Samkeppnislög

114. fundur
Þriðjudaginn 23. febrúar 1993, kl. 17:49:01 (5380)

     Steingrímur Hermannsson :
    Herra forseti. Mér sýnist að frv. til samkeppnislaga hafi tekið miklum breytingum til bóta og líklega er það réttmætt sem komið hefur fram hjá þingmönnum í hv. nefnd að hún hefur unnið hið ágætasta starf. Ég fyrir mitt leyti vildi gjarnan greiða þessu máli mitt atkvæði en XI. kaflinn veldur mér vandræðum af tveimur ástæðum. Mér sýnist að það sé rétt sem hv. þm. Björn Bjarnason sagði hér áðan að samkvæmt þeim drögum sem við höfum fengið í utanrmn. að breytingum sem gera verður á EES-samningnum að mati embættismanna, sé ekki þörf annarra breytinga á þessum kafla sem hann nefndi, EFTA-ríkjanna. Mér sýnist þetta vera rétt mat. Hitt er svo annað mál að þetta eru bara drög og var skýrt tekið fram að um það ætti enn þá eftir að fjalla. Við sjáum ekki lok þessa starfs enn þá. Það má vel vera, eins og kemur fram í drögunum, að menn kjósi að nefna þessar stofnanir eftir sem áður eftirlitsstofnun EFTA og dómstól EFTA. En væri ekki að öllu leyti skynsamlegra að bíða með að setja slík heiti í íslensk lög þar til ljóst er hver niðurstaða verður af þeim breytingum sem verið er að gera á EES-samningnum? Það er alla vega ljóst að breytingarnar eru langtum meiri en utanrrh. taldi þegar um þær var rætt við afgreiðslu EES-samningsins. T.d. er breytingin á samningnum sjálfum og helstu viðaukum upp á 22 greinar. Þar að auki eru breytingar á fjölmörgum öðrum viðaukum í sérstöku samkomulagi sem verið er að vinna að. Þó ég sé sammála því sem kom fram hjá hv. þm. þá held ég að út af fyrir sig væri eðlilegra að bíða með samþykkt þessa kafla þar til lokaniðurstaða liggur fyrir.
    Það veldur mér ekki síður erfiðleikum að í þessum kafla eru þau ákvæði sem æðimargir telja brot á íslenskri stjórnarskrá, þ.e. framsal valds til erlendrar eftirlitsstofnunar og dómstóls sem alls ekki fær staðist 2. gr. stjórnarskrárinnar. Ég ætla ekki að rekja hér þau þungu rök að mínu mati sem að þessu liggja. Að vísu má líka segja að það er búið að samþykkja þetta sem ég vil kalla stjórnarskrárbrot með samþykkt EES-samningsins. Hins vegar treysti ég mér ekki til að greiða því atkvæði í þessu máli sem ég að öðru leyti vildi gjarnan styðja.
    Ég mun því greiða þeirri tillögu atkvæði sem hér er komin fram að fella þennan kafla á brott. Mér þykir afar leitt að ekki skuli fallist á þá auðveldu lausn að flytja þetta mál í tvennu lagi. Nefndin hefði getað flutt málið að öllu leyti nema þennan kafla og það hefði runnið í gegn án nokkurrar andstöðu og hlotið, hygg ég, atkvæði allra þingmanna. Ég hef engan heyrt mæla gegn þessu frv. til samkeppnislaga sem slíku. Þá hefði mátt flytja hitt sem annað mál þegar þar að kemur eða breytingu við þetta frv. og ekki skapa þau vandræði sem nú eru í atkvæðagreiðslunni. Mér þykir leitt að ekki skuli nást samkomulag um það.
    Ég get tekið undir það með hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni að vitanlega væri eðlilegast að bíða með allar þessar breytingar á lögum vegna EES-samningsins þar til við sjáum endalok þess máls. Ég er alls ekki að mæla gegn því að breytingarnar verði gerðar. Mér er fullkomlega ljóst að breytingarnar verður að gera og ætla ekki að verða til neinna trafala að því leyti og mun ekki tefja það mál. Vitanlega verðum við eftir að EES-samningurinn er orðinn að lögum og við aðilar að Evrópsku efnahagssvæði að gera það sem við höfum skuldbundið okkur til með samningnum og breyta þeim lögum sem við verðum að gera. En hitt fyndist mér öllu eðlilegri málsmeðferð og meira til friðs á þinginu en sú sem kemur fram t.d. í þessu frv. Eins og ég sagði áðan er þetta frv. sérstaklega viðkvæmt vegna stjórnarskrárákvæðisins.
    Ef tillaga um að fella þetta brott verður felld, þá mun ég sitja hjá við afgreiðslu málsins þótt ég sé samþykkur ákvæðum frv. öðrum en XI. kaflanum.