Samkeppnislög

114. fundur
Þriðjudaginn 23. febrúar 1993, kl. 17:21:40 (5377)

     Steingrímur J. Sigfússon :
    Hæstv. forseti. Það er nú búið að segja svo margt fallegt um hið frábæra samstarf í efh.- og viðskn. að ég held að ég láti nú nægja að vísa til þess. Það hefur svo sem ekkert verið ofmælt en ég held að vísan sé nógu oft kveðin. Engu að síður er það nú niðurstaðan að nokkurn veginn alger samstaða hefur tekist um afgreiðslu á þessu máli, efnisþáttum þess, fyrir utan þann eina kafla sem hér er flutt sérstök brtt. um af okkur þremur þingmönnum og lagt er til hér að falli niður, þ.e. margræddur XI. kafli frv. Ég kem

að honum síðar en ætla fyrst að víkja að tveimur brtt. sem fluttar eru af efh.- og viðskn. á þskj. 647 og 655.
    Í fyrra tilvikinu er á ferðinni tillaga sem lætur ekki mikið yfir sér, er lítils háttar breyting á upphafi 17. gr. en er samt að mínu mati mikilsverð og er þar á ferðinni lagfæring sem nefndin varð sammála um að gera að lokum en láðist eða misfórst að kæmi inn með brtt. við 2. umr. Að skilgreina nánar og með aðeins opnari hætti en áður hefur verið gert þær aðstæður sem fela samkeppnisráði vald til íhlutunar vegna samninga, aðstæðna eða skilmála eða athafna sem upp koma og geta haft skaðleg áhrif á samkeppni.
    Eins og greinin leit út í frv., þá hefði mátt túlka hana þannig að hún fæli ekki í sér heimild til handa samkeppnisráði að grípa inn í aðstæður þegar um kyrrstöðu væri að ræða og ekki væri hægt að vísa til einhverra tiltekinna skilmála, athafna eða aðgerða sem átt hefðu sér stað. Á það var bent að slíkt þyrfti ekki alltaf að vera fyrir hendi heldur gætu ósköp einfaldlega þær aðstæður skapast eða verið fyrir hendi sem ráðið teldi eftir sem áður nauðsynlegt að grípa inn í og þá þyrfti það að vera ótvírætt að lögin fælu í sér slíka heimild. Með brtt. á þskj. 647 er þessu kippt í liðinn og ég fagna því og tel að það styrki í raun og veru stöðu samkeppnisráðs og V. kafla frv. sem felur í sér úrræði og heimild samkeppnisráðs til þess að grípa til ráðstafana þar sem samkeppnishömlur eða önnur skaðleg þróun er í gangi á markaðnum.
    Síðan er það brtt. á þskj. 655 sem í lokin tókst samstaða um í nefndinni að flytja og vil ég þá ekki síður fagna því. Hún felur það í sér, eins og reyndar hefur þegar komið fram í máli formanns nefndarinnar sem mælti hér fyrir tillögunum, að við frv. bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða sem feli samkeppnisráði að gera á árunum 1993 og 1994 úttekt á eins og þar segir, með leyfi forseta: ,,stjórnunar- og eignartengslum milli fyrirtækja er starfa á íslenskum markaði.`` Og þetta skal gert í því skyni að kanna hvort í íslensku viðskiptalífi sé að finna alvarleg einkenni hringamyndunar óæskilegra tengsla eða valdasamþjöppunar sem takmarkað geti samkeppni eða hindrað frjálsa þróun viðskipta og skapi þar með hættu á brotum á lögum þessum. Síðan skal samkeppnisráð leggja þessa niðurstöðu sína fyrir viðskrh og viðskrh. síðan koma þeim á framfæri við Alþingi í formi skýrslu.
    Ég flutti ásamt fleiri þingmönnum á þingi í fyrra frv. til laga um breytingu á lögum um verðlag, samkeppnishömlur og óréttmæta viðskiptahætti, þau sem enn eru í gildi um þessi málefni en verða nú ekki öllu lengur ef svo fer sem horfir. Í því frv. voru ákvæði sem í raun og veru var ætlað að þjóna svipuðum tilgangi og þessi brtt. nú, þ.e. grípa á þeim málum sem mikið hafa verið til umræðu en minna hefur verið að gert í okkar viðskiptalífi, þ.e. meint tilhneiging til samþjöppunar, valds og fjármuna, ákveðinna hringamyndunareinkenna, sem menn hafa þóst greina hér í okkar viðskiptalífi. Hér er þetta fært í má segja almennan búning, þann búning að fyrst skuli fara fram vönduð úttekt á þessum þáttum í okkar viðskiptalífi og hið nýja samkeppnisráð hafi það verkefni með höndum. Það má kallast mjög eðlileg byrjun eða eðlileg nálgun á þessu viðfangsefni og hér eru ekki nefnd til sögunnar nein fyrirtæki öðrum fremur eða eitt svið viðskipta öðru fremur heldur skal þetta vera almenn úttekt, taka til allra greina viðskiptalífsins, allra fyrirtækja sem starfa á íslenskum markaði. Um þetta form varð sem sagt samstaða í nefndinni og ég bind vonir við að þetta verði svikalaust unnið á næstu árum, þessu og hinu næsta. Mér finnst miklu máli skipta að þessa úttekt skuli gera á grundvelli beinna fyrirmæla löggjafarvalds þar um til samkeppnisráðs. Út af fyrir sig má segja eins og bent hefur verið á að þetta sé sjálfkrafa á verksviði samkeppnisráðs og eigi að vera sjálfsagður hluti af starfsemi þess að fylgjast með þessum þáttum. Það má segja að hæstv. ráðherra hefði getað hrint slíku af stað með bréfi eða nefndaskipunum o.s.frv. og allt er það rétt. En það hefur aðra stöðu að þetta sé gert á grundvelli formlegra fyrirmæla í lögum frá löggjafanum og að afraksturinn skuli koma á nýjan leik fyrir Alþingi í formi skýrslu.
    Ég bind vonir við að þessari úttekt verði lokið á þessum tíma sem þarna er nefndur þannig að Alþingi geti síðla næsta árs haft niðurstöðurnar í höndum og skoðað þær og brugðist við í samræmi við þær ef ástæða þykir til. Ég sé þetta dálítið í því ljósi að menn verða að gera það upp við sig þegar þeir velja sér fyrirkomulag eða leikreglur í viðskiptalífinu hvaða lögmál menn ætla að láta ráða og það hlýtur að vera nokkuð annaðhvort eða í þessum efnum. Annaðhvort láta menn frjálsa samkeppni um það að verðleggja vörur og þjónustu á markaði og tryggja þá með tilteknum ráðstöfunum að sú samkeppni sé fyrir hendi eða menn gera það ekki og viðhafa þá önnur úrræði til þess að tryggja að viðskiptahættir séu þá eðlilegir og verðlagning sanngjörn. Ég held að það sé allra versta fyrirkomulagið að vera hálfvolgir og hafa einhverja samblöndu af hvoru tveggju sem engin skýr mörk ríkja um. Ef ekki er fyrir hendi sú virka samkeppni sem er nauðsynleg til þess að tryggja eðlilega verðlagningu og eðlilega viðskiptahætti, þá eiga menn að horfast í augu við það. Menn eiga ekki að blekkjast. Menn eiga ekki að láta telja sér trú um eða plata sjálfa sig með því að hér ríki samkeppni ef hún gerir það ekki í reynd. Ef í reynd er á ferðinni fákeppni eða einokun þar sem menn skipta upp markaði og ástunda í raun á bak við tjöldin óeðlilega viðskiptahætti en bak við framhlið sem á að kallast frjáls samkeppni, þá er það að mínu mati einhver versta útgáfan af viðskiptaháttum sem menn geta haft. Hættan er sú að menn sofi á verðinum. Það er auðvitað hægt að setja merkimiðann samkeppni á alla skapaða hluti, það er minnsta mál í heimi. En hún þarf að vera það í reynd til þess að hægt sé að binda vonir við að á grundvelli þeirra leikreglna verði viðskiptahættirnir eðlilegir og verðlagning sanngjörn.
    Þess vegna held ég að í tengslum við þessi nýju samkeppnislög sem í raun og veru kveðja hinn gamla hugsunarhátt opinberrar íhlutunar um verðlagningu og eftirlit með viðskiptum á þeim grundvelli, þá

sé algerlega nauðsynlegt að fara í svona ráðstafanir, fara í svona úttekt og horfast í augu við það hvar eru á ferðinni svið í okkar viðskiptum þar sem ætla má eða hætta er á því að samkeppni sé of takmörkuð, markaðsráðandi aðilar í raun og veru skipti upp á milli sín eða drottni yfir markaðnum og skammti sér þar afrakstur í skjóli slíkrar stöðu. Menn hljóta að þurfa að horfast í augu við það samtímis því að menn gefa t.d. endanlega frjáls ýmist þau svið viðskipta sem hafa lotið verðlagseftirliti eða beinlínis verðlagsákvörðunum áður hvort aðstæður í þeim viðskiptum séu þannig að menn séu þar tilbúnir til þess að taka við algerlega frjálsri verðlagningu. Þetta skiptir líka máli þegar rætt er um t.d. lýðræði í sambandi við stjórnun fyrirtækja, þegar rætt er um viðskiptasiðferði og því um líka hluti að greina og afla upplýsinga um, birta upplýsingar um þau einkenni hringamyndunar eða óæskilegra tengsla eða valdasamþjöppunar sem kunna að vera fyrir hendi og oft er rætt um að sé fyrir hendi í okkar litla viðskiptalífi. Með því að samstaða hefur tekist um þessa breytingu má segja að nánast sé búið að ná saman um öll þau einstöku efnisatriði sem rædd hafa verið eða komið hafa fram á fundum nefndarinnar í formi erinda þangað, í formi brtt. eða sjónarmiða sem þar hafa verið uppi fyrir utan e.t.v. eitt sem enn stendur eftir og brtt. er flutt um af hv. þm. Inga Birni Albertssyni. Fyrir svo utan enn fremur XI. kaflann um hina evrópsku eftirlitsstofnun og dómstól sem á að fá hér ákveðið verkefni samkvæmt samningnum um Evrópskt efnahagssvæði og tekið er inn í þessa löggjöf. Við leggjum til eins og fram hefur komið að sá kafli falli brott og færum fyrir því ýmis rök, fyrst og fremst auðvitað þau sem margoft hafa komið fram í umræðum um þetta mál að þarna er á ferðinni það valdaframsal til erlendra stofnana sem langsterkust rök hafa verið færð fram fyrir að brjóta í bág við heimildir eða ákvæði okkar stjórnarskrár um endanlegt vald íslenskra dómstóla o.s.frv. og skiptingu valdsins hér á einstökum sviðum.
    Í öðru lagi liggur það fyrir eftir þær sviptingar sem orðið hafa í meðferð þessa máls og brotthvarf Sviss úr samningnum eftir að svissneska þjóðin fékk sjálf að ráða sínum málum í þessu sambandi og afþakkaði þennan félagsskap, þá standast ekki þau ákvæði sem vísa til þátttöku EFTA sem stofnunar eða EFTA-ríkjanna sem slíkra þar sem a.m.k. eitt þeirra eða jafnvel fleiri verða ekki aðilar að samningnum um Evrópskt efnahagssvæði verði hann að veruleika því nú munu áhöld um það hvort Liechtenstein geti heldur orðið með sökum tengsla sinna við Sviss, a.m.k. í byrjun. Og þá hafa auðvitað vaknað spurningar um það fyrir utan hina viðurkenndu óvissu sem er um afdrif samningsins og mönnum er að verða æ betur ljós þessa dagana vegna þess að viðsemjendurnir, þjóðir eins og Spánverjar og fleiri, hafa nú ekki beinlínis verið að flýta sér að ljúka sínum þætti málsins. Ætli það standi ekki um það bil óbreytt frá því í desember að frv. til staðfestingar á samningnum var kallað aftur af spænsku ríkisstjórninni og allur undirbúningur að fullgildingu samningsins frá þeirra hlið var lagður til hliðar. Mér er ekki kunnugt um að þar hafi orðið nein breyting á síðan og svipað mun það standa hjá fleiri EB-ríkjum. Þessi óvissa liggur auðvitað fyrir sem og það sem nú hefur verið upplýst að nú sé það nýjasta uppi, sem glöggir menn þóttust reyndar þegar sjá eftir þá atkvæðagreiðslu að Svisslendingar felldu samninginn, að gera þyrfti í raun og veru meiri háttar breytingar, efnisbreytingar, á fjölmörgum greinum samningsins sjálfs um Evrópskt efnahagssvæði sem og samnings EFTA-ríkjanna innbyrðis um eftirlitsstofnun og dómstól. Þar með hlýtur að draga til þess að einnig verður að gera breytingar á orðanna hljóðan í fjölmörgum lögum eða frumvörpum sem hér hafa verið til umfjöllunar á Alþingi um sama efni, þar með talið þessum XI. kafla um samkeppnislög. Eða er það ætlan manna að það muni geta staðið áfram þar sem talað er t.d. um samning EFTA-ríkja um eftirlitsstofnun og dómstól eða Eftirlitsstofnun EFTA og dómstól EFTA? ( VE: En þetta heitir sömu nöfnum.) En þetta eru ekki sömu fyrirbærin, hv. formaður, eins og þau voru hugsuð þegar þessi samningur var settur niður. ( VE: En textinn er samt óbreyttur.) Það má mikið vera ef þetta getur staðið svona eftir það að EFTA sem stofnun er ekki lengur aðili að þessum samningi heldur nokkur EFTA-ríki og ekki einu sinni ljóst kannski hve mörg þau verða í byrjun sem endanlega verða þátttakendur í samningnum komist hann á, samanber það sem ég sagði áðan um Liechtenstein.
    Í öllu falli er það okkar skoðun sem þessar tillögur flytjum að langeðlilegast sé við þessar aðstæður að kalla kaflann til baka, afgreiða þessa löggjöf sem staðið getur sjálfstætt á eigin forsendum og þjónað sínum markmiðum og tilgangi hér í hinum íslenska viðskiptaheimi, en leggja til hliðar þennan kafla sem deilur eru um og bíða með frekari vinnu að honum þangað til niðurstaðan verður ljós um afdrif hins Evrópska efnahagssvæðis. Ég fullyrði að það væri hægur leikur að ná um það samstöðu hvernig farið yrði með þá lagavinnu sem í framhaldinu þyrfti þá að vinna og væri að mörgu leyti eðlilegast að viðkomandi þingnefndir og meiri hlutinn í viðkomandi þingnefndum flytti þá sem sjálfstæð frumvörp þá efnisþætti sem þyrfti að taka inn í löggjöf ef samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið ætti að verða að veruleika. Þetta hefði þann stóra kost í för með sér, a.m.k. hvað þetta mál snertir, að þar með hyrfi út úr því það eina atriði sem eftir stendur og ágreiningur er um. Ég vil nú leyfa mér að ítreka þá ósk til hv. stjórnarliða og ekki síst hæstv. viðskrh.: Er ekki eitthvað á sig leggjandi að geta nú lokið þessu máli eftir þá miklu vinnu sem í það hefur verið lögð og þá ágætu samstöðu sem hefur tekist um alla efnisþætti þess fyrir utan þennan kafla, að varðveita hana nú með því að leggja þennan kafla til hliðar, afgreiða málið að öðru leyti þannig að allir geti nú greitt því atkvæði eins og ég vænti að muni verða ef þessi kafli yrði tekinn út? Ég sé ekki annað en sú staða sé uppi að langlíklegast sé að það þurfi hvort sem er að taka ákvæði kaflans upp og breyta þeim með sjálfstæðu lagafrv., þá e.t.v. síðar á árinu þegar búið verður að gera breytingar á hinum fjölmörgu ákvæðum samningsins um Evrópskt efnahagssvæði og samningsins milli EFTA-ríkjanna um eftirlitsstofnanir og dómstól sem í farvatninu eru. Mér er tjáð samkvæmt upplýsingum úr utanrrn. að þar séu menn búnir að afskrifa þann möguleika, sem fyrst var uppi hafður af utanrrh., að þetta væri einföld tæknileg lagfæring og þyrfti ekkert að gera nema flytja einhvers konar bókun eða smávægilegan viðauka við samninginn sem kippti þessu öllu í liðinn þó að Sviss væri á brottu hlaupið.
    Nú munu menn á þeirri skoðun að þetta gangi ekki heldur verði að fara inn í samninginn sjálfan og breyta í hverri einstakri grein hans orðunum þar sem þau koma fyrir, stroka út Sviss alls staðar þar sem það stendur og breyta nafngiftum á stofnunum o.s.frv. Þá leyfir maður sér að álykta að með svipuðum hætti yrði að fara í gegnum þennan pakka á nýjan leik af okkar hálfu Íslendinga ef þau ósköp ganga þá yfir okkur, ef við erum ekki undan þessari kvöð leystir með einhverjum öðrum hætti eins og gerst hefur nú jafnan hingað til þegar á hefur átt að herða, þá hafa einhverjar ytri og innri aðstæður orðið þess valdandi að málið hefur frestast. Ég mundi mjög gjarnan vilja sjá það að þetta gæti orðið að samkomulagi, en þetta á auðvitað ekki aðeins við um þennan kafla þó að hann sé hér á dagskrá heldur öll önnur mál sem tengjast Evrópska efnahagssvæðinu og eru hér í sambærilegri stöðu. Það verður auðvitað hundleiðinlegt, svo ekki sé meira sagt, að standa þá í því skaki í hvert sinn sem mál kemur hér á dagskrá að þrefa um það hvort það sé nú eðlilegt að vera að afgreiða þetta svona, setja svona lög út í loftið sem standast ekki og munu aldrei verða að veruleika frekar en samningurinn sjálfur sem var píndur hér í gegn og í hausi hans stendur að einn af þátttakendum samningsins sé Sviss sem búið var að fella það í þjóðaratkvæði að taka þátt í samningnum. Þetta hefur einn ágætur þingmaður kallað sóðaskap í lagasetningu og er alls ekki ofmælt. Það er auðvitað alls ekki skemmtilegt að þurfa að standa svona að hlutunum að vera að setja hér inn í íslenska lagasafnið, eða a.m.k. inn í íslensk lög þó að lagasafnið sem slíkt verði nú kannski ekki gefið út á þeim tíma, hvert ákvæðið af öðru sem er marklaust í reynd að þessu leyti. En ef ekki næst um það neitt samkomulag, þá standa menn auðvitað frammi fyrir því. Hv. stjórnarliðum hefur verið annað betur lagið í þessu máli fram að þessu heldur en taka skynsamlegum rökum, sönsum ef svo má að orði komast, og hafa rembst við eins og rjúpan við staurinn að troða þessum hlutum í gegn í algeru tilgangsleysi eins og jafnoft hefur komið á daginn. Hverju þjóna nú, eftir á að hyggja, bolabrögðin hér við afgreiðslu EES-samningsins fyrir eða um áramótin? Hverju þjónar nú þjösnaskapurinn í sambandi við samninga við Evrópubandalagið um samskipti á sviði sjávarútvegs sem ríkisstjórnin hefur síðan sjálf ákveðið að láta liggja og ekki fullgilt með skjalaskiptum, nákvæmlega eins og við lögðum til við hana að gera áður en samningurinn var píndur hér í gegnum Alþingi? Er nú ekki hægt einu sinni að ná saman um þessa hluti áður en menn gangast á með atkvæðum heldur en láta það síðan birtast eftir á að í reynd hefði það verið réttara að fara að okkar ráðum En sem sagt, ég hef ekki þann sannfæringarmátt sem dugar til þess að snúa mönnum á réttan veg í þessum efnum og verður þá að hafa það og við neyðumst þá til að ganga til atkvæða um þennan kafla. Þær aðstæður eru fyrir hendi í mínum flokki og hvað mig varðar að ég treysti mér ekki til að styðja þetta frv. ef þessi kafli verður þarna inni, því miður, þó að ég sé samþykkur öllum efnisákvæðum þess öðrum en kaflanum og neyðist þá, liggur mér við að segja, til þess að sitja hjá við endanlega afgreiðslu málsins því að að vandlega athuguðu máli teljum við það ekki fært að greiða þessum kafla atkvæði, bæði vegna þess að það sé beinlínis rangt að vera að setja hann sem lög nú við þessar aðstæður og ekki síður þá vegna hins að hann tengist þeim efasemdum sem menn hafa í ríkum mæli um að afgreiðsla þessa samnings um Evrópskt efnahagssvæði samræmist ákvæðum íslensku stjórnarskrárinnar.