Samkeppnislög

114. fundur
Þriðjudaginn 23. febrúar 1993, kl. 17:44:13 (5378)

     Björn Bjarnason (andsvar) :
    Herra forseti. Ég vil láta það koma fram að ég tel að XI. kafli þessa frv. geti staðið óbreyttur og það sé ekkert það að gerast varðandi samninga EB-ríkjanna og EFTA-ríkjanna um EES-samninginn sem valdi því að þessi kafli geti ekki staðið óbreyttur. Það er þannig tekið til orða í honum að ég held að það breyti engu þær tæknilegu breytingar sem verið er að gera á EES-samningnum. Það eina sem hugsanlega mætti fetta fingur út í er 1. mgr. 44. gr. þar sem er talað um EFTA-ríkin með ákveðnum greini en ég held að það sé ekki þess eðlis að það komi til með að valda nokkrum misskilningi fyrir utan það að þessi kafli laganna tekur ekki gildi nema EES-samningurinn taki gildi. Ég held að þarna sé ekki um þau vandamál að ræða sem hv. síðasti ræðumaður gat um.
    Ég vil aðeins láta þá skoðun mína í ljós hér að ég tel að brtt. á þskj. 655 frá efh.- og viðskn. sé óþörf. Ég held að það hljóti að teljast falið í 1. gr. frv. og í öðrum greinum frv. að samkeppnisráði sé skylt að halda uppi slíkum athugunum varðandi viðskiptalífið og það sé óþarfi að setja sérstakt árabil inn í það mál eða þá sérstaka skýrslu og kunni að verða til þess að menn skýri t.d. 1. gr. þrengra en þeir mundu ella gera. Þess vegna tel ég að þessi brtt. sé með öllu óþörf.