Fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri

114. fundur
Þriðjudaginn 23. febrúar 1993, kl. 16:01:25 (5368)

     Páll Pétursson :
    Herra forseti. Ég tel að hér sé um vandasamt og vandmeðfarið stórmál að ræða. Það er nú kynnt sem afleiðing af gerð samnings um Evrópskt efnahagssvæði. Nú er samningurinn um Evrópskt efnahagssvæði þrátt fyrir allt sem á undan er gengið í mikilli óvissu og enginn okkar þess umkominn í dag að fullyrða að hann verði að veruleika.
    Við búum við nýleg lög, þau eru nr. 34 frá 25. mars 1991, um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri. Ég lít svo á að sú lagasetning hafi verið merkilegt skref. Lögin voru sett af brýnni þörf. Hér var ýmislegt í ólagi varðandi fjárfestingu erlendra aðila og lögin voru sett að bestu manna yfirsýn. Þau miðuðu til talsvert mikillar rýmkunar á þeim reglum sem í gildi höfðu verið og um þau náðist góð eining á Alþingi. Ég tel að eins og málum er háttað meðan a.m.k. samningur um Evrópskt efnahagssvæði er ekki nær því að verða fullburða en fyrirsjáanlegt er í náinni framtíð, þá liggi okkur ekki á að breyta þessum lögum. Ég teldi heppilegast að þegar þessari umræðu lýkur og málið gengur til efh.- og viðskn. fengi málið frið til þess að liggja þar, a.m.k. þangað til ljóst er að hvort samningurinn um Evrópskt efnahagssvæði tekur gildi.
    Að vísu eru ákvæði í frv. um að það öðlist ekki gildi fyrr en samningurinn um Evrópskt efnahagssvæði öðlast gildi en það er hortittur í íslenskri lagasetningu að vera að berja lögin í gegnum Alþingi eins og á stendur og alla vega engin nauðsyn á að hraða meðferð þessa máls.
    Raunar má segja að þetta frv. sé í góðu samræmi við fyrri gerðir núv. hæstv. ríkisstjórnar. Alþjóðahyggja hennar hefur borið á góma áður í þessum umræðum. Ég vil fremur kalla þetta Evrópuhyggju því að hæstv. ríkisstjórn virðist einbeitt í að hengja sig aftan í Evrópubandalagið, hvar sem hún nær taki á því og eins og hún líti svo á að Þjóðverjar hafi loksins komið á hinu langþráða 1000 ára ríki á meginlandi Evrópu. Þar muni verða sælan í framtíðinni. Ég er ekki sannfærður um það og tel að við Íslendingar eigum ekki síður að horfa til annarra stórvelda en Evrópubandalagsins. Við getum átt hagkvæm viðskipti við Norður-Ameríku og Austur-Asíu svo ég nefni einhver dæmi. Okkur stafar því talsverð hætta af þessari glórulausu Evrópuhyggju hæstv. ríkisstjórnar.
    Mér finnst það fullkomin ástæða fyrir okkur þegar við erum að ræða þetta tiltekna þingmál um fjárfestingu erlendra aðila í íslenskum atvinnurekstri að reyna að hugleiða framtíðina. Hvert viljum við stefna með þetta þjóðfélag? Var kannski sjálfstæðisbarátta okkar á sínum tíma tómur misskilningur? Stjórnarfarslegt fullveldi var einn þáttur þessarar sjálfstæðisbaráttu. Það að ná eignarráðum á landinu og auðlindum þess og fiskveiðilögsögunni, hafinu kringum landið, var líka gildur þáttur í sjálfstæðisbaráttunni. Að færa verslunina inn í landið og tryggja Íslendingum bærilegt atvinnustig var líka þáttur í sjálfstæðisbaráttunni. Íslendingar hafa með þrotlausu starfi fjöldamargra af sínum bestu sonum og dætrum öðlast frumburðarrétt til landsins. Íslendingar eru búnir að vera hér æðilengi, sú þjóð sem hér lifir og talar þetta skrýtna tungumál og heldur uppi menningu og ég hygg að heimurinn væri fátækari ef hún legðist af.
    Nú eigum við Íslendingar ekki önnur lönd og við höfum ekkert annað til að afhenda afkomendum okkar en þetta land sem við eigum. Ef við, eins og mér virðist hæstv. ríkisstjórn vera að gera, afsölum okkur stjórnarfarslegu og efnahagslegu fullveldi okkar, þá gerum við það ekki bara fyrir hönd okkar sem sitjum á þinginu eða í ríkisstjórninni þennan vetrarpart. Við gerum það fyrir hönd þjóðarinnar allrar, fyrir hönd barna okkar, barnabarna og afkomenda um ókomin ár.
    Nú kann það að vera að í viðkvæmum hlustum hæstv. ráðherra og e.t.v. ýmissa fleiri hljómi svona ræðupartur eins og gamaldagsraus. Það verður bara að hafa það. Hæstv. viðskrh. er kominn það til aldurs eins og reyndar sá sem hér stendur að við erum báðir fæddir í konungsríkinu Íslandi og vorum komnir ofurlítið á legg þegar hér var stofnað lýðveldi.
    Nú vil ég láta það koma alveg skýrt fram að ég er enginn einangrunarsinni og er fremur jákvæður gagnvart hóflegri erlendri fjárfestingu á Íslandi, vel að merkja ef við Íslendingar höfum vald á þeirri fjárfestingu og getum látið hana styrkja íslenskt atvinnulíf og mala Íslandi gull. En ef erlend fjárfesting tekur stjórnina úr höndum okkar þá er ég á móti henni. Ég tel að við eigum að keppa að því að afsala okkur ekki framtíðinni sem húsbændur í eigin landi. Það var svo með Esaú greyið að hann hefur sjálfsagt verið svangur þegar hann seldi sinn frumburðarrétt fyrir baunadisk. Það er kannski viðeigandi af því að í dag er sprengidagurinn að tala um þennan sérstaka rétt og ég efast ekki um að við alþingismenn fáum allir okkar baunadiska í dag. En ríkisstjórnin er ekki svöng. Hún fær engan baunadisk fyrir frumburðarréttinn. Hún er að afsala frumburðarrétti okkar og það fyrir ekki neitt. Það er út af fyrir sig fallegt að vinna fórnarstörf og gera góðverk og lítilmannlegt að vera með reikningsskaparkærleika þegar menn ætla að vera stórir í sér en ég tel að ríkisstjórn Íslands gangi of langt þessa dagana.
    Lög nr. 34 frá 25. mars 1991 gefa okkur nægilegt svigrúm til þess að laða hingað erlenda fjárfestingu í þeim mæli sem okkur hentar. Okkur rekur engin nauður til að breyta þessum lögum og allra síst ef Evrópskt efnahagssvæði verður ekki að veruleika.
    Mig langar, frú forseti, að drepa ofurlítið nánar á örfáar greinar í þessu frv.
    Samkvæmt frv. fáum við að halda gildandi lögum og reyndar eftir samningnum um Evrópskt efnahagssvæði höfum við heimild til þess í samningnum að halda gildandi lögum um eignarhald í útgerð og frumfiskvinnslu. Þetta er eini fyrirvarinn af þeim sem settir voru fram í Ósló í mars 1989 sem entist út alla samningstíðina. Þetta er sá eini fyrirvari. Það skiptir engu máli þó að hæstv. utanrrh. segi að þeir séu allir inni. Þeir eru það ekki. Það er rangt hjá ráðherranum. En þessi fyrirvari er inni þó og það er vel og ber að þakka þeim sem að samningagerðinni komu að hann skuli vera inni.
    En Adam var ekki lengi í Paradís. Það eru komnir menn og byrjaðir að draga lokur frá hurðum. Tvíhöfða nefndin er að vísu ekki búin að skila áliti, eða a.m.k. hef ég ekki séð það álit, en nefndarmenn hafa verið óbágir að greina frá viturlegum tillögum sínum, eða tillögum sem þeim sjálfsagt finnast viturlegar, í fjölmiðlum undanfarna daga. Ein er sú að brjóta niður meira að segja þennan fyrirvara. Því miður virðist þessi skoðun eiga líka hljómgrunn alla leið í ríkisstjórnina því hæstv. fjmrh. hefur hvað eftir annað í vetur látið sér um munn fara ákaflega glannaleg ummæli um þetta atriði.
    Nú viðgengst nokkur óbein eignaraðild í útgerð og fiskvinnslu. Í þessu frv. er lögð í hendur viðskrh. heimild til að láta hana viðgangast. Ég tel að hjá þeim hv. formönnum tvíhöfða nefndarinnar sem hafa verið að tjá sig, sé háskalegur hugsunarháttur og þeir geti, ef þeirra sjónarmið verða ofan á, beinlínis brotið fjöregg íslensku þjóðarinnar.
    Samkvæmt frv. á frumvinnsla íslensks sjávarafla að vera í höndum Íslendinga en það er eins með óbeinu eignaraðildina og útgerðina að málið er í höndum viðskrh. Nú veit ég ekki hvort manni leyfist að vitna í sálma því það fór illa fyrir leikaranum góðkunna, Flosa Ólafssyni, þegar hann fór að vitna í Hallgrím Pétursson. En það er svo með viðskrh. í þessu tilfelli eins og segir í sálminum:
        Í almáttugri hendi hans
        er hagur þessa kalda lands.
    Viðskrh. hefur í þessu frv. býsna rúmar heimildir. Nú viðurkenni ég að þessi óbeina eignaraðild er mikið vandamál. Það er ekki einfalt að taka á því máli, það er alveg einfalt að losa hana, og það er ekki einfalt heldur að finna hana í öllum tilfellum. Það eru uppi getgátur um það, sem hafa verið settar fram í fjölmiðlum ítrekað í vetur, að í útgerð og fiskvinnslu séu erlendir peningar, erlend eignaraðild. Það hefur ekki verið borið til baka með sannfærandi hætti.
    Ein meginorsök þess atvinnuleysis sem núna er á Íslandi er sú að við vinnum ekki allan þorskinn og alla ýsuna sjálfir. Verkalýðshreyfingin hefur látið reikna það út að ef hætt væri að sigla með þorsk og ýsu í gámum til Evrópubandalagsins væri hægt að veita atvinnu --- ég man ekki hvað afskaplega mörgum Íslendingum en þetta væri atvinnuaukningarátak sem skipti verulega máli. Það hefur að vísu dregið úr þessum siglingum á síðasta ári og það er ákaflega vel. En hvers vegna halda menn þessu áfram? Hvers vegna halda menn áfram að sigla? Nú er fiskverð hátt á Íslandi og þyrfti að vera a.m.k. 20% hærra í útlöndum ef það ætti að borga sig að sigla að mati þeirra sem kunnugastir eru. Samt er enn þá fiskur fluttur óunninn út. Ég er ekki að tala um karfa sem er hagkvæmara að flytja út lítt eða ekki unninn.
    Blaðamenn halda því fram, án þess að það sé borið til baka með sannfærandi hætti, að erlend fyrirtæki eigi í íslenskum útgerðarfyrirtækjum sem séu skuldbundin að afhenda fiskinn. Seinast í morgun var viðtal við fiskkaupmann --- ég man ekki hvort hann var í Grimsby, líklega var hann í Hull --- í Ríkisútvarpinu. Hann var inntur eftir þessu og hvers vegna tékkinn væri kominn til Íslands um leið og vigtað væri upp úr skipinu. Hans svör voru fremur loðin. Ég tel þversögn í því að barma sér yfir atvinnuleysi í ákveðnum landshlutum meðan svona ástand er látið viðgangast, meðan menn hafa ekki drift í sér eða manndóm til þess að láta vinna fiskinn hér á landi.
    Mig langar að fara örfáum orðum um virkjunarréttinn en samkvæmt þessu frv. verður einkaréttur Íslendinga á virkjunarrétti fallvatna og jarðhita afnuminn 1. jan. 1996. Nú kann einhverjum að finnast mjög langur tími til 1. jan. 1996, en það er aldeilis ekki. ,,100 ár á hestbaki eru skjótt riðin hjá``, segir í merkilegu kvæði. Það er ekki mjög langt þangað til 1. jan. 1996 rennur upp. Þá eiga íbúar Evrópska efnahagssvæðisins jafnan rétt á við okkur til þess að eiga vatnsorku og jarðhita.
    Nú hefur ríkið enn þá vald á virkjunarréttinum og mig langar til að spyrja hæstv. viðskrh., sem reyndar er einnig líka iðnrh., hvað gildi með kalt neysluvatn. Ég tel að þar sé um auðlind að ræða sem við eigum að umgangast með fyrirhyggju og gát og vil beina huga hans að því atriði líka.
    Uppi eru stórfelld plön í herbúðum ríkisstjórnarinnar og í grúppunni í kringum ríkisstjórnina um að einkavæða orkufyrirtæki. Þá er engin trygging til fyrir því að við höldum þessum auðæfum í höndum okkar Íslendinga.
    Reyndar er eitt atriði óháð Evrópska efnahagssvæðinu sem gerir það óhjákvæmilegt fyrir okkur að ræða og hugleiða þetta með virkjunarréttinn. Það eru þær hugmyndir sem uppi eru um lagningu sæstrengs sem flytti orku frá Íslandi til Bretlands eða meginlandsins. Ýmsir hafa verið ákaflega spenntir að fylgjast með og þróa það mál. Það er sennilega tæknilega kleift a.m.k. innan örfárra ára að leggja þennan sæstreng og flytja eftir honum rafmagn þó að um lengri veg sé að ræða en áður hefur verið gert í veröldinni. Vafalítið er markaður fyrir orku á meginlandinu eða Bretlandseyjum, sé hún nógu ódýr, en eigi að reisa virkjanir á Íslandi til að framleiða þessa orku á næstu árum er það alveg tvímælalaust of stór biti fyrir Íslendinga. Landsvirkjun ræður ekki nokkurn skapaðan hlut við að reisa þær virkjanir sem þarf til þess að afhenda það rafmagn sem þyrfti til þess að einhver glóra væri í því að leggja sæstrenginn og skuldastaða þjóðarinnar mundi hallast ansi mikið ef Landsvirkjun réðist í það að standa fyrir svona framkvæmdum. Þá er sá kostur eftir að afhenda einhverju félagi, sem kynni að verða myndað og væntanlega að mestu leyti í erlendri eigu, réttinn til virkjunar á vatnsföllum, t.d. á Austurlandi.
    Þetta eru pólitískar spurningar sem við þurfum að svara og gera upp við okkur á næstu mánuðum. Það eru næstu skref í þessu sæstrengsmáli að svara þessum spurningum. Læt ég útrætt um það atriði. Ég vil þó láta það koma fram að í mínum huga eru miklar efasemdir um að það sé réttlætanlegt fyrir okkur --- og hef ég þó alla tíð verið jákvæður í þeirri vinnu sem ég hef lagt fram í kringum þetta sæstrengsmál og fundist það athyglisvert --- að hleypa útlendingum með þeim hætti sem nauðsynlegt er í virkjunarréttinn á fallvötnunum.
    Það er rétt að geta þess að ef plönin gengju upp um sæstrenginn og virkjað væri á Austurlandi vegna hans og síðan reistar virkjanir í Þjórsá til þess að fullnægja orkuþörf álvers á sama tíma, þá værum við búnir með 60% af virkjanlegri nýtanlegri vatnsorku á Íslandi. Það er líka spurning í mínum huga hvort það er skynsamlegt að flýta sér svo að t.d. værum við árið 2020 búnir að virkja 60% af nýtanlegri vatnsorku.
    Mig langar til að minnast aðeins á bankana. Frá og með hinum mikla dómsdegi 1. jan. 1996 mega erlendir aðilar ekki bara eiga 25% í íslenskum bönkum eins og þeir mega í dag heldur mega þeir eiga þá alla.
    Nú tel ég að margt geti verið jákvætt við að erlendar peningastofnanir taki sér bólfestu og hafi hér starfsemi en það er ekki einhlítt ágæti. Ég vek athygli á því sem mér finnst nokkur galli að íslenskt bankaeftirlit hefur enga möguleika og má ekki skipta sér neitt af rekstri hinna erlendu peningastofnana hér á landi. Þær eiga að lúta eftirliti, ef eitthvert er, frá sínu heimalandi og sínum höfðuðstöðvum. Þetta þykir mér mikill galli. Hér er opnuð leið fyrir það að stjórnir innlendra fyrirtækja sitji úti í Evrópu og þurfi ekki að vera að ómaka sig hingað eða þeirra umboðsmenn til þess að stjórna fyrirtækjum á Íslandi.
    Ég ætla ekki að orðlengja þeirra meira, frú forseti. Ég tel þetta vandasamt mál og nokkuð flókið. Það er afleiðing af samningi um Evrópskt efnahagssvæði. Ég vil þó vonast eftir að hv. efh.- og viðskn. kanni ítarlega hvort ekki er hægt að komast af með að opna eitthvað minna en hér er lagt til því að hér er allt galopnað fyrir íbúa Evrópsks efnahagssvæðis. Ég spyr sjálfan mig: Ef á annað borð er tekin sú stefna að galopna hvers vegna að vera að binda það bara við íbúa Evrópsks efnahagssvæðis? Því þá ekki að opna fyrir öllum? Mér finnst að það sé verulegt umhugsunaratriði.
    Frú forseti. Í þeirri mynd sem þetta frv. er þá er ég andvígur því.