Fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri

114. fundur
Þriðjudaginn 23. febrúar 1993, kl. 17:03:19 (5371)

     Gunnlaugur Stefánsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Í tilefni af umræðum hæstv. viðskrh. um hugsanlegar breytingar á rekstrarformi ríkisbankanna, þá er auðvitað sjálfsagt að taka undir að það sé réttmætt og verðugt á hverjum tíma að rekstrarform alls bankakerfisins sé í sístæðri athugun. Þetta er sístætt viðfangsefni stjórnvalda á hverjum tíma, að skoða það hvort rétt sé að breyta og finna nýjar leiðir til þess að bæta rekstur bankanna. En ég vil skora á hæstv. ráðherra eigi að síður um leið og hann athugar aðra möguleika að horfa ekki fram hjá því hvort það rekstrarform sem ríkisbankarnir hafa búið við í alllanga tíð hafi ekki gefist mjög vel og hvort reynslan af því sé ekki jafnvel betri en reynslan af öðrum rekstrarformum sem blasa við okkur hér á landi. Hæstv. ráðherra ætti líka að horfa út fyrir landsteinana til nágrannalandanna, t.d. á Norðurlöndum, og læra kannski af þeirri reynslu sem t.d. Finnar eru núna að upplifa í sambandi við banka þar í landi og í Noregi þar sem bankar hafa farið illa vegna þess að þeir hafa búið við ótryggt rekstrarform. Hlutafélagaformið getur nefnilega verið ótryggt á köflum og spurningin er sú hvort það sé rétt að hætta svo miklum hagsmunum fámennrar þjóðar þegar sjálft bankakerfi þjóðarinnar er í húfi.