Fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri

114. fundur
Þriðjudaginn 23. febrúar 1993, kl. 17:05:21 (5372)

     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Það er rétt hjá hv. 5. þm. Austurl. að það er ábyrgðarhluti að hætta svo miklu fé af hálfu fámennrar þjóðar í bönkum eins og við höfum gert án nokkurrar takmörkunar. Það er einmitt það viðfangsefni sem við þurfum að hugleiða vandlega og láta kanna. Það er nákvæmlega það sem vakir fyrir ríkisstjórninni í þeirri endurskoðun á rekstrarformi bankanna sem nú fer fram. Ég vil leyfa mér að benda

á að það er ekki neitt samhengi á milli rekstrarforms bankanna á Norðurlöndum og þeim löndum öðrum sem lent hafa í mikilli bankakreppu og bankakreppunnar sjálfrar. Það má kannski segja að hún komi fyrr í ljós vegna þess að um takmarkaða ábyrgð er að ræða í þessum rekstri. Í því liggur einmitt kjarni málsins að slíkt má ekki leynast lengi því að þá verður það einmitt fámennri þjóð býsna skætt. Ég tek eftir því, ef við lítum til reynslu nálægra landa, að ekkert þessara ríkja hafa brugðið á það ráð að breyta hlutafélagsbönkum í beina ríkisbanka á því formi sem hér tíðkast þótt þau hafi í sumum tilfellum neyðst til þess að gefa ríkisábyrgð eða seðlabankastuðning á hlutafélagabönkum. Nei, menn vilja halda sig við takmarkaða hlutafélagsábyrgð þótt að sjálfsögðu megi jafnan velta því fyrir sér hvernig slík félög eru rekin. Það er aftur annað mál. Ég held að við eigum líka að líta til okkar eigin reynslu í þessari sögu. Því miður eru einmitt dæmi um það í okkar reynslu að ríkisreknir bankar sigldu heldur langt í fjárráðstöfunum áður en í taumana var gripið. Það eru þessi dæmi sem við skyldum hafa hugföst. Að sjálfsögðu verðum við að eta úr eigin aski og ekki apa eftir öðrum.