort þau mörk eiga að einhverju leyti að taka mið af því hversu stór hin óbeina eignaraðild tímabundið getur orðið. Það er alls ekki óvenjulegt að það gildi sérstök aðlögunarákvæði í slíkum tilvikum. Hliðstæð dæmi má taka til að mynda þegar bankar eða fjárfestingarlánasjóðir vegna hagsmunagæslu sinnar neyðast til að yfirtaka atvinnurekstur sem annars er ekki á þeirra verksviði og jafnvel ekki lögum samkvæmt ætlast til að þeir standi í en þeir hafa heimildir til að gera tímabundið og innan vissra marka til þess að gæta sinna hagsmuna þegar svo stendur á. Þá eru jafnan um það reglur innan hvaða tímamarka menn skuli afsetja þá eign og með hvaða hætti. Ég held að hér þurfi að koma til skýrar reglur um hvernig með það er farið þegar fyrir einhverjar sérstakar aðstæður kemur tímabundið upp eignaraðild, óbein eignaraðild erlendra aðila sem stangast á við þessi ákvæði íslenskra laga.
    Ég sé það ekki sem nokkurt vandamál þó mönnum sé gert að afsetja slíka eign með tilteknum hætti. Ég á ekki von á öðru en um það gæti sömuleiðis tekist þokkalegt samkomulag um að útfæra slíkar reglur. Þá held ég að þeim úrtölumönnum væri svarað sem bera fyrir sig tæknileg rök í þessu sambandi að í hinu flókna og síbreytilega viðskiptaumhverfi nútímans þar sem fyrirtæki eiga endalaust hvert í öðru, kaupa upp framendann eða afturendann hvort af öðru sýknt og heilagt, sé ómögulegt að hafa svona reglur. Þá það. Það verður bara að hafa það þó því fylgi einhver takmörk á eignartilfærslum fyrirtækja þegar kemur að eignarhaldi í sjávarútvegsfyrirtækjum. Að hinu leytinu yrðu þessi fyrirtæki einfaldlega að sæta því að um slíka eignaraðild sem upp kæmi giltu ákveðnar afsetningarreglur.
    Um hin sjónarmiðin veit ég ekki hvort ég á að fara að ræða hér, þau sem ganga út á að það sé ósköp einfaldlega nauðsynlegt íslenskum sjávarútvegi að fá erlent fjármagn í sinn rekstur til þess að styrkja fjárhagsstöðu sína eða fjármagna fjárfestingar. Ég er því algjörlega andvígur. Ég held að ef svo sé komið að við Íslendingar höfum ekki lengur efni á því að fjármagna eignarhald og uppbyggingu í okkar undirstöðuatvinnuvegi sjálfir þá hljótum við að fara að setja fram miklu stærri spurningar um enn stærri mál, sjálfa tilvist efnahagslegs sjálfstæðis þjóðarinnar.
    Ég minni líka á, eins og stundum vill gleymast í þessum efnum, að erlent fjármagn kemur hvorki í íslenskan sjávarútveg né aðrar atvinnugreinar í gustukaskyni. Það ætlar sér að hafa eitthvað fyrir sinn snúð. Ástæðan fyrir því að erlendir aðilar, eins og komið hefur fram til að mynda í samningaviðræðunum um Evrópskt efnahagssvæði, hafa fyrst og fremst áhuga á íslenska sjávarútveginum er sú að þar sjá þeir fyrir sér hina eiginlegu stóriðju Íslendinga og þá grein sem er undirstaða verðmætasköpunar í þessu þjóðfélagi umfram allt annað. Af þeim ástæðum hafa þeir áhuga á að fjárfesta hér en ekki öðru. Ekki vegna þess að þeir ætli af einhverri sérstakri greiðasemi vegna þess að þeir séu í góðgerðarhugleiðingum að leggja fé í íslenskan sjávarútveg heldur vegna þess að þar sjá þeir mesta arðsvon. Er það þá ekki einmitt á því sviði sem við Íslendingar eigum umfram allt að reyna að gæta okkar hagsmuna sjálfir? Það held ég.
    Að öðru leyti ætla ég ekki að hafa um þetta frekari orð á þessu stigi. Það kemur þá sjálfsagt til skoðunar hv. nefndar og ég fagna því þrátt fyrir allt að hér standa þessi ákvæði óhögguð og það afgreiðir að mínu mati það raus sem komið hefur frá forustumönnum tvíhöfða nefndarinnar í þessu sambandi að ríkisstjórnin er á sama tíma með frv. þar sem ekkert tillit er tekið til þeirra sjónarmiða sem þar komu fram.
    Að öðru leyti vil ég nefna nokkuð þau ákvæði laganna um fjárfestingu erlendra aðila frá mars 1991 sem ætlunin er að fella á brott og hæstv. viðskrh. hljóp reyndar lítillega yfir í sínu máli. Þá vil ég í fyrsta lagi nefna 4. tölul. 4. gr. Hæstv. viðskrh. taldi með öllu ástæðulaust að halda inni því ákvæði sem sett var í lögin á sínum tíma, 1991, að erlendir aðilar í flugrekstri mættu ekki eiga meira en 49% af íslensku atvinnufyrirtæki sem stundaði flugrekstur á grundvelli íslenskra flugleyfa. Ég er hæstv. viðskrh. ekki sammála. Nú erum við að vísu ekki heldur sammála í sjálfu sér um stöðu Íslands gagnvart hinu Evrópska efnahagssvæði eða innri markaði Evrópubandalagsins en þar mun ekki vera samrýmanlegt ákvæðum Rómarsáttmálans að viðhalda slíkum eignartakmörkunum. Staðan er eftir sem áður sú í flugrekstri sem hin almenna regla í heiminum að flugreksturinn byggir á gagnkvæmnisréttindum samningsaðila þannig að menn gera samninga um gagnkvæm réttindi hvor á annars yfirráðasvæði. Síðan hefur verið mjög algengt að til varðveislu þeirra gagnkvæmnisréttinda heima fyrir hefðu menn takmarkanir sem tryggðu að forræði flugfélaga flyttist ekki úr landi í gegnum eignaraðild erlendra aðila. Auðvitað þarf ekki mörg orð um það hvers vegna menn hafa séð sínum hag best borgið með slíkum ákvæðum. Þannig hafa menn tryggt að þeir töpuðu ekki gagnkvæmnisréttinum að sínum hluta til í gegnum það að missa forræði á eða eignarhald á sínum flugrekstraraðilum úr landi. Enda væru loftferðasamningarnir, eins og þeir eru upp byggðir, nánast

marklausir ef um slíkt væri að ræða.
    Ég er að vísu þeirrar skoðunar að flugreksturinn og milliríkjasamgöngur séu að mörgu leyti svo alþjóðlegar í eðli sínu að þar þurfi að gilda um samræmdar reglur. Má segja að á fáum sviðum þjónustuviðskipta sé það jafnborðleggjandi og t.d. í flugrekstrinum þar sem menn þeytast ekki aðeins milli landa heldur heimsálfa á fáeinum klukkutímum. Þess vegna var ég því meðmæltur að við Íslendingar, ef ekki í gegnum einhverja heildarsamninga þá á sjálfstæðum grundvelli með tvíhliða samningum, tengdumst flugmálapökkum Evrópubandalagsins þannig að við gætum tekið fullan þátt í flugrekstrinum á jafnréttisgrundvelli við flugfélög þar. Með svipuðum hætti og þau Norðurlandanna sem eiga eignaraðild að SAS-flugfélaginu höfðu hugsað sér, óháð samningum um Evrópskt efnahagssvæði, að gerast aðilar að flugmálapökkum Evrópubandalagsins tel ég að við Íslendingar hefðum átt að gera það hvað sem líður EES því nú er óvissa uppi um það mál eins og allir þekkja.
    Ég hef hins vegar ekki skilið það svo að ákvæði innri markaðarins um eignaraðild fyrirtækja væru tengd frjálsræði í flugrekstrinum sjálfum. Ef það er rétt hefðum við getað haldið þessu tvennu aðskildu. Á slíkt hefði a.m.k. mátt reyna í tvíhliða samningum ef þeir hefðu komið til og skyldi það eiga eftir að vera endirinn á þessari lönguvitleysu Evrópusamninganna allrar saman er það tvímælalaust mín skoðun að við ættum að leita eftir slíkum tvíhliða samningi sem tryggði okkur fullan aðgang að flugmálapökkum Evrópu hvað flugréttindin og flugrekstrarumhverfið snertir en halda eignaraðildinni aðgreindri og með þá hluti yrði farið á sama hátt og um fjárfestingar erlendra aðila í öðrum atvinnurekstri.
    Þá er gert ráð fyrir því í frv. að 5. tölul. 4. gr. laganna falli brott, en þar er átt við það takmarkandi ákvæði sem er í gildandi lögum að erlendir aðilar megi eiga að hámarki 25% hlutafjár í íslenskum viðskiptabanka. Gert er ráð fyrir að þetta ákvæði falli niður frá og með 1. jan. 1996 og er það væntanlega með vísan til þess aðlögunartíma sem samkvæmt samningnum um Evrópska efnahagssvæðið er á nokkrum þáttum aðlögunar okkar að frelsi á sviði fjármagnsflutninga og fjárfestinga.
    Ég held að hér sé á ferðinni afar varhugavert ákvæði sem menn þurfi virkilega að hugsa sig vel um gagnvart og eitt af stóru atriðunum sem snúa að stöðu okkar fjármálalega sjálfstæðis. Það hlýtur að liggja í hlutarins eðli að sjálfstætt starfandi bankakerfi er stór hluti af því að vera fjármálalega sjálfstæð þjóð og hlýtur að vera stutt í það fyrir þá þjóð sem tapar að öllu leyti forræði í sínum bankamálum að hún leggi niður sinn gjaldmiðil og hættir að skrá sig í þeim skilningi sem fjármálalega sjálfstæða einingu.
    Nú skiptir líka máli í þessu sambandi hvernig umhverfið er í bankamálum hjá viðkomandi aðila. Þá kemur maður að þeim áformum hæstv. ríkisstjórnar að einkavæða ríkisbankana. Menn eru væntanlega nokkuð sammála um að ríkisbankarnir með þá markaðsaðstöðu og viðskiptavild sem þeir hér hafa og verandi áfram í eigu ríkisins ættu a.m.k. um fyrirsjáanlega framtíð að hafa það sterka stöðu, ef ekki verða einhver slys í þeirra afkomu, að ekki væri mikil ástæða til að óttast að í gegnum þá ættu Íslendingar ekki sjálfir ekki sterk tök a.m.k. í bankaheiminum þó svo að þessi fjárfestingartakmörk yrðu felld niður. En þar getur skipt snöggt um ef búið væri að hrinda í framkvæmd þeim áformum hæstv. ríkisstjórnar að einkavæða annan eða jafnvel báða ríkisbankana, gera þá fyrst að hlutafélagsbönkum og selja síðan hlutafé í öðrum þeirra eða jafnvel báðum á skömmum tíma.
    Það er óhjákvæmilegt að spyrja hæstv. ríkisstjórn í tengslum við afgreiðslu þessa máls: Hvar eru þau áform á vegi stödd? Er það virkilega svo t.d. að enn standi til að einkavæða og selja Búnaðarbankann, jafnvel að verulegu leyti á þessu ári? Dettur mönnum virkilega í hug enn þá að gera alvöru úr því? En svo hefur verið látið í veðri vaka af og til. Það er að vísu dálítið mismunandi eftir því hvaða talsmaður hæstv. ríkisstjórnar á í hlut hverju sinni og eftir því hvar hann er að halda ræðurnar. Ef það er í fínustu klúbbum íhaldsins er þetta yfirleitt eitthvað sem á að gera, ef ekki í gærdag þá a.m.k. á morgun. En sums staðar annars staðar og hjá einstökum öðrum ræðumönnum, t.d. þegar þeir eru komnir eitthvað út á land eða eru að tala í sjávarútvegsbyggðum eða annars staðar þar sem menn hafa nokkuð aðra sýn til hlutanna, er jafnvel látið í veðri vaka að þetta séu einhver áform og orð á blaði sem ekki standi til að gera mikið með. Það er afar bagalegt að hafa þetta svona og ræða um þetta við afgreiðslu fjárlaga ár eftir ár ef svo ekkert verður úr þessu, sem við skulum vona. Það er bara til þess að spilla fyrir og skapa óróleika sem er með öllu ástæðulaus í þessum efnum.
    Ég vil leyfa mér þess vegna að spyrja hæstv. viðskrh.: Getur hann eitthvað upplýst okkur um það hvar þessi áform eru nú á vegi stödd? Hefur t.d. ríkisstjórnin farið yfir þetta á nýjan leik í ljósi núverandi aðstæðna í íslenskum efnahags- og atvinnumálum, hvort það sé einmitt þetta sem skynsamlegt sé að stefna að eða vera með í undirbúningi að binda upp fé á íslenskum fjármagnsmarkaði svo milljörðum skiptir í það að kaupa hlut ríkisins í Búnaðarbankanum? Er það skynsamleg binding á lausu fjármagni ef eitthvert er til í landinu? Er það góð fjárfestingarpólitík hjá ríkinu að selja þessa ágætu mjólkurkú sem Búnaðarbankinn hefur verið undanfarin ár, nokkuð vel rekið fyrirtæki sem hefur verið að mynda myndarlegan eiginfjárreikning og auka eign ríkisins þar með talsvert á undanförnum árum? Síðast en ekki síst spyr ég: Er það mjög gáfulegt þegar við erum að taka þessi fyrstu ráðleysislegu skref, ef svo má að orði komast, út í opnara fjármagnsumhverfi að missa þá úr höndum okkar þá kjölfestu sem vissulega felst í eignarhaldi ríkisins á þessum bönkum?
    Það í sjálfu sér ekki rekstrarformið sem mönnum er fastast í hendi í þessum efnum og má færa ýmis rök fyrir því að það geti verið skynsamlegt í sjálfu sér að gera ríkisbankana að hlutafélögum sem væru

síðan alfarið í eigu ríkisins. Ég sé ekki að vísu að það breyti eiginlega nokkrum sköpuðum hlut. Ég held að þeir Stefán Pálsson og Sverrir Hermannsson verði ekkert öðruvísi bankastjórar þó þeir séu orðnir bankastjórar í hlutafélagi en í ríkisbanka, svo nefndir séu nokkrir ágætir menn í þessu sambandi. Ég er ekki viss um að það hafi nokkur einustu áhrif í sjálfu sér á það hversu vel eða illa eftir atvikum menn standa að rekstri í þessum fyrirtækjum. Ég held að allt slíkt sé meira og minna kjaftæði þegar menn eru að halda þessar heilögu ræður um að hlutafélög séu endilega alltaf betur rekin en bein ríkisfyrirtæki o.s.frv. Ég hef ekki komið auga á það. Ég veit ekki betur en ríkið eigi hlut í hlutafélögum sem eru í bullandi tapi og vandræðum á sama tíma og önnur hrein og bein og venjuleg gamaldags ríkisfyrirtæki eru ágætlega rekin. Það er því allur gangur á þessu.
    Hitt er alveg ljóst að menn eru tortryggnir út í slík áform vegna þessarar umræðu um einkavæðingu á bönkunum og þá ekki síður þegar kemur að því að fella niður úr lögum allar takmarkanir sem hafa verið á eignarhaldi útlendinga í bankakerfinu. Menn verða að hafa í huga hversu agnarsmáar einingar þetta eru þegar komið er út í hinn stóra heim. Það sem okkur finnast óhemjulegar upphæðir, eiginfé í ríkisbönkunum upp á einhverja milljarða króna, er hrein skiptimynt í þeim ,,transaksjónum`` þegar stórfyrirtækin eru að kaupa og selja fyrirtæki. Það er hrein skiptimynt. Þetta er eins og hvert annað útibú í hugum stórra banka eða stórra samsteypna þegar þær væru að skoða viðskipti af þessu tagi og það er aldrei að vita hvenær einhverjum dytti í hug að það væri gaman að kaupa Ísland.
    Sú saga hefur gengið að japönskum aðila hafi einu sinni dottið í hug að reyna að kaupa Færeyjar og jafnvel gert þarlendum tilboð í fyrirtækið Færeyjar og þóttu ekki standa mikið í honum þær tölur sem þar voru nefndar. Jafnvel fyrirtæki eins og Landsvirkjun, sem skuldar eina 40--50 milljarða, sem þykir býsna myndarlegt á Íslandi, að skulda 40--50 milljarða, það hlýtur að vera nokkuð merkilegt fyrirtæki sem skuldar svo mikið í útlöndum. Það eru hreinir smáaurar þegar við berum það saman við veltuna og stærðir sem viðgangast í viðskiptalífinu meðal milljónaþjóðanna í kringum okkur.
    Þess vegna held ég að það sé í raun og veru afar óvarlegt að menn skyldu ekki reyna að ná því fram að við Íslendingar mættum halda þarna áfram takmörkunum. Ég held að þegar skoðaður er t.d. sá fyrirvari sem forsrh. setti í málflutningi sínum í Ósló varðandi einmitt fjármagnsflutninga hafi svona hlutir ekki síst verið þar hafðir í huga. Það vekur líka athygli manns að samningamenn Íslands virðast ekki einu sinni hafa séð ástæðu til þess að fara fram á aðlögunartíma sem væri í lengri kantinum. Staðreyndin er t.d. sú að Svisslendingar, sem að vísu hafa sett hala á bak sér og eru hættir við að taka þátt í þessu EES-samstarfi, ætluðu sér að hafa á fyrirvara allt til aldamóta um ýmis atriði. Jafnvel ekki í þessu tilviki þótti samningamönnum Íslands ástæða til að fara fram á slíkan aðlögunartíma. Mér finnst því að mörgu leyti að Íslendingar séu að taka spor út í óvissuna á ansi mörgum vígstöðvum samtímis eins og þetta ber að manni.
    Við vorum að ræða hér áðan frv. um verðbréfaviðskipti, Verðbréfaþing og það dót allt saman. Þar er alveg ljóst að við erum að mörgu leyti að slíta barnsskónum og þau viðskipti eru rétt að komast á blað. Samtímis því að það er að gerast er verið að opna fyrir fjármagnshreyfingar inn og út úr landinu þannig að menn geta nú flutt fé úr landi og fjárfesta erlendis nánast að vild sinni. Meira að segja Seðlabankinn missir vald sitt innan skamms ef marka má orð hæstv. viðskrh. hér áðan og getur ekki eftir 1. mars, ef ég hef tekið rétt eftir, bannað Lífeyrissjóði bænda að fjárfesta í New York eða hvenær það nú var.
    Svo komum við að atriðum eins og þessum þannig að allt ber að sama brunni. Í raun og veru er öllu sleppt lausu nánast samtímis hvað varðar tök okkar Íslendinga í þessum efnum. Það held ég að sé óvarlegt alveg burt séð frá því hvort menn hafa þá skoðun að þetta séu allt saman breytingar sem horfi til heilla eða ekki. Um það geta sjálfsagt verið skiptar skoðanir og mat manna mismunandi á því hvort þetta séu allt framfaraspor eða ekki. Það er eitt að hafa á því skoðun. Hitt er svo það með hvaða hætti svona breytingar eiga sér stað, á hvaða tíma og hvernig að þeim er staðið.
    Ég er líka þeirrar skoðunar að að þeim fjárfestingarþökum sem gildandi lög kveða á um og eru til að mynda útfærð í 7. tölul. 4. gr. laganna sé mikil eftirsjá. Nú geta menn sagt, eins og hæstv. viðskrh. eða hvort það var hv. 7. þm. Reykn., að fjárfestingar erlendra aðila hér hafi verið svo litlar og svo langt undir þessum mörkum að þetta skipti ekki miklu máli. Það er ekki aðalatriðið í mínum huga heldur sú staðreynd að menn settu þetta vísvitandi í lögin og þar með lágu fyrir ákvæði sem takmörkuðu umsvif erlendra aðila. Gleymum svo ekki þeirri staðreynd að fyrir tilkomu EES-samninga eða áður en af þeim þá verður, þá gátum við hvenær sem er á grundvelli fullkomins sjálfstæðis okkar í þeim efnum sett viðbótarákvæði, gripið inn í með sérstakri lagasetningu ef okkur þótti ástæða til en sá réttur verður af okkur tekinn með samningum um Evrópskt efnahagssvæði ef af þeim verður.
    Þess vegna er ekki bara það að gerast að þessar takmarkanir, sem settar voru eða voru fyrir í lögum 1991, hverfi heldur líka rétturinn til þess að grípa í taumana ef eitthvað fer úrskeiðis. Í því ljósi verðum við að skoða þessi ákvæði. Ég held að það hafi að mörgu leyti verið skynsamleg hugsun að viðhalda svona þökum. Bæði hefur það táknrænt gildi. Það sýnir að menn hafa þá stefnu, hún er bundin í lög, að missa ekki um of forræði eða eignarhald í einstökum greinum viðskipta úr landinu og hafa einhverja hemla á því hversu ört innstreymi á erlendu fjármagni getur orðið í einstakar greinar. Til viðbótar auðvitað þeim sjálfstæða rétti að grípa inn í með lagasetningu ef ástæða þykir til hvenær sem er.
    Mér finnast það ekki nein rök að vísa í þessu sambandi til almennra öryggisákvæða, eins og hæstv. viðskrh. gerði, að þau hafi að einhverju leyti komið í stað fyrirvara sem samið hefði verið um og hefðu

snúið beint að því að varðveita takmarkanir af þessu tagi og/eða réttinn til þess að grípa til takmarkana. Það er alveg fráleitt að bera til að mynda saman og nefna í sömu andrá öryggisákvæði í 111.--114. gr. samningsins um Evrópskt efnahagssvæði, ef ég man rétt, og þær takmarkanir sem hér hafa verið bundnar í lögum og/eða beina fyrirvara sem við Íslendingar hefðum samið um, sbr. Óslóaryfirlýsingu fyrrv. forsrh.
    Ég verð þess vegna, hæstv. forseti, að boða að ég vil hafa fullan fyrirvara á um þessar breytingar sem ég hef nefnt á þessum frumvörpum. Ég tel að efh.- og viðskn. hljóti að fara mjög vandlega ofan í saumana á því hvort þetta séu skynsamlegar ráðstafanir í sjálfu sér. Það er ekki síður ástæða til að gera það nú vegna þess að fyrir liggur sú óvissa um samninginn um Evrópskt efnahagssvæði sem hefur verið að skýrast og koma betur í ljós síðustu dagana. Því á ekki að ganga út frá því að nauðsynlegt sé að fella niður allar þær takmarkanir sem ekki eru samrýmanlegar núverandi samningsdrögum eða tætlum, allt eftir því hvað menn vilja nú kalla það. Hv. 4. þm. Reykv. hefur gefið þessu ýmis nöfn á undanförnum mánuðum og oft reynst sannspár í þeim efnum að það sem menn hafa kallað samning og talað um eins og endanlega niðurstöðu hefur ekki alltaf reynst mjög haldgott. Ef til þess kæmi að þessi mál yrðu tekin upp og samið um þau á nýjan leik, ég tala nú ekki um ef málin enduðu í þeim farvegi að Íslendingar hæfu samningaviðræður við Evrópubandalagið um tvíhliða samning sem kæmi í stað þess hugsaða Evrópska efnahagssvæðis, sem aldrei yrði að veruleika, þá tel ég að við eigum alveg tvímælalaust að fara á nýjan leik yfir ákvæði af þessu tagi og skoða það sjálfstætt í hverju og einu tilviki hvaða ákvæði af þeim sem er lagt til að fella niður úr okkar lögum ætti að reyna að halda inni með sjálfstæðum samningum þar um. Ég hef í sjálfu sér ekki ástæðu til að ætla annað en skilningur gæti ríkt á því hjá viðsemjendum okkar að það getur kostað sérstaka árvekni að viðhalda og varðveita efnahagslegt sjálfstæði þjóðar sem ekki telur nema 260 þús. manns og býr við jafneinangrað og einhæft efnahagslíf og við Íslendingar gerum. Menn mega ekki tala út frá öðrum staðreyndum en þeim sem fyrir liggja í sambandi við okkar aðstæður og þá er ég ekki hræddur um að það sé svo erfitt að skapa skilning á þeim.
    Hæstv. forseti. Ég held að það séu ekki fleiri ákvæði þessara laga sem ég sé ástæðu til að gera að umtalsefni við 1. umr. málsins, enda á ég þess kost ef að líkum lætur að fara yfir þau atriði í þeirri hv. þingnefnd sem fær þetta mál til umfjöllunar og skoða þau þar betur. Ég vil ítreka þann fyrirvara sem ég hef á um ýmis ákvæði þessa frv. Ég tel miður ef til þess kemur nú eftir ekki lengri tíma en lögin um fjárfestingar erlendra aðila hafa gilt að ágreiningur rís um meðferð þeirra því að þrátt fyrir allt var það nokkuð merkilegur atburður á sínum tíma þegar menn náðu saman um löggjöf af því tagi sem sett var í mars 1991.